Leigubílar Til átaka hefur komið við Leifsstöð á milli leigubílstjóra vegna samkeppni um farþega. Hafa erlendir bílstjórar haft sig þar í frammi.
Leigubílar Til átaka hefur komið við Leifsstöð á milli leigubílstjóra vegna samkeppni um farþega. Hafa erlendir bílstjórar haft sig þar í frammi. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Yfirvöld búa að svo stöddu ekki yfir staðfestum upplýsingum um tiltekna atvinnu- eða rekstrarleyfishafa sem hafa svindlað í prófum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort til greina komi að ógilda próf,“ segir í svari innviðaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins. Hann spurði ráðherrann hvort til greina kæmi að ógilda leigubílapróf og svipta leigubifreiðastjóra atvinnuleyfi, ef í ljós kæmi að þeir hefðu svindlað við próftöku.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Yfirvöld búa að svo stöddu ekki yfir staðfestum upplýsingum um tiltekna atvinnu- eða rekstrarleyfishafa sem hafa svindlað í prófum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort til greina komi að ógilda próf,“ segir í svari innviðaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins. Hann spurði ráðherrann hvort til greina kæmi að ógilda leigubílapróf og svipta leigubifreiðastjóra atvinnuleyfi, ef í ljós kæmi að þeir hefðu svindlað við próftöku.

Prófasvindl var upplýst

Morgunblaðið hefur fjallað um meint svindl útlendinga á prófum sem veita réttindi til leigubílaaksturs og hefur a.m.k. einn aðili gefið sig fram við blaðið og játað að hafa aðstoðað útlendinga við svindl. Fram hefur komið að kennslan fer fram á íslensku og einnig eru prófin á íslensku og því hefur vakið furðu að próftakar sem hvorki skilja íslensku né tala hana hafi staðist prófin. Einnig hefur verið lýst aðferðum þeirra við próftökuna sem fer þannig fram að tekin er mynd af prófinu á farsíma, myndin send aðila úti í bæ og mynd með réttum svörum síðan send til baka.

Brugðist við grun um svindl með upplýsingabeiðni

Spurningu um það hvernig ráðherrann ætli að bregðast við rökstuddum grun um svindl við próftöku umsækjenda um atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs svaraði ráðherra þannig að útgáfa atvinnuleyfis til leigubifreiðaaksturs félli undir starfssvið Samgöngustofu skv. lögum um leigubifreiðaakstur.

„Viðbrögð stofnunarinnar vegna gruns um svindl hafa verið að senda erindi á viðkomandi námskeiðshaldara og óska eftir upplýsingum og viðbrögðum og í framhaldi fara í eftirlitsheimsókn, gera athugasemdir og eiga samtal við námskeiðshaldara. Lokaskýrsla er unnin í kjölfar eftirlitsins og send námskeiðshaldara. Námskeiðshaldari hefur gripið til aðgerða, m.a. með því að leggja fyrir próf á bæði íslensku og ensku, banna síma og auka eftirlit með prófum,“ segir í svarinu.

Aðeins einn skóli heldur námskeið til leigubifreiðaaksturs en það er Ökuskólinn í Mjódd og ber Samgöngustofu að hafa eftirlit með framkvæmdinni.

Í svarinu segir að eftirlit fari þannig fram að fulltrúi Samgöngustofu mæti á staðinn, ýmist óundirbúið eða undirbúið, og fylgist með kennslu og/eða prófum. Hann ræðir við starfsmenn, spyr spurninga og leiðbeinir og sendir skýrslu að heimsókn lokinni, þar sem bent er á það sem betur megi fara og tillögur gerðar til úrbóta.