„Það sem mér finnst hins vegar einstakara og fallegt er að sjá hvað fólk sem umgengst íslenska hestinn erlendis er líka fljótt að vera stolt af honum og vilja leggja sitt af mörkum til þess að dreifa boðskapnum um þennan magnaða hest,“ segir Berglind.
„Það sem mér finnst hins vegar einstakara og fallegt er að sjá hvað fólk sem umgengst íslenska hestinn erlendis er líka fljótt að vera stolt af honum og vilja leggja sitt af mörkum til þess að dreifa boðskapnum um þennan magnaða hest,“ segir Berglind. — Ljósmynd/Carolin Giese
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Básinn okkar verður í Fáksheimilinu og þar verða fræðslustundir þar sem við fáum marga einstaklinga úr atvinnugreininni til að flytja erindi. Erindin verða í bland fræðandi og söguleg og ættu að ná til fjölbreytts hóps hestamanna.

Horses of Iceland er alþjóðlegt markaðsverkefni um íslenska hestinn. Verkefnið snýst um að kynna íslenska hestinn, að mestu erlendis en við reynum einnig að stuðla að nýliðun hérna heima,“ segir Berglind Margo Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri Horses of Iceland.

Síðustu áratugi hefur íslenski hesturinn náð að ryðja sér til rúms víða um heiminn, allt frá meginlandi Evrópu til Ástralíu. Til að kynda undir þeirri auknu útbreiðslu og áhuga á íslenska hestinum var Horses of Iceland sett af stað árið 2015 í samstarfi við íslensk stjórnvöld.

„Við vinnum að því að styrkja orðspor íslenska hestsins, bæði á mörkuðum þar sem hesturinn okkar er vel þekktur eins og í Þýskalandi, og á minni mörkuðum þar sem við styðjum aukna útbreiðslu íslenska hestsins. Til þess notum við fjölbreytt kynningarefni sem við höfum búið til eins og myndbönd, bæklinga, sýndarveruleika og fleira. Við erum sífellt að bæta í safnið.“

Þar að auki starfar Horses of Iceland sem tengiliður á milli markaða.

„Við fáum oft alls kyns fyrirspurnir frá blaðamönnum. Svo leitar fólk oft til mín með fyrirspurnir um hvert þau eigi að leita varðandi til dæmis hestaferðir á Íslandi eða hvernig sé best að huga að hestakaupum og síðan útflutningi. Þannig að störfin eru mjög fjölbreytt,“ segir Berglind.

Þétt dagskrá

Berglind hefur haft í nóg að snúast við að skipuleggja dagskrána hjá Horses of Iceland meðan á mótinu stendur.

„Básinn okkar verður í Fáksheimilinu og þar verða fræðslustundir þar sem við fáum marga einstaklinga úr atvinnugreininni til að flytja erindi. Erindin verða í bland fræðandi og söguleg og ættu að ná til fjölbreytts hóps hestamanna.“

Í básnum verður kynningarefni um íslenska hestinn og upplýsingar um samstarfsaðila. Auk þess býðst gestum að upplifa reiðtúr í náttúru höfuðborgarinnar með sýndarveruleikagleraugum.

„Í sýndarveruleikagleraugunum verður hægt að upplifa reiðtúr í gegnum Rauðhóla. Þetta er öðruvísi og skemmtileg upplifun hvort sem maður er íslenskur eða erlendur, vanur knapi eða byrjandi. Við notum þetta mikið á sýningum erlendis en þar er þetta mjög vinsælt. Það verður gaman að nota þetta hér heima og sýna Íslendingunum hvernig við markaðssetjum hestinn út fyrir landsteinana.“

Af öðrum hápunktum er ratleikur sem mun fara fram út vikuna.

„Leikurinn fer þannig fram að fólk fer og tekur myndir af sér og þarf að finna svör víða um svæðið við mismunandi spurningum tengdum hestum og reiðmennsku. Þetta verður því fróðleikur í bland við skemmtun. Svo verða nokkrir glæsilegir vinningar í boði fyrir keppendur.“

Draumur að fara á landsmót

Að fara á landsmót er á óskalista hjá mörgum hestaunnendum erlendis sem gera sér sérstaka ferð til Íslands bara vegna mótsins.

„Það eru svo margir sem dreymir um að upplifa landsmótið. Þetta er á óskalista margra eins og hestaferð um landið. Við viljum ýta undir það því þessi viðburður er magnaður.“

Hún segir landsmót vera kjörinn vettvang til að kynna og fræða gesti sem sækja landsmót um eiginleika íslenska hestsins.

„Það er alltaf gaman að sjá hversu breiður hópur kemur á landsmótið. Þetta er allt frá áhugamanninum sem er að byrja til metnaðarfulla ræktandans sem og alþjóðlegir keppendur sem koma á landsmótið. Þetta er breitt og skemmtilegt mót þar sem allir sameinast til að spekúlera um hesta. Að svona viðburður þar sem bestu knapar og hestar landsins mæta sé haldinn í miðborg Reykjavíkur nánast, höfuðborg Íslands, er einstakt.“

Samfélagsvitundin einstök

Ást á hestum spratt upp á barnsaldri hjá Berglindi. Hún kom alveg upp úr þurru en enginn í hennar fjölskyldu hafði verið í hestum.

„Ég er ekki uppalin í hestafjölskyldu en einhvern tímann ákvað ég að hestur væri uppáhaldsdýrið mitt. Svo bítur maður það í sig og þá fór allt í að gera það að raunveruleika.“

Berglind er hálffrönsk og ólst upp í Frakklandi. Íslenska hestinum kynntist hún á reiðnámskeiðum á Íslandi yfir sumartímann. Á fimmtánda ári flutti hún síðan til Íslands og datt alveg inn í hestana og þá varð ekki aftur snúið. Aðspurð hvað íslenski hesturinn hafi umfram önnur hestakyn kveðst hún geta skrifað heila bók um það.

„Fyrst og fremst er geðslag og ganglag íslenska hestsins auðvitað einstakt. En umfram það er samfélagsvitundin í kringum hann. Það að vera bara með einn hest tengir samfélagið svo saman. Allir leggja hönd á plóg að styrkja hestakynið. Þessi samfélagsvitund um einn hest er sérstök. Erlendis þegar þú ert til dæmis í hindrunarstökki þá eru mismunandi hestakyn og skapast samkeppni um hestakynin. Það sem mér finnst hins vegar einstakara og fallegt að sjá hvað fólk sem umgengst íslenska hestinn erlendis er líka fljótt að vera stolt af honum og vilja leggja sitt af mörkum til þess að dreifa boðskapnum um þennan magnaða hest.“

Stofninn stækkar

Vinsældir íslenska hestsins ná út fyrir landamærin. Árið 2023 voru yfir 300 þúsund hestar skráðir hjá FEIF um allan heim, þar af 30% á Íslandi. Íslenski hesturinn hefur alltaf notið mikilla vinsælda á Norðurlöndunum og er um 33% af stofninum þar. Um 24% af stofninum eru í Þýskalandi og þar fer hann sívaxandi. Fyrr en varir gæti Þýskaland tekið fram úr Íslandi með stærsta hlutfall af stofninum.