Sigurlaug Bjarnadóttir fæddist í Haga í Þingi, A-Hún., 30. maí 1950. Hún lést á Droplaugarstöðum 10. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Jófríður Kristjánsdóttir, f. 1920, d. 1995, og Bjarni Jónsson, f. 1906, d. 1990, sem bjuggu í Haga.

Eftirlifandi systkini Sigurlaugar eru Björg, f. 1944, Ragnar Páll, f. 1950, og Lárus Hagalín, f. 1956. Látin eru Jón, f. 1946, d. 1990, Sigríður Kristín, f. 1948, d. 2021, og hálfsystirin Lára Ragnhildur, f. 1936, d. 2020.

Eftirlifandi eiginmaður Sigurlaugar er Kristinn Jónsson, f. 29.12. 1952. Þau gengu í hjónaband 9. júní 1973. Foreldrar Kristins voru Maríanna Jóna Hallgrímsdóttir, f. 1928, d. 1980, og Jón Kristján Kristinsson, f. 1925, d. 1997.

Börn Sigurlaugar og Kristins eru: 1) Fríða, f. 25.3. 1974, eiginmaður hennar er Tait Simpson, f. 28.6. 1979. Dóttir þeirra er June Kristín, f. 31.10. 2013. 2) Freyja, f. 19.1. 1979, eiginmaður hennar er Ásberg Jónsson, f. 16.3. 1979. Dætur þeirra eru Fríða María, f. 17.3. 2009, og Sóley Stella, f. 10.5. 2013. 3) Jón Kristján, f. 6.5. 1985, eiginkona hans er Heidi Sejer Danielsen, f. 14.3. 1985. Börn þeirra eru Óskar, f. 28.6. 2012, Valdís, f. 20.12. 2014, og Jóhann, f. 7.12. 2017.

Sigurlaug, sem jafnan var kölluð Stella af fjölskyldu og nánum vinum, ólst upp í Haga og að loknu námi í Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði settist hún í Kennaraskólann og lauk þar handavinnukennaranámi 1971. 1980-81 stundaði hún sérkennaranám við Kennaraháskóla Íslands. Hún var tvisvar við nám í Danmörku, við Danmarks Lærerhøjskole, 1983-85 og 2005-06, og M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á sérkennslu lauk hún árið 2003 frá Kennaraháskóla Íslands.

Veturinn 1971-72 var hún handavinnukennari við Héraðsskólann í Skógum undir Eyjafjöllum. Þar kynntist hún Kristni og hófu þau sambúð í Reykjavík haustið 1972. Næstu fimm árin starfaði hún sem handavinnukennari á Grensásdeild og sem póstafgreiðslumaður á pósthúsum í Reykjavík. Árið 1977 fluttu Sigurlaug og Kristinn að Reykjaskóla í Hrútafirði þar sem þau voru kennarar við Grunnskóla Staðarhrepps í þrjú ár. 1981-83 kenndi hún við Öskjuhlíðarskóla í Reykjavík og að loknu námi í Danmörku 1985 kenndi Sigurlaug í tvö ár við Valhúsaskóla en réðst síðan til starfa aftur við Öskjuhlíðarskóla og þar starfaði hún lengst af. Árið 2006 hóf hún störf sem sérkennari við Langholtsskóla í Reykjavík og kenndi þar til ársins 2013.

Sigurlaug greindist með alzheimer árið 2012 og dvaldi á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum frá 2022. Starfsfólki Droplaugarstaða færum við bestu þakkir fyrir góða og kærleiksríka umönnun.

Minningarathöfn og erfidrykkja fer fram í veislusal Nauthóls við Nauthólsvík í dag, 21. júní 2024, klukkan 13.

Góðar minningar streyma nú fram þegar við hugsum til hennar elsku mömmu okkar. Mamma var eldklár, sjálfstæð, beinskeytt og glæsileg kona með sterka réttlætiskennd, en jafnframt blíð og góð mamma og amma.

Mamma sagði okkur alltaf að hún hefði aldrei verið mikið fyrir börn fyrr hún átti okkur. En mikið var hún ánægð með okkur börnin sín og svo síðar barnabörnin. Skilyrðislaus ást frá mömmu lagði góðan grunn að sjálfstrausti. Mamma sagðist einnig ekki vera hrifin af dýrum, en það stóðst enga skoðun, því hún kom fram við öll gæludýr Freyju eins og þau væru hennar eigin barnabörn. Hún var alltaf boðin og búin að passa, hvort sem það voru mennsku barnabörnin eða ferfætt og loðin barnabörn. Og hún stökk án umhugsunar í hlutverk dagmóður þegar Sóley Stella var sjö mánaða og engin dagmamma var á lausu.

Mamma og pabbi urðu foreldrar rétt rúmlega tvítug og voru alla tíð mjög samrýnd og samstiga í uppeldinu. Mömmu var mikið í mun að við systkinin hefðum þau tækifæri sem henni stóðu ekki til boða þar sem hún ólst upp í sveitinni. Við systurnar fórum í ballett og tónlistarnám og Jón var skráður í hinar ýmsu tómstundir líka. Mamma upplifði ballettdrauminn sinn í gegnum okkur dæturnar, en hún lét drauminn um að dansa sjálf líka rætast því hún og pabbi lærðu samkvæmisdansa og féllu svo algjörlega fyrir tangó. Tangóinn varð þeirra aðaláhugamál og þau dönsuðu á tangó-milongum víða um heiminn. Mamma hélt áfram að dansa með pabba þrátt fyrir veikindin. Þó að danssporin hafi gleymst síðustu tvö árin, þá stóðst hún samt ekki mátið að standa upp og dilla sér þegar hún heyrði tónlist.

Mamma var ofboðslega hæfileikarík handavinnukona. Það voru ófáir öskudagsbúningarnir sem hún saumaði á okkur systkinin og árshátíðarkjóla fengum við einnig eftir pöntun. Við systurnar gátum valið efni og lýst kjólnum sem okkur langaði í og mamma saumaði hann eins og listaklæðskeri.

Mamma var í senn mjög skynsöm og ævintýragjörn. Heimilisbókhaldið þurfti að stemma, fötin að vera praktísk og úr góðu efni en hún var líka til í að prófa eitthvað nýtt eins og læra tangó og flytja með fjölskylduna til útlanda í nám.

Mamma var alltaf til staðar fyrir okkur ef eitthvað bjátaði á og studdi okkur í þeim verkefnum og ævintýrum sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem það var að elta ástina til útlanda, fara á interrail, ferðast um Suður-Ameríku eða opna verslun.

Við verðum ævinlega þakklát fyrir að hafa náð að fara í langþráða ferð til Rómar rétt áður en veikindi mömmu tóku yfir allt hennar líf. Við systkinin þrjú ásamt mömmu og pabba röltum milli kaffihúsa og fengum okkur espresso og cornetto og svo auðvitað uppáhaldið, gelato, milli þess sem við skoðuðum fornfrægar byggingar og skáluðum í bjór. Við áttum dásamlega daga saman. Ef við höfum lært eitthvað af veikindum mömmu, þá er það að lífið er núna og ekki eftir neinu að bíða. Mamma hefði sagt okkur að slaka aðeins á, hugsa vel um okkur og njóta lífsins. Elsku mamma, við gleymum þér aldrei og ætlum að njóta lífsins þér til heiðurs.

Fríða, Freyja og Jón Kristján.

Sigurlaug systir mín, oftast kölluð Stella, var yngsta systirin í hópi okkar Hagasystkina. Ég, örverpið, leit náttúrlega upp til hennar eins og annarra, óhjákvæmilega og í eiginlegri merkingu fyrstu árin vegna eigin smæðar, en síðar til eftirbreytni að ýmsu leyti enda átti hún veigamikinn þátt í uppeldi mínu um tíma. Þannig var nefnilega að á menntaskólaárunum bjó ég hvern vetur á heimili ungu hjónanna, Stellu og Kristins, í Reykjavík. Það var sjálfsögðu mitt lán en ósagt skal látið hversu gagnkvæmt það var. Hjá þeim naut ég til að mynda verklegrar kennslu í undirstöðuatriðum heimilishalds og fékk beint í æð hugmyndir um jafnræði kynjanna sem á þeim tíma voru mér svolítið framandi.

Stella var dugnaðarforkur og góðum gáfum gædd, hún lærði til kennara og lauk háskólaprófi á fullorðinsárum. Einhvern veginn æxlaðist það svo að ég fetaði sumpart í fótspor hennar; við hófum bæði kennsluferil tvítug að aldri og það við sama héraðsskólann, lukum störfum innan skólakerfisins jafngömul, stunduðum framhaldsnám í Danmörku og síðar vörðum við bæði launuðu námsorlofsári þar í landi. Enn fremur vorum við hálfgerðir nágrannar lengi vel í Vesturbæ Reykjavíkur þegar við bjuggum þar hvort á sínum Haganum ásamt fjölskyldum okkar og steinsnar á milli. Samgangur og vinátta ekki aðeins hjá okkur systkinunum heldur einnig meðal maka okkar og dætra svo að fjölskylduböndin urðu margþætt á þessum árum. Við gátum alltaf leitað hvort til annars með stórt og smátt eða þá hreina erindisleysu til að njóta spjalls og samverustundar.

Stella og Kristinn voru samhent hjón og studdu hvort annað í blíðu og stríðu. Aðdáunarvert er hvernig þeim tókst að krydda tilveruna í lengstu lög þrátt fyrir þverrandi minni og færni Stellu síðasta áratuginn. Þá var um að gera að leggjast í meiri ferðalög, dansa tangó og leika við barnabörnin. Ekkert var ómögulegt með Kristin sér við hlið en án hans hefði Stellu ekki tekist að lifa svo vel með sjúkdómi sínum sem raun bar vitni.

Að leiðarlokum koma ótal myndir upp í hugann; hringlaga eldhúsborðið í foreldrahúsum með okkur öll systkinin á sínum stað, Stella með sinni stækkandi fjölskyldu, með Kristni, í berjamó, langar gönguferðir, dans fram á nótt. Nú hefur síðasti dansinn verið stiginn og ég minnist góðrar systur með djúpu þakklæti fyrir allt sem hún gaf.

Lárus H. Bjarnason.

Það er stundum erfitt að skilja hvað vakir fyrir almættinu og spurningar vakna en svörin láta á sér standa. Nú er staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að Sigurlaug Bjarnadóttir er ekki lengur á meðal okkar. Kynni mín og hennar hófust fyrir 37 árum þegar við störfuðum saman í Öskjuhlíðarskóla. Það var lán fyrir skólann að hafa Sigurlaugu í starfsmannahópnum, hún lagði sig alla fram við vinnu sína og hafði hagsmuni nemenda sinna í fyrirrúmi. Hún var afar skipulögð í störfum sínum og átti einnig auðvelt með að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Gerð skólanámskrár fyrir Öskjuhlíðarskóla var mikið vandaverk fyrir starfslið skólans og var vinnan við hana verkefni sem stöðugt tók breytingum. Sigurlaugu var, ásamt mér, falið að sjá um vissa þætti innan námskrárinnar og í hreinskilni sagt kveið ég fyrir þeirri vinnu. Við vorum yfirleitt að sinna því starfi þegar kvölda tók eða um helgar. En reyndin varð sú að þessi samvinna var tilhlökkunarefni fyrir mig og má þakka það Sigurlaugu. Það var hugsað í lausnum og vandamál uxu henni aldrei í augum. Kímnigáfa hennar kryddaði líka tilveruna. Það var góður skóli að vinna með þessari eðalkonu.

Kristinn eiginmaður Sigurlaugar var einnig kennari við skólann og voru þau okkur hinum miklar fyrirmyndir. Það var gaman að fylgjast með þeim þegar barnabörnin þeirra komu til sögunnar. Gleðin og þakklætið fyrir hvern einstakling ljómaði af þeim. Því miður auðnaðist Sigurlaugu ekki lengi að njóta þeirrar gæfu sem litlu krílin veittu þeim hjónum því vegna alvarlegra veikinda hvarf hugur hennar og skynjun á braut frá okkur öllum. Kristinn og börnin þeirra hlúðu að henni á aðdáunarverðan hátt og gerðu allt sem þau gátu til að létta henni ævikvöldið. Því er vandsvarað hvers vegna Sigurlaug, sem var svo fjölhæf og vandaði sig við allt sem hún tók sér fyrir hendur, fékk ekki að njóta eftirlaunaáranna við hliðina á Kristni sínum og allri fjölskyldunni. Þau eiga samúð mína alla. En þeirra lán var að eiga Sigurlaugu Bjarnadóttur sem lífsförunaut.

Sigríður Teitsdóttir.

Sigurlaug var samstarfskona mín í Öskjuhlíðarskóla um margra ára bil. Hún var á yfirborðinu hæglát og hógvær í fasi en undir bjó metnaður og ástríða fyrir að gera allt hið besta fyrir nemendur sína. Fagmennska var hennar leiðarljós og hún var gríðarlega vinnusöm varðandi allan undirbúning kennslunnar.

Í sérkennslu nemenda með þroskahömlun vinnur oft hópur kennara og stuðningsfulltrúa saman með einn nemendahóp. Þá er mikilvægt að setja sterkan ramma og umgjörð um starfið. Það varðar bæði hlutverkaskiptingu starfsfólks og framkomu nemenda. Sigurlaugu var þetta einstaklega lagið og það auðveldaði starfið þegar enginn var í vafa um til hvers var ætlast.

Sigurlaug var góður félagi og vinur. Hún unni sinni fjölskyldu og laumaði stundum að skemmtilegum frásögnum af börnunum sínum og ævintýrum þeirra. Einnig fengum við að fylgjast með sporum þeirra hjóna í tangóheiminum. Þau fóru meðal annars í ferðalag til Argentínu og þar í heimsóknir í „milongur“ til að dansa tangó. Heimkomin sagði Sigurlaug okkur kímin að hún hefði lært (af gömlum tangósnillingi) að fólk þyrfti að verða ástfangið af mótdansaranum hverju sinni og vera ófeimið að daðra á meðan á dansinum stæði.

Hún var sannarlega ástfangin af Kristni sínum í þeirra lífsdansi, sem undir lokin fór um dimmar slóðir alzheimersjúkdómsins. Á meðan heilsa hennar leyfði bjuggu þau saman í íbúðinni sinni í Fossvogi. Kristinn var duglegur að koma með hana á mánaðarlega kaffifundi gamalla samstarfsmanna úr Öskjuhlíðarskóla. Við fylgdumst með því hvernig minnið dvínaði og verkstolið færðist yfir. Loks varð hún að flytjast á Droplaugarstaði í góða umönnun.

Það er erfitt hlutverk að fylgja ástvini sínum í gegn um þennan nöturlega feril. Kristinn stóð eins og klettur með henni en gætti þess jafnframt að hlúa að sjálfum sér svo aðdáun vakti.

Nú er göngunni lokið kæra vinkona. Ég trúi því að þú sért hvíldinni fegin.

Ég færi Kristni og fjölskyldunni kveðju frá okkar samhenta samstarfsfólki úr Öskjuhlíðarskóla.

Kristín Arnardóttir.