Það er haldið vel utan um þá krakka sem eru talin efni í afreksfólk með sambærilegum hætti eins og í öðrum keppnisgreinum.
Það er haldið vel utan um þá krakka sem eru talin efni í afreksfólk með sambærilegum hætti eins og í öðrum keppnisgreinum. — Ljósmynd/Landsmót
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siggi stormur er búinn að lofa góðu veðri í sumar,“ svarar Hjörtur Bergstað formaður Fáks spurður hverju gestir á komandi landsmóti eigi von á. Fyrir skemmstu settist blaðamaður niður með Hirti og Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur formanni Spretts…

Siggi stormur er búinn að lofa góðu veðri í sumar,“ svarar Hjörtur Bergstað formaður Fáks spurður hverju gestir á komandi landsmóti eigi von á. Fyrir skemmstu settist blaðamaður niður með Hirti og Jónínu Björk Vilhjálmsdóttur formanni Spretts á kaffistofunni í Lýsishöllinni í Fáki og var farið yfir víðan völl.

„Við erum mjög þakklát Fáki fyrir að taka það að sér að hýsa mótið. Við áttum of langt í land með svæðið okkar, þetta svæði var tilbúið og við erum þakklát fyrir samstarfið. Við komum svo öflug að undirbúningnum með Fáki þannig að Fákur situr ekki bara einn í súpunni heldur erum við að gera þetta saman. Við erum ólík hestamannafélög og saman myndum við sterka heild,“ segir Jónína.

Hjörtur segir landsmótshald í vöðvaminni Fáksmanna og voru þau því reiðubúin í verkefnið.

„Það sem ég sé út úr þessu er að við eigum að vera með meira samstarf á miklu fleiri sviðum. Við höfum komið miklu sterkari út úr þessu,“ segir Hjörtur.

Höfuðborg íslenska hestsins

Á höfuðborgarsvæðinu eru fjögur starfandi hestamannafélög: Fákur, Sprettur, Sörli og Hörður. Hestamannafélagið Fákur var stofnað í Reykjavík árið 1922 og er elsta hestamannafélag á landinu.

„Fákur er gamalt hverfi og virkar eins og íbúabyggð. Foreldrarnir flytja ekki burt úr hesthúsunum svo börnin þurfa að fara eitthvað annað og koma heim seinna. Við getum alveg búist við því að fólk komi alltaf til okkar,“ segir Hjörtur.

Árið 2012 var hestamannafélagið Sprettur stofnað þegar ákveðið var að færa Glaðheimasvæðið upp á Vatnsenda og hestamannafélögin Andvari í Garðabæ og Gustur í Kópavogi sameinuðust í Sprett.

„Sprettararnir eru, að okkur finnst, aðeins yngri félagsmenn. Frá stofnun þess hófst mikil uppbygging á svæðinu og mikið af ungu fólki sem kom sér fyrir á svæðinu í nýlegum hesthúsum. Við erum með gríðarlega flotta inniaðstöðu og höfum haldið margar mótaraðir þar,“ segir Jónína.

Hestamennska í höfuðborginni

Áskorun hestamanna á höfuðborgarsvæðinu í dag er nánd við aðra útivist. Félagsmenn Fáks og Spretts höfðu lengi vel haft náttúruna í útjaðri höfuðborgarsvæðisins út af fyrir sig án mikillar skörunar við annað útivistarfólk. Í covid-faraldrinum breyttist það mikið þótt breyting hafi átt sér lengri aðdraganda. Í dag eru útivistarsvæðin í Elliðaárdal, við Rauðavatn og Heiðmörk nýtt í alls kyns útivist árið um kring.

„Hestamennska á höfuðborgarsvæðinu er að glíma við sömu áskoranir, byggðin er að þéttast að okkur. Við þurfum að kljást við fjölbreyttari samsetningu af íþróttaiðkun með hestamennskunni. Við liggjum öll í útjaðrinum á höfuðborgarsvæðinu og við eigum að vinna meira saman því við erum að fást við sömu viðfangsefnin,“ segir Jónína.

Hjörtur tekur undir og brýnir að hestamenn verði að vera reiðubúnir til þess að aðlagast breyttum tímum svo allir geti notið náttúrunnar saman.

„Við þurfum að passa okkur; þó að við höfum gengið um allt þetta land og átt það með fuglunum þá eru fleiri að nota það og þurfum við að eiga í jákvæðu samtali við þá sem líka nota og nýta landið til útivistar,“ segir Hjörtur.

Breytt landslag

Landslagið í hestamennsku hefur tekið stakkaskiptum undanfarna áratugi. Sú ímynd hestamennskunnar að hestamenn séu bara á fylleríi uppi á fjöllum hefur farið dvínandi. Að fara ríðandi á mannamót með bjór og pela er ekki eins algengt og áður. Aukinn metnaður fyrir faglegri umgjörð hefur farið vaxandi er hestamennska hefur verið skilgreind sem íþrótt.

„Kúltúrinn hefur breyst. Ég hefði ekkert endilega óskað barni mínu að vera í hestamennsku fyrir 50 árum þegar meiri óregla og óreiða tengdist hestamennskunni,“ segir Hjörtur.

„Þetta er í dag alvörusport, íþrótt á hæsta stigi,“ segir Jónína.

Öflugt æskulýðsstarf

Jónína segir að Landssamband hestamanna hafi lagt mikla vinnu í að betrumbæta ímynd hestamennskunnar og skapa íþróttamannslegt umhverfi til að halda utan um yngri kynslóðirnar.

„Hjá Landssambandinu er krökkum kennd íþróttamannsleg hegðun og til að mynda spjalla sálfræðingar við þau. Það er vel haldið utan um krakka sem eru efni í afreksíþróttafólk með skemmtilegum hætti eins og er gert í öðrum íþróttum. Það er alls konar starf sem er verið að sinna sem setur íþróttina á hæsta stig. Við erum farin að skilgreina okkur sem íþrótt og haga okkur eftir því,“ segir Jónína.

Þar að auki er æskulýðsstarf um allt land orðið mjög öflugt. Vænta má að fjöldi barna og unglinga sem stunda námskeið á vegum félaganna hlaupi á hundruðum og segir Jónína að Sprettur hafi haft rétt um 200 börn og unglinga á námskeiðum í Spretti í vetur.

Fjölskyldusport

Fyrir hestamenn er hestamennska ekki bara áhugamál heldur lífsstíll. Jónína og Hjörtur hafa bæði verið í kringum hesta frá barnsaldri og stunda hana nú með börnum sínum.

Þau segja hestamennsku hafa mikið forvarnargildi þar sem nánd barna við fjölskyldumeðlimi er mikil. Þá hefur hestamennska þann kost að margar kynslóðir geta stundað og notið hennar saman. Sjálf kveðst Jónína lánsöm að vera í hesthúsi þar sem fjórar kynslóðir hestamanna koma saman.

„Amman kemur og sækir barnabörnin úr skólanum og fer með þau upp í hesthús þar sem þau hitta oft langömmu og langafa. Dóttir mín er öllum stundum eftir skóla í hesthúsinu en á fimmtudögum á amman alltaf kósídag með yngri syni mínum þar sem þau brasa ýmislegt saman í hesthúsinu. Það eru ómetanleg tengsl og minningar sem verið er að skapa,“ segir Jónína.

„Þú ert mun nær börnum þínum í hestamennsku en í boltaíþróttum þar sem þú skutlar þeim á æfingu og segir svo bless og ferð. Í hestamennsku farið þið saman í hesthúsið og stundið íþróttina saman. Mér finnst það dýrmætast við hestamennskuna því þú þekkir börnin þín miklu betur en í einhverju öðru,“ segir Hjörtur.

Hann brýnir mikilvægi þess að fólk missi ekki tak á hjarta hestamennskunnar.

„Við eigum að leggja samkeppnina til hliðar í þessu. Þetta er fjölskyldan og fyrst og fremst áhugamál og við eigum að hafa gaman. Oft á tíðum þegar fólk er komið inn á keppnisvöllinn gleymist af hverju við erum í hestamennsku. Við missum fókusinn; að við erum í þessu til að eiga samneyti við íslenska hestinn. Við eigum að njóta þess að sitja á baki á honum, brosa, njóta stundarinnar og fallegrar náttúru.“

Vilji til verks

Hestamannamót eru að mestu keyrð áfram af ástríðu hestamanna. Fólk tekur sér gjarnan frí úr vinnu til að vera sjálfboðaliðar í hestamennsku.

„Það er svolítið eins og það var í gamla daga og okkur hefur tekist að halda þessum sjálfboðaliða-anda innan hestamennskunnar,“ segir Jónína.

Mikið umstang er að halda landsmót. Umfram sjálfboðaliðana sem starfa meðan á mótinu stendur kemur mikill fjöldi að mótinu með öðrum hætti, til að mynda við girðingarvinnu eða í stjórnarstörfum. Hjörtur og Jónína vænta þess að í heild verði fjöldi sjálfboðaliða hátt í 200 manns.

„Það er gríðarlega mikið af fólki sem er búið að leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu til þess að búa til þennan viðburð. Það skiptir svo miklu máli að þetta gangi. Vinurinn okkar uppi þarf líka að vinna með okkur því að við þurfum gott veður svo allir uppskeri það sem búið er að sá,“ segir Hjörtur.