Yfirtaka Framkvæmd yfirtökutilboðsins í Marel hefst á mánudag.
Yfirtaka Framkvæmd yfirtökutilboðsins í Marel hefst á mánudag. — Morgunblaðið/Ómar
Gera má ráð fyrir því að meginþorri hluthafa í Marel, í það minnsta úr hópi stærri hluthafa, samþykki valfrjálst yfirtökutilboð bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies Corporation (JBT) í hlutafé Marels

Gera má ráð fyrir því að meginþorri hluthafa í Marel, í það minnsta úr hópi stærri hluthafa, samþykki valfrjálst yfirtökutilboð bandaríska matvælaframleiðandans John Bean Technologies Corporation (JBT) í hlutafé Marels.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur það legið fyrir í nokkurn tíma að stærstu hlutahfar félagsins myndu samþykkja tilboðið, þá sérstaklega eftir að það var hækkað í byrjun árs (tilboðið var fyrst lagt fram í nóvember sl.) en byggt á samtölum við minni hluthafa á undanförnum dögum má ætla að almenn ánægja ríki með það tilboð sem nú liggur fyrir.

Eins og frá var greint í auglýsingu í Morgunblaðinu í gær mun hluthafakosning um tilboðið hefjast á mánudag, 24. júní, og standa til 2. september nk. Verðið er sem fyrr 3,6 evrur á hlut, sem er um 8% yfir núverandi markaðsvirði. Hluthafar geta valið á milli þess að fá greitt í reiðufé, með hlut í JBT eða hvoru tveggja.

Gengi Marel var við lok markaða í gær 500 kr. á hvern hlut, en viðskipti með bréf í félaginu námu í gær um 1,2 milljörðum króna.

Skjót afgreiðsla samkeppnisyfirvalda vestanhafs

JBT skilaði skráningarlýsingu um miðjan maí til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) en hafði áður sent viðeigandi gögn til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) til yfirferðar.

JBT hafði áður sent viðeigandi gögn til samkeppniseftirlits Bandaríkjanna (FTC). Vestanhafs eru reglurnar þannig að ef að FTC óskar ekki eftir viðbótargögnum eða upplýsingum, sem var tilvikið hvað þetta mál varðar, er litið svo á að óhætt sé að halda samrunaferli áfram. gislifreyr@mbl.is