Skemmtidagskráin hefst á fimmtudeginum með setningarathöfn á Hvammsvelli.
Skemmtidagskráin hefst á fimmtudeginum með setningarathöfn á Hvammsvelli. — Ljósmynd/Landsmót
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er mjög harður og áhugasamur kjarni sem sækir alltaf landsmót heim og þetta er ekki síður mannlífsveisla. Fólk kemur hérna og hittir kollega sína hvaðanæva af landinu eða erlendis frá þannig að þetta er ekki síður mannfögnuður þó hestarnir séu auðvitað í aðalhlutverki.

Allt er að verða klappað og klárt fyrir Landsmót hestamanna í Reykjavík sem haldið verður í fjórða sinn á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks og þriðja skipti á síðustu tólf árum. Forsala fyrir mótið gekk vel og vænta má að sjö til átta þúsund manns mæti á mótið, þar af um 15% erlendir hestaunnendur.

„Við erum að leggja lokahönd á framkvæmdir á svæðinu til þess að geta tekið á móti þessum þúsundum gesta sem sækja landsmót. Undirbúningurinn hefur gengið vel og við erum full tilhlökkunar fyrir komandi móti,“ segir Einar Gíslason framkvæmdastjóri mótsins.

Aðgengi til fyrirmyndar

Aðgengi er með sama sniði og á landsmótinu árið 2018 í Fáki og var ekki talin þörf á að breyta fyrirkomulaginu.

„Það er komin góð reynsla á að halda landsmót í Víðidal og það er sáralitlu sem hefur verið breytt hvað varðar aðkomu gesta að svæðinu og innra skipulagi þess. Það eru alltaf einhverjar breytingar á milli móta, eitthvað sem má bæta, en svona í stóru myndinni er þetta bara svipað og hefur verið.“

Einar segir það vera mikinn kost að halda mótið í bænum og til að mynda sé fjölbreytt úrval af gistingu í nálægð við svæðið sem og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Mikil afþreying sé einnig í boði sem gestir geta sótt sér ef þeir fá þörf fyrir að gera eitthvað annað en að horfa á hesta í tíu til tólf klukkutíma á dag.

„Tjaldsvæðið er skipulagt hér á túnunum um 100 metra frá aðalvellinum og þar eru líka víðfeðm bílastæði sem hafa hingað til dugað á þessu móti en aðkoma að þeim er af Breiðholtsbrautinni við Dýraspítalann. Þá eru samgöngur mjög þægilegar með strætó, bæði héðan og niður í miðbæ sem og um höfuðborgarsvæðið. Svo er náttúrulega heilmikið af afþreyingu í okkar nánasta nágrenni eins og sundlaugar, Árbæjarsafn, Rauðhólar og Heiðmörkin.“

Landslið skemmtikrafta mætir til leiks

Hestar og knapar verða ekki þeir einu sem sýna listir sínar á mótinu því von er á landsþekktum tónlistamönnum á mótið til að rífa stemninguna upp. Skemmtidagskráin hefst á fimmtudeginum með setningarathöfn og heldur síðan áfram dagana á eftir.

„Það verður landslið skemmtikrafta sem kemur hérna fram, til dæmis Magni, Jónsi, Emmsjé Gauti, Herra Hnetusmjör, Sigga Beinteins, Stebbi Hilmars og Helgi Björns. Sem sagt ungir skemmtikraftar í bland við þá eldri.“

Þegar dagskrá lýkur á keppnisvellinum á fimmtudag, föstudag og laugardag verður slegið upp veislu í Lýsishöllinni eins og hefð er fyrir.

„Svo verður líka hliðardagskrá hér og til að mynda verða hoppukastalar fyrir börn, andlitsmálning og barnasvæði fyrir þau yngstu.“

Veitingar í Lýsishöllinni

Lýsishöllinni verður breytt í mathöll meðan á mótinu stendur þar sem boðið verður upp á heimilismat og eins verða margir eftirsóttir matarvagnar við reiðhöllina, þar á meðal vagn frá Silla kokki en hann var kosinn götubitabíll ársins 2023.

„Silli kokkur, Wingman, Fish and Chips, Bæjarins bestu og fleiri verða hérna með okkur ásamt minni aðilum. Þá verður mathöll í og við reiðhöllina í Víðidal fyrir landsmótsgesti,“ segir Einar og bætir við að auk þess verði markaðstjald á svæðinu þar sem allir helstu hesta- og útivistarvöruframleiðendur verði með vörur á frábæru verði fyrir landsmótsgesti.

Mannlífsveisla

Ekki hefur veður verið sérlega hagstætt á síðustu þremur landsmótum en vætutíð og kuldi hefur einkennt mótin. Allt er þegar þrennt er og eru vonir um veðursæld í ár. En Einar segir margt þurfa að ske til að draga úr gleði hestamanna.

„Þetta er mjög harður og áhugasamur kjarni sem sækir alltaf landsmót heim og þetta er ekki síður menningarveisla. Fólk kemur hérna og hittir kollega sína hvaðanæva af landinu eða erlendis frá, þannig að þetta er ekki síður mannfögnuður þó hestarnir séu auðvitað í aðalhlutverki.“

Eftir langan og viðburðaríkan vetur er mikil spenna hjá hestamönnum að hittast og fagna íslenska hestinum saman.

„Það er bara gríðarleg tilhlökkun fyrir mótinu og maður skynjar það í kringum sig og ekki síst í félögunum sem standa að mótinu en það eru Fákur og Sprettur. Nú eru til að mynda úrtökur og íþróttamót í fullum gangi víða um land og allt er þetta upptakturinn að hápunktinum sem er landsmót,“ segir Einar að lokum.

Gæðingakeppni eða íþróttakeppni

Á landsmóti árið 2022 var prófað að hafa íþróttakeppni í meistaraflokki með gæðingakeppninni. Íþróttakeppnin vakti lukku og hefur verið ákveðið að halda henni áfram. „Við munum þannig sjá bæði bestu hesta landsins í gæðingakeppninni og bestu hesta landsins í íþróttakeppninni,“ segir Einar.

Áherslurnar í íþrótta- og gæðingakeppni eru ólíkar. Í íþróttakeppni er lögð meiri áhersla á hlutverk knapans, það er reiðmennsku knapans, takt, hraða og form.

Í gæðingakeppni er íslenski gæðingurinn í lykilhlutverki. Því er keppnisformið frjálslegra og hentar betur flestum hestum. Það eru minni kröfur gerðar um nákvæmni, heldur en um vilja, kraft og rými gangtegunda.