Hornafjarðarfljót Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við vega- og brúargerð við Hornafjarðarfljót og hafa þær farið fram úr fjárheimildum.
Hornafjarðarfljót Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir við vega- og brúargerð við Hornafjarðarfljót og hafa þær farið fram úr fjárheimildum. — Ljósmynd/Sverrir Aðalsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ég held að það sé orðum aukið að farið hafi verið fram úr fjárheimildum og þess vegna er ágætt að menn fari í að skoða þetta,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra og fyrrverandi innviðaráðherra, spurður um afstöðu sína til þeirrar ákvörðunar meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar sl. föstudag að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar sem til stóð að samþykkja fyrir þinghlé í vor.

Í bókun meirihluta nefndarinnar segir m.a. um ástæður frestunarinnar að mikilvægt sé að tilteknar forsendur samgönguáætlunar, fjármögnun og samspil hennar við fjármálaáætlun liggi fyrir með skýrari hætti en nú er áður en hægt sé að afgreiða hana. Enn fremur er þar bent á að í nefndaráliti um fjármálaáætlun segi að myndast hafi misræmi milli gildandi samgönguáætlunar og fjárveitinga sem sé óviðunandi ástand.

Segir í bókuninni að skort hafi á að nefndin hafi fengið ítarleg og fullnægjandi gögn um stöðu stórra fjárfestingarverkefna sem varpa ljósi á framkvæmdir og fjármögnun. Það eigi m.a. við um framkvæmdir við Hornafjarðarfljót.

Umfram veittar fjárheimildir

Í gildandi samgönguáætlun sem tekur til áranna 2020 til 2024 eru veittar 2.450 milljónir til framkvæmda við Hornafjarðarfljót og jafn há upphæð átti að koma með fjármögnun verktaka, sem ekkert varð úr. Skv. nýlegum upplýsingum frá Vegagerðinni hefur þegar verið varið um 3.500 milljónum til verkefnisins og fyrirhugað er að framkvæma fyrir fjóra milljarða á þessu ári, þ.e. langt umfram þær fjárheimildir sem veittar eru í samgönguáætlun. Heildarkostnaður er áætlaður um níu milljarðar króna.

„Þetta mál var upphaflega þannig að það átti að vera samvinnuverkefni sem það varð ekki að öllu leyti, en því var hins vegar haldið opnu að til greina kæmi að innheimta veggjöld þegar framkvæmdin væri búin og peningum þannig skilað aftur inn í samgönguáætlun. Það var útskýrt í minnisblöðum sem fóru frá innviðaráðuneytinu á sínum tíma til umhverfis- og samgöngunefndar,“ segir Sigurður Ingi.

„Ástæðan eins og ég skil hana,“ segir Sigurður Ingi og vísar þar til frestunar á nýrri samgönguáætlun sem gilda á fyrir árin 2025 til 2029, „er sú að ekki er búið að ljúka nokkrum stórum verkefnum sem hafa áhrif á samgönguáætlun, eins og samgöngusáttmála höfuðborgarinnar sem er á lokametrunum. Þá er þar nánari útfærsla á samvinnuverkefnum eins og Ölfusárbrú og Hornafjarðarfljóti og síðan hvernig menn ætla að fjármagna jarðgangaáætlun. Ástæðan fyrir því er að verkefnastofa sem sem sett var á laggirnar af fjármálaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu hefði þurft að fara af stað tveimur árum fyrr,“ segir hann og vísar þar til þess að verkefnastofu á vegum fyrrgreindra ráðuneyta var falið að móta tillögur um tekjuöflun af vegasamgöngum.

Samgönguáætlun í gildi

„Að öllu þessu gefnu og því að það er samgönguáætlun í gildi og öll verkefni þar fjármögnuð, þá eru það fyrst og fremst verkefni sem lúta að hafnarframkvæmdum sem þyrfti að ljúka á þessu þingi til þess að tryggja að þau hafi löglegar fjárheimildir,“ segir Sigurður Ingi.

Í bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar sem og í minnisblaði fjárlaganefndar um fjármálaáætlun segir að myndast hafi misræmi á milli gildandi samgönguáætlunar og fjárveitinga, sem sé „óviðunandi ástand“, eins og komist er að orði. Er það ekki alvarlegt að þínu mati?

„Við í innviðaráðuneytinu á þeim tíma með samþykki fjármálaráðuneytisins heimiluðum Vegagerðinni að halda áfram með verkefnið á síðastliðnu ári sem gekk vel vegna veðurfars og aðstæðna og var hagkvæmara að halda áfram með verkefnið. Það skýrir það að einhverju leyti. Síðan hefur, eins og allir vita, kostnaður aukist umtalsvert í þeirri miklu verðbólgu sem hér hefur verið og vísitala samgöngumála hækkað sem gerir það að verkum að verkin hafa ekki orðið ódýrari,“ segir Sigurður Ingi.

Viðhald fram úr áætlun

Ekki er nóg með að umhverfis- og samgöngunefnd gagnrýni umframeyðslu í vegaframkvæmdum heldur beinir hún einnig spjótum sínum að framúrkeyrslu kostnaðar við viðhald vegakerfisins.

„Viðhaldsframkvæmdir virðast hafa farið umfram fjárheimildir á síðastliðnum tveimur árum, m.a. vegna mikillar viðhaldsþarfar, verðlagshækkana og aukins fjármagnskostnaðar,“ segir í bókun nefndarinnar.