Stórfjölskyldan Laufey, Gísli Karel, börn, tengdabörn og barnabörn. Myndin er tekin í garðinum við sel Laufeyjar og Gísla Karels í Reykjavík.
Stórfjölskyldan Laufey, Gísli Karel, börn, tengdabörn og barnabörn. Myndin er tekin í garðinum við sel Laufeyjar og Gísla Karels í Reykjavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laufey Bryndís Hannesdóttir fæddist 21. júní 1949 á Landspítalanum í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum. „Mikilvægur hluti af uppeldinu var að fara í sveit. Fyrsta sumardvölin var í Meðallandinu, þá 10 ára

Laufey Bryndís Hannesdóttir fæddist 21. júní 1949 á Landspítalanum í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum.

„Mikilvægur hluti af uppeldinu var að fara í sveit. Fyrsta sumardvölin var í Meðallandinu, þá 10 ára. Síðar var ég í nokkur sumur á Gilsbakka í Hvítársíðu. Foreldrar mínir ráku sumardvöl fyrir krakka í skíðaskála KR í Skálafelli og vann ég hjá þeim í tvö sumur. Þar voru stundaðar fjallgöngur og fótbolti á litlum velli.“

Laufey varð stúdent úr stærðfræðideild MR 1969. Hún byrjaði í jarðfræði í HÍ um haustið, en fór í vatnafræðinám haustið 1970 í Arizona í Bandaríkjunum og lauk þaðan BS-prófi 1972. „Mikil upplifun var að búa Bandaríkjunum, hippatíminn í algleymingi og lúxuslíferni miðað við gamla Frón.“

Heimkomin fór Laufey að vinna á Orkustofnun, en var jafnframt í jarðfræðinámi í HÍ og lauk þaðan BS-prófi 1976. Eftir barneign ákváðu hún og verðandi eiginmaður að fara til Kaupmannahafnar og tók hún masterspróf í verkfræði frá DTH. „Það sem réð vali á að fara í nám í Danmörku var fyrst og fremst að þar áttum við möguleika á að koma litlu stelpunni okkar í dagvistun, en við ætluðum bæði í nám. Á þessum tíma höfðum við enga möguleika á dagvistun fyrir barn á Íslandi.

Ég hef alla tíð haft áhuga á náttúrunni og það laðaði mig að jarðfræðinni. Ég fékk vinnu hjá Sigurjóni Rist í vatnamælingum sumarið 1969. Það var upplifun að vinna með Sigurjóni. Sumarið 1969 er vatnamælingahópurinn að koma ofan af hálendinu og er á leið á hótel við Mývatn. Einhver ferðamaður sem kannaðist við Sigurjón Rist spyr hann hvernig þessi stúlka nýtist við vatnamælingar. Sigurjón Rist segir: „Hún er góð í að bera grjót.“ Ég er frekar lítil vexti og grönn. Mikið grjót þarf til að byggja upp stokk vatnshæðarmæla og ekki var í þá daga lagt í að flytja gröfur langar leiðir inn á hálendið. Þessi orð Sigurjóns Rist eru eitthvert mesta hrós sem ég hef fengið.“

Laufey vann við virkjanarannsóknir og vatnafarsrannsóknir á Orkustofnun í 18 ár. „Þá varð samdráttur í orkurannsóknum og fór ég þá að vinna í hugbúnaðargeiranum hjá Skýrr sem síðar varð hluti af Advania. Ég vann í um 18 ár við hugbúnaðargerð á Skýrr og Mens Mentis. Það skemmtilegasta við hugbúnaðargerð fannst mér að finna út með þeim sem nota áttu búnaðinn hvernig hann ætti að vinna. Það gat verið flókið fyrir bæði notendur og hönnuði. Þegar ég hætti í hugbúnaðargeiranum fékk ég vinnu hjá Almennu verkfræðistofunni og þá aftur við áhugamálið, vatnarannsóknir. Síðar starfaði ég hjá Landsvirkjun og í umhverfisráðuneytinu við vatnafarsrannsóknir. Ég hætti í launaðri vinnu 2014 og fór þá að sinna áhugamálum mínum, sérstaklega skógrækt, og síðan komu blessuð barnabörnin.“

Laufey var sóroptimisti um árabil og var fyrsti formaður Sóroptimistaklúbbs Hóla og Fella. Hún hefur mjög gaman af að syngja í kór. „Ég hef ekki tölu á þeim kórum sem ég hef sungið með. Það er merkilegt hve orkugefandi það er að syngja saman. Eftir að við fluttum í sveitina gekk ég í Kvenfélag Stafholtstungna. Það er mjög gefandi starf að vinna að góðum málefnum fyrir samfélagið í sveitinni.

Eftir að við Gísli höfðum byggt okkur einbýlishús í Selási vildum við gjarnan eignast land til skógræktar. Okkur tókst að safna saman hópi fólks sem keypti jörðina Arnarholt í Stafholtstungum haustið 1994. Síðar byggðum við okkur þar hús og fluttum lögheimili okkar í sveitina 2005. Land okkar í Arnarholti er nánast fullplantað. Eiginmaður minn á ásamt systkinum sínum jörðina Spjör við Grundarfjörð. Foreldrar Gísla byrjuðu þar að gróðursetja í smáum stíl 18. september 1975, sem er fæðingardagur elsta barnsins okkar. Fyrir nokkrum árum skilgreindum við skógræktarsvæði á Spjör í bændaskógrækt. Því fylgir að við fáum plöntur til gróðursetningar, og fáum smávegis greitt fyrir að gróðursetja. Það hefur gengið mjög vel hjá okkur að gróðursetja þar, og vonandi munu afkomendurnir sjá þar vaxandi skóg.

Það er áhugavert að bera saman gróðurframvindu á mismunandi stöðum. Vorið hjá okkur í Borgarfirði er minnst viku síðar en í Reykjavík. Síðan kemur vorið á Spjör við Grundarfjörð um viku síðar en í Borgarfirði. Við sjáum það einnig á gróðrinum. Hjá okkur í Borgarfirði vex allur gróður mjög vel. Skógrækt á Spjör við Grundarfjörð er átaksverkefni. Þar er mun meiri vindur og skógræktin krefst þrautseigju og tré eru lengur að vaxa upp.“

Við hrunið breyttist hugsunarháttur Laufeyjar. „Ég hugsaði með mér hvernig við getum best nýtt gæði náttúrunnar. Ég gæti að minnsta kosti ræktað kartöflur og rófur. Ég ólst upp við kartöflurækt í Vatnsmýrinni eins og svo margir aðrir. Í Arnarholti var stunduð garðyrkja frá örófi alda. Að minnsta kosti ræktaði Ragnheiður dóttir Torfa í Ólafsdal í Gamlagarði í Arnarholti frá því snemma á 20. öld. Fyrri eigandi Arnarholts, Sólveig, var þar með mikla og fjölbreytta ræktun. Ég byrjaði sem sagt í Gamlagarði og ræktaði þar aðallega kartöflur í upphafi. Síðan hefur ræktunin þróast og við gert nýja garða nær húsinu okkar í Nátthaga. Núorðið er ég farin að sá til matjurta snemma vors og kem upp plöntum undir gróðurljósum í upphitaðri smiðju og í köldu gróðurhúsi. Stundum þarf að bíða lengi eftir vorinu eins og þetta ár, 2024, en það kemur alltaf. Helstu tegundir eru kartöflur, rótargrænmeti, kál ýmiskonar, ertur og baunir. Ræktunin hjá mér er lífræn, enginn tilbúinn áburður eða eiturefni eru notuð. Ég nota sauðfjártað og áburð unninn með bokashi-aðferð.“

Fjölskylda

Eiginmaður Laufeyjar er Gísli Karel Halldórsson verkfræðingur, f. 3.6. 1950. Foreldrar Gísla Karels voru Halldór Finnsson, sparisjóðsstjóri og oddviti í Grundarfirði, f. 2.5. 1924, d. 7.4. 2001, og Pálína Gísladóttir, kaupmaður í Grundarfirði, f. 27.1. 1929, d. 12.4. 2022.

Börn Laufeyjar og Gísla Karels eru: 1) Pálína, f. 18.9. 1975, verkfræðingur. Maki: Gísli Jökull Gíslason, f. 20.10. 1970, lögreglumaður. Börn þeirra eru Laufey, f. 14.6. 2002, verkfræðingur, Kristín, f. 3.4. 2006, menntaskólanemi, og Snædís, f. 16.7. 2008; 2) Gauti Kjartan, f. 30.5. 1978, verkfræðingur. Maki: Sigrún Árnadóttir, f. 31.1. 1977, tollafgreiðslumaður. Börn þeirra eru Ingvi Karel, f. 23.2. 2007, og Arndís Ýr, f. 15.4. 2021; 3) Finnur, f. 24.3. 1982, verkfræðingur. Maki: Soffía Hauksdóttir, f. 14.6. 1982, verkfræðingur. Börn þeirra eru Ingibjörg Ösp, f. 5.4. 2007, menntaskólanemi, Halldór, f. 15.6. 2011, og Lóa, f. 28.4. 2017.

Systkini Laufeyjar eru Georg Kjartan Hannesson, f. 8.4. 1946, d. 19.7. 1969, skrifstofumaður, og Hjördís Hannesdóttir, f. 5.4. 1955, líffræðingur.

Foreldrar Laufeyjar voru hjónin Hannes Ingibergsson, f. 24.10. 1922, d. 9.12. 2012, íþróttakennari, fimleikaþjálfari og ökukennari, og Jónína Halldórsdóttir, f. 9.7. 1926, d. 28.6. 2008, húsfreyja og skólastarfsmaður.