Auka þurfti við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um 25 milljónir króna vegna borgarstjóraskipta í upphafi ársins. Það var gert í viðauka við fjárhagsáætlun um breytingar á „launa- og starfsmannakostnaði“, sem lagður var fram í borgarstjórn og samþykktur á þriðjudag

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Auka þurfti við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um 25 milljónir króna vegna borgarstjóraskipta í upphafi ársins. Það var gert í viðauka við fjárhagsáætlun um breytingar á „launa- og starfsmannakostnaði“, sem lagður var fram í borgarstjórn og samþykktur á þriðjudag.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn óskuðu skýringa, en Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir borgastjóraskiptin ástæðuna eða „uppgjör í samræmi við ráðningarbréf fyrrverandi borgarstjóra og ráðningarsamning fv. aðstoðarmanns borgarstjóra“.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í vor var aldrei gerður ráðningarsamningur við Dag í stóli borgarstjóra, heldur svokallað ráðningarbréf frá fyrra kjörtímabili látið duga þó lög kveði á um annað.

Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna segir þetta koma sér í opna skjöldu.

„Í upphafi árs fullyrti meirihlutinn að kostnaðurinn við borgarstjóraskiptin myndi eingöngu nema mismuninum á launum Dags sem formanns borgarráðs og launum hans sem borgarstjóra í þessa sex mánuði, sem hann átti rétt á biðlaunum. Þessar tölur stemma ekki við þær fullyrðingar.“

Hildur kveðst hafa óskað nánari upplýsinga um málið.

„Ef í ljós kemur að Dagur hefur fengið full borgarstjóralaun greidd, ofan á laun formanns borgarráðs, lít ég það mjög alvarlegum augum. Ekki síst þar sem málið kom aldrei til kynningar í borgarráði og var laumað gegnum borgarstjórn í gagnapakka sem ekki var sérstaklega til umræðu né kynningar.“