Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Opin gagnrýni á störf alþingismanna síðastliðin sjö ár. Þeir taki til sín sem eiga.

Werner Ívan Rasmusson

Íslenskan á mörg góð orðtök. Eitt þeirra er: Sjaldan launar kálfur ofeldið. Þetta sannast vel á alþingismönnum okkar, því þeir eru afkomendur eða með öðrum orðum „kálfar“ okkar sem við ólum upp og komum til manns og mennta. Synd væri að segja að umhyggjan fyrir eldri borgurum landsins hafi verið höfð í fyrirrúmi hjá fyrrnefndum þingmönnum. Hér á annað gott orðtak við, nefnilega: Gleymt er þá gleypt er.

Í miðri covid-kreppunni var samþykkt á Alþingi að veita fé til byggingar á arðbærum innviðum. Tilgangurinn var meðal annars að auka hagvöxtinn. Hugmyndin var góð, en valið á arðbærustu innviðunum orkaði nokkuð tvímælis, að ekki sé meira sagt. Og valið var mótatkvæðalaust Hús íslenskunnar, stuðlabergsvirki fyrir Landsbankann og skrifstofuhöll fyrir Alþingi, sem þáverandi forseti þingsins, Steingrímur J. Sigfússon, kallaði þjónustuhús. Landsbankavirkið reyndist vel við vöxt, því auk bankans rúmast tvö ráðuneyti í húsinu, en það rými mun hafa kostað ríkissjóð sex miljarða.

Á þessum tíma var mikill fráflæðisvandi hjá Landspítalanum vegna liðlega 90 gamalmenna sem hlotið höfðu læknismeðferð en ekki var hægt að útskrifa því þeir áttu ekki í nein hús að venda. En þeir tóku upp legurými aðgerðadeildanna og biðlistar eftir oft lífsnauðsynlegum aðgerðum lengdust. Hvers vegna kom engum til hugar að byggja hjúkrunarheimili og slá tvær flugur í einu höggi; bæta starfsumhverfi spítalans til þess að sinna þurfandi sjúklingum og huga að velferð eldri borgara með góðu skjóli? Hvað voru þingmenn félagshyggjuflokkanna að hugsa þegar þeir samþykktu forgangsröðun fjárfestinganna?

Í nýja Landsbankahúsinu munu vera miklir stigar og gangar. Í viðtali við talsmann bankans kom fram að það væri svo gott fyrir starfsfólkið að hittast á göngunum og fá hugmyndir. Ég vona bara að góðir gangar séu í nýju skrifstofuhöllinni, svo þingmenn geti gengið um þurrum fótum og fengið ferskar hugmyndir.

Örlaganornirnar virðast gera talsverðan mannamun þegar þær útdeila gjöfum sínum. Mér finnst eins og of margir þeirra þingmanna, sem setið hafa á Alþingi síðastliðin sjö ár, hafi orðið út undan þegar brjóstvitinu – með öðrum orðum heilbrigðri skynsemi – var úthlutað. Og það hefur því miður sýnt sig berlega í mörgum samþykktum hæstvirts Alþingis undanfarið.

Alþingismenn eru kjörnir til þess að vinna að og tryggja heill og hag lands og þjóðar. Þýlyndi gagnvart erlendum hagsmunaaðilum er slæmur löstur og nauðsynlegt fyrir forsvarsmenn smáþjóðar að vera vel á verði.

Það hugsar enginn betur um hagsmuni okkar en við sjálf.

Gylliboð reynast oft varhugaverð.

Höfundur er eldri borgari.