Bryndís Guðmundsdóttir fæddist á Hrafnabjörgum Hvalfjarðarstrandarhreppi 30. júní 1938. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða 9. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Brynjólfsson, f. 1915, d. 1998, og kona hans Guðrún Lára Arnfinnsdóttir, f. 1919, d. 2013, bændur á Hrafnabjörgum. Bryndís var elst þriggja systkina, næstur kom Arnfinnur, f. 1939, d. 1968, og yngst er Ragnheiður, f. 1956.

Bryndís giftist hinn 7. nóvember 1959 Jóni Ottesen, f. 4.11. 1927, d. 12.11. 1988, bónda á Ytra-Hólmi. Foreldrar hans voru hjónin Oddur Pétur Ottesen, f. 1888, d. 1968, og Petrína Helga Ottesen, f. 1989, d. 1972.

Börn Bryndísar og Jóns eru: 1) Petrína Helga Ottesen, f. 10.6. 1959, maki Hlynur Máni Sigurbjörnsson, f. 13.6. 1962, börn þeirra eru Dagný, f. 1978, Jón Ingi, f. 1981, d. 1982, Jón Ottesen, f. 1983, Haukur Óli, f. 1985, og Sigurbjörn Kári, 1994. Hlynur á tvö börn af fyrra hjónabandi. Petrína og Hlynur eiga 12 barnabörn. 2) Guðmundur Brynjólfur Ottesen, f. 24.8. 1960, maki Kristín Helga Ármannsdóttir, f. 23.5. 1964, börn þeirra eru Sigurbjörg Ellen, f. 1982, Brynjar Ægir, f. 1987, og Jón, f. 1989. Brynjólfur og Kristín eiga 11 barnabörn. 3) Guðrún Lára Ottesen, f. 25.7. 1962, maki Guðbjartur Páll Loftsson, f. 19.1. 1962, börn þeirra eru Hólmar Páll, f. 1995, Jón Eðvarð, f. 1998, og Einar Þór, f. 2000. Lára og Guðbjartur eiga tvö barnabörn. 4) Oddur Pétur Ottesen, f. 22.5. 1966, maki Berglind Helga Jóhannsdóttir, f. 9.12. 1973, börn þeirra eru Emilía, f. 1987, Bryndís, f. 1989, Eyþór Atli, f. 1995, Hrafnhildur Arín, f. 1998, og Morten, f. 2007. Pétur og Berglind eiga fjögur barnabörn. 5) Arnfinnur Teitur Ottesen, f. 21.9. 1977, maki Una Lovísa Ingólfsdóttir, f. 16.12. 1987, börn þeirra eru Daníel Árni, f. 2011, Ingólfur Thor, f. 2014, og Jón Agnar, f. 2016.

Bryndís ólst upp á Hrafnabjörgum og fékk hefðbundna barnafræðslu þess tíma. Hún var einn vetur á Húsmæðraskólanum á Varmalandi. Jón og Bryndís hófu búskap á Ytra-Hólmi áríð 1959. Þau bjuggu fyrst í félagi við foreldra Jóns, Pétur og Petrínu, en eftir lát þeirra bjuggu þau í félagi við frænda Jóns, Anton Guðjón Ottesen.

Bryndís starfaði í fjölda ára á Dvalarheimilinu Höfða, lengst af í mötuneyti, eða þar til hún lét af störfum vegna aldurs. Bryndís flutti af Ytra-Hólmi á Akranes árið 1992 og bjó síðustu árin á Dvalarheimilinu Höfða.

Útför Bryndísar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 21. júní 2024, klukkan 13.

Í dag kveðjum við ömmu Bryndísi sem var okkur svo góð. Þegar við áttum heima í Danmörku var amma dugleg að heimsækja okkur og var stundum hjá okkur í nokkrar vikur í einu. Okkur tókst oft að teyma ömmu hring eftir hring í kringum húsið sem við áttum heima í og ef farið var fram hjá ísbúðinni var amma alltaf til í að kaupa ís handa okkur.

Eftir að við fluttum heim til Íslands hittum við ömmu mikið oftar. Amma passaði alltaf upp á að eiga nóg af kexi handa okkur og stundum rak hún pabba út í búð til að kaupa meira ef kexið var að klárast. Það var alltaf gaman að koma við hjá ömmu eftir skóla og stundum buðum við vinum okkar með. Amma var alltaf glöð að sjá okkur og allir voru velkomnir.

Amma átti kisu sem við skírðum Eldingu vegna þess að hún var svo fljót að hlaupa. Kisa vildi aldrei að við næðum henni en amma mátti alltaf halda á henni og klappa, enda var amma mjög góð við hana eins og aðra.

Amma kallaði okkur alltaf strákana sína og var víst ekki alltaf sátt ef pabbi og mamma komu í heimsókn og við ekki með.

Þegar amma var komin á dvalarheimili fórum við oft til hennar og buðum henni stundum í bíltúr með okkur, mömmu og pabba. Það þótti henni mjög gaman og alveg sérstaklega að keyra upp að Akrafjalli í gömlu sveitinni sinni.

Elsku amma, takk fyrir allt.

Strákarnir þínir,

Daníel Árni, Ingólfur Thor og Jón Agnar.

Elsku amma Bryndís.

Þú kvaddir þennan heim umkringd fólkinu þínu en þannig kunnir þú allra best við þig. Amma var mikil fjölskyldukona og sinnti öllu sínu fólki á einstakan hátt. Þú umvafðir afkomendur þína elsku og áttir dýrmætt samband við hvert og eitt okkar. Heimili ömmu stóð alltaf opið og var gestagangurinn eftir því. Amma tók vel á móti fólki og hafði einstaklega hlýja og góða nærveru. Laus við formlegheit, reglufestu og tilgerð og kom til dyranna eins og hún var klædd. Hún var glaðvær og mikill húmoristi og kunni að meta fíflagang sem var kannski eins gott því ekki skortir líf og fjör þegar fólkið þitt kemur saman.

Amma var mögnuð kona á svo margan hátt – með eindæmum dugleg og vinnusöm og stundum úr hófi ósérhlífin. Hún sinnti börnum og síðar barnabörnum, hélt stórt og fjölmennt heimili, bakaði, eldaði, saumaði, prjónaði ásamt því að ganga í öll bústörfin. Vöknuð fyrst og seinust í rúmið. Æskuminningarnar frá Hólmi hverfast um dugnað ömmu – heimabakað brauð með rabarbarasultu, vínarbrauð, smalamennskur, ullarsokka og iðandi líf við matarborðið.

Allt frá því ég man eftir mér áttum við amma okkar reglulegu gæðastundir. Hvort sem það var við að brjóta saman sængurföt, prjóna, bíltúr um Melasveitina eða kaffisopi við eldhúsborðið. Til ömmu var hægt að sækja endalausan fróðleik, m.a. um matargerð og annað bústang, og munu uppskriftir hennar lifa með fjölskyldunni áfram um ókomna tíð. Amma var mikil hannyrðakona og fengu börn hennar, ömmubörn og langömmubörn að njóta afrakstursins. Börnin mín eiga hlýjar minningar um ömmu Bryndísi – þangað sem gott var að koma og passaði upp á að eiga kex í skúffunni og allir leystir út með nýjum handprjónuðum sokkum eða vettlingum.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að amma var rétt eldri en ég þegar afi dó. Það var mikill harmur og líklegast stærstu kaflaskilin í lífi hennar. Amma og afi áttu einstakt samband og deildu sömu gildum og áhugamálum og var sorg ömmu og söknuður alla tíð áþreifanlegur. Það er því huggun harmi gegn að vita af þeim sameinuðum á ný eftir 36 ára aðskilnað. Amma var hraust kona og lifði ef til vill lengur en hún óskaði sér en var orðin lúin og tilbúin til að kveðja. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa átt ömmu Bryndísi sem fyrirmynd í mínu lífi. Takk fyrir allt elsku amma, minning þín mun lifa í hjarta mínu. Hvíl í friði.

Þín

Dagný.