Björn Bjarnason fjallar í pistli á heimasíðu sinni í gær um fund hinna vinafáu leiðtoga Rússlands og Norður-Kóreu: „Leiðtogar tveggja útlagaríkja, Valdimír Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu, rituðu undir samstarfssamning miðvikudaginn 19. júní þar sem heitið er gagnkvæmri aðstoð standi annað hvort ríkið frammi fyrir „árás“. Báðir telja þeir sig eiga í vaxandi útistöðum við Vesturlönd.“
Björn lætur þess getið að 24 ár séu síðan Pútín fór síðast til Norður-Kóreu og heldur áfram: „Öllum er ljóst að Pútín gerir sér ekki ferð til þessa fátæka harðstjórnarríkis nema vegna þess að hann þarf aðstoð frá Kim til að geta haldið áfram að berjast í Úkraínu. Rússar þarfnast skotfæra frá N-Kóreu og ef til vill fá þeir einnig liðsauka við herafla sinn. Kim sendir þegna sína til alls kyns verkefna erlendis, fái hann sjálfur greitt fyrir það. Í hans augum eru íbúar N-Kóreu vinnuafl í þjónustu fjölskyldu hans. Sviðsetningar með brosandi, glaðværu fólki til að hylla Pútín sýndu að til þeirra voru kallaðir tugir þúsunda þegna Kims með fyrirmælum um að leika listir sínar eða sýna hernaðarmáttinn.
Allt minnti þetta óþægilega á skrautsýningar nazista í aðdraganda annarrar heimsstyrjaldarinnar þegar tugir þúsunda fóru skipulega fram hjá heiðursstúku foringjanna sem böðuðu sig í eigin dýrð og valdi,“ skrifar Björn á heimasíðu sinni.