Gerður Björk Sveinsdóttir
Gerður Björk Sveinsdóttir
Nýráðinn bæjarstjóri í Vesturbyggð, Gerður Björk Sveinsdóttir, segist hafa þurft tíma til að melta hvort hún hygðist sækjast eftir starfinu. Tækifærið þótti henni of spennandi til að láta það eiga sig og kveðst hún hlakka til verkefnanna fram undan

Nýráðinn bæjarstjóri í Vesturbyggð, Gerður Björk Sveinsdóttir, segist hafa þurft tíma til að melta hvort hún hygðist sækjast eftir starfinu. Tækifærið þótti henni of spennandi til að láta það eiga sig og kveðst hún hlakka til verkefnanna fram undan.

Hún er ekki ókunnug stjórnsýslunni í Vesturbyggð en hún hefur starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og sem staðgengill bæjarstjóra síðan 2019.

Gerður segir í samtali við Morgunblaðið að hún gangi nú í gegnum bæjarstjóraskipti í þriðja sinn. „Það líður alltaf smá tími frá því að kosið er og þar til nýr bæjarstjóri tekur til starfa, þannig að ég þekki starfið ágætlega og hef gegnt því áður.“ Gerður er viðskiptafræðingur með meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun sem starfaði áður hjá Deloitte. Þá hefur hún bætt við sig diplómanámi í opinberri stjórnsýslu.

Fyrstu vikurnar í starfi segir hún að muni fara í að setja fólk inn í málin sem eru í gangi í stjórnkerfinu. „Við erum með mörg stór mál í gangi eins og samgöngumálin, atvinnumálin og önnur brýn mál þar sem verið er að eiga við ríkisvaldið og praktísk mál í kringum sameininguna,“ segir Gerður sem var einmitt verkefnisstjóri yfir sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar sem gekk í gegn í vor en ákveðið var í vikunni að sameinað sveitarfélag muni bera heitið Vesturbyggð.

Gerður Björk segist ætla að leitast við að verða viðmótsþýður bæjarstjóri og almennileg við þá sem til hennar leita. Hún gerir sér grein fyrir að hún geti aldrei verið allra en vonandi sem flestra og hlakkar til samstarfs við bæjarbúa.