Vigdís Jónsdóttir fæddist 16. júlí 1926. Hún lést 4. júní 2024.

Útför Vigdísar fór fram 18. júní 2024.

Mér hefur alltaf þótt afar vænt um nafnið mitt og að heita í höfuðið á ömmu Guðrúnu og Dísu frænku, konum sem ég hef alltaf litið mikið upp til og hafa verið mér mikilvægar fyrirmyndir alla tíð. Dísa frænka var líka skírð í höfuðið á ömmu sinni, Vigdísi, sem ég hef heyrt margar sögur af og þótti mikill skörungur. Það kom heldur ekki annað til greina en að Emblan mín fengi líka að bera Vigdísarnafnið svo að þar er falleg tenging á milli fjögurra ættliða.

Fallegt samband ríkti alla tíð á milli mömmu, Dísu og ömmu Guðrúnar. Í kringum þær ríkti alla tíð gleði, húmor, jákvæðni og virðing. Þær stóðu alltaf saman þegar eitthvað bjátaði á og einnig upplifðu þær saman alls konar ævintýri sem þær hafa verið óþreytandi við að rifja upp með okkur systrum.

Frá því að ég man eftir mér hafa Dísa og Gulli verið okkur mjög náin. Þau hafa verið okkur systrum og börnunum okkar sem amma og afi, enda með eindæmum barngóð og alltaf boðin og búin að létta undir á meðan börnin okkar voru lítil. Einstaklega fallegt samband hefur ríkt á milli Emblu Vigdísar og þeirra, enda var hún mikið hjá þeim sem barn á meðan við bjuggum í Garðabænum. Þá lék Gulli við hana, fór með hana á sleða, teiknaði og spilaði og Dísa bakaði bestu pönnukökur í heimi.

Dísa og mamma hafa verið mér miklar fyrirmyndir. Þær fóru ótroðnar slóðir á sínum yngri árum, voru sjálfstæðar, unnu úti, ferðuðust um heiminn og festu báðar ráð sitt seinna en margar konur á þessum tíma. Þær upplifðu margt skemmtilegt saman og sögurnar frá þessum tíma eru óteljandi og hafa lifað í minningunni síðan. Í seinni tíð, eftir að skammtímaminnið hjá Dísu var farið að gefa sig, var dýrmætt að geta rifjað upp þessar skemmtilegu minningar og þannig létt henni lundina. Þær systur bjuggu að þessari reynslu alla tíð og héldu áfram að sinna eigin hugðarefnum og áhugamálum eftir að þær gengu í hjónaband. Þannig hafa þær verið okkur systrum dýrmæt fyrirmynd.

Ef lýsa ætti Dísu frænku er óhætt að segja að hún hafi verið falleg manneskja; hjartahlý, örlát, gáfuð og glæsileg. Líf hennar var ekki alltaf dans á rósum og hún varð fyrir ýmsum áföllum í lífinu. Og þá kom sér vel hversu sterkur karakter hún var og það var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hún tókst á við erfiðleikana af stillingu og þrautseigju. Það átti líka við síðustu árin hennar, hún gafst aldrei upp, var svo ótrúlega sterk og dugleg að reyna að ná sér aftur á strik, sama hvað á gekk. Hún bar sig alltaf vel og hugsaði alltaf fyrst og fremst um okkur hin og hvernig fólkinu í kringum hana liði.

Elsku Dísa, takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur alla tíð, fyrir alla ástina og hlýjuna sem þú hefur sýnt mér og fjölskyldu minni. Minning þín er ljósið í lífi okkar allra.

Við hittumst fyrir hinum megin … eins og segir í ljóðinu.

Þín

Guðrún Dís.