Pjongjang Meðan hinn vestræni heimur undirbýr enn harðari refsiaðgerðir gegn Rússum, horfir Pútín til austurs og styrkir sambönd sín í Asíu.
Pjongjang Meðan hinn vestræni heimur undirbýr enn harðari refsiaðgerðir gegn Rússum, horfir Pútín til austurs og styrkir sambönd sín í Asíu. — AFP/KCNA via KNS
Heimsókn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta til Norður-Kóreu, og varnarbandalagið sem hann gerði við Kim Jong-un forseta, hefur vakið ugg margra þjóða. Ríkin hafa verið bandamenn frá seinni heimsstyrjöldinni en tengsl þjóðanna hafa styrkst enn frekar …

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Heimsókn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta til Norður-Kóreu, og varnarbandalagið sem hann gerði við Kim Jong-un forseta, hefur vakið ugg margra þjóða. Ríkin hafa verið bandamenn frá seinni heimsstyrjöldinni en tengsl þjóðanna hafa styrkst enn frekar eftir innrás Rússa í Úkraínu þegar útlit var fyrir að Rússar væru að einangrast á alþjóðavettvangi. Meðan vesturveldin hafa þrengt að Rússum eftir innrásina með refsiaðgerðum og viðskiptahömlum hefur Pútín í síauknum mæli horft til Asíu.

Í sameiginlegum varnarsamningi ríkjanna sem forsetarnir undirrituðu á miðvikudag er talað um sameiginlega hernaðaraðstoð. Á blaðamannafundi í Pjongjang sagði Pútín að það væri ekki útilokað að Rússar veittu Norður-Kóreu aðgang að tækniupplýsingum sem auðvelda þróun og hönnun hátæknivopna. Þá sagðist hann ekki útiloka að senda vopn til Norður-Kóreu.

Hunsa allar ályktanir SÞ

Yfirvöld í Japan lýstu yfir áhyggjum af þessari þróun mála í gær og sagði Yoshimasa Hayashi, talsmaður ríkisstjórnar Japans, að slíkt samstarf gæti verið brot á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þegar tillit væri tekið til áhrifa þess á öryggisumhverfið á svæðinu. Hann benti einnig á að þrátt fyrir ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnakaup frá Norður-Kóreu hefðu Rússar með framgöngu sinni sýnt að þeir virtu engar reglur eða samþyktir frá alþjóðaumhverfinu. Hann sagði einnig að tilkynning Pútíns í gær um að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að endurskoða refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu væri gjörsamlega óviðunandi.

Heimsókn til Víetnam

Pútín fór í gær til Víetnam til að tryggja enn frekara samstarf og stuðning þjóðanna. Víetnamar hafa verið nánir bandamenn Rússa frá dögum kalda stríðsins eins og Norður-Kórea og Rússar hafa séð þeim fyrir lunganum af vopnum þeirra á árunum 1995-2023, eða um 80% svo tengsl þjóðanna eru sterk.

Á fundi Pútíns og To Lam, forseta Víetnam, voru undirritaðir samningar um fjölda samstarfsverkefna allt frá menntun til dómsmála og kjarnorkuverkefna. Einnig gaf Lam til kynna að hann vildi efla varnarsamstarfið við Rússa en samningurinn var ekki jafn afdráttarlaus og samningurinn við Norður-Kóreu. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna frá Hanoi í gær er sagt að varnar- og öryggissamstarf þjóðanna beinist ekki gegn neinu þriðja landi, en vilji sé til að stuðla að friði, stöðugleika og sjálfbærri þróun á svæðinu.

Lítt duldar hótanir

Yfirvöld í Bandaríkjunum og bandamenn þeirra hafa lengi sakað Norður-Kóreu um að útvega Rússum vopn til að nota í Úkraínu og þar er staðfest hernaðarsamstarf ríkjanna tveggja talið mikið áhyggjuefni. Yfirlýsing Pútíns í gær um að hann útilokaði ekki vopnasendingar til bandamanna sinna, þ.á m. Norður-Kóreu, þar sem vesturveldin væru að senda Úkraínu vopn, féll ekki í góðan jarðveg hjá Bandaríkjamönnum. Matthew Miller talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði þetta grafalvarlegt. „Það myndi hugsanlega gera Kóreuskagann óstöðugan, eftir því hvers konar vopn eru notuð, og gæti brotið gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem Rússar hafa sjálfir stutt.“

Þá varaði Pútín Suður-Kóreu við því að senda vopn til Úkraínu og sagði að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar.

Hertar refsiaðgerðir

Í gær undirrituðu ríki Evrópusambandsins nýjan refsiaðgerðarpakka gegn Rússum og í honum er sjónum beint að orkusölu Rússa, með því að gera þeim erfiðara fyrir að nota svokallaða skuggaflota með óljósan uppruna og erfiða notkun SPFS-bankakerfisins sem Rússar hafa notað til millilandaviðskipta. Aðgerðirnar fela m.a. í sér bann við umskipun rússnesks fljótandi jarðgass um Evrópu, en hafnir í Evrópu eru gríðarlega mikilvægar fyrir útflutning Rússa á jarðgasi til Asíumarkaða. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, skrifaði á samfélagsmiðilinn X að nýjar refsiaðgerðir „muni svipta Rússa frekari tekjum af orku og koma í veg fyrir skuggaflota Pútíns og skuggabankakerfi hans erlendis“.

Þessar fjórtándu refsiaðgerðir ESB gegn Rússum frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu koma í kjölfar þess að á nýafstöðnum fundi G7-ríkjanna á Ítalíu í síðustu viku var samþykkt að nota hagnað af frystum rússneskum eignum til að veita Úkraínu nýtt 50 milljarða dollara lán.