Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Ólíklegt er að frumvarp um lagareldi verði aftur lagt fram í haust, að sögn matvælaráðherra, þar sem enn er mikill ágreiningur um það á þinginu. Það yrði þá verkefni næstu ríkisstjórnar að endurskoða lagarammann um fiskeldi. Frumvarpi Bjarkeyjar Olsen Gunnardóttur matvælaráðherra um lagareldi hefur verið frestað þar sem ríkisstjórnin nær ekki saman um málið í atvinnuveganefnd. Upphaflega stóð til að klára málið fyrir þinglok.
Bjarkey segir að sér finnist það mikil vonbrigði að frumvarpið hafi ekki verið afgreitt á vorþingi. „Ég því miður held að við séum búin að vera stödd afskaplega lengi á þeim stað sem við erum á í dag. Þetta hefði verið til mikilla bóta til þess að bæta lagaumhverfið, eins og ég hef oft sagt,“ segir Bjarkey.
„Ég er heldur ekki búin að taka ákvörðun um það hvort ég komi aftur fram með málið. Það var búið að leggja til mjög margar breytingar á þessu, það hefði verið miklu betra. Og ég er ekkert að sjá að það verði gengið eitthvað lengra þótt ég myndi leggja það fram aftur með þeim breytingum sem nefndin er búin að vera að vinna að. Því það er ásteytingarsteinn þarna sem snýr fyrst og fremst að gjöldum og sköttum sem ég er ekki til í að breyta.“