Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Þessi setning kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000, fyrir tæpum 25 árum

Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Þessi setning kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000, fyrir tæpum 25 árum. Ég tel að við séum flest sammála um þetta; foreldrar af öllum kynjum þurfa að hafa tækifæri til að sinna börnum sínum jafnt og fæðingarorlofskerfið gegnir lykilhlutverki til að ná því markmiði – og þar með við að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Fæðingar- og foreldraorlof var lengt úr 10 mánuðum í 12 í byrjun árs 2021 og sjálfstæður réttur hvors foreldris varð sex mánuðir. Meðalfjöldi daga sem nýttir eru af feðrum hefur aukist við þessar breytingar. Það er mjög mikilvægt skref því það stuðlar að auknu jafnrétti. En staða barnafjölskyldna hér á landi er aftur á móti ekki nógu góð að öllu leyti.

Staðan er sú að foreldrar ungra barna í mörgum sveitarfélögum landsins fá hvorki pláss hjá dagforeldri né á leikskóla fyrr en löngu eftir að fæðingar- og foreldraorlofi lýkur. Margar fjölskyldur þurfa þar með að brúa bilið með því að taka enn lengra orlof frá vinnu, með tilheyrandi tekjuskerðingum, eða leita annarra lausna sem eru kostnaðarsamar og ekki á allra færi. Þetta umönnunarbil lendir í mörgum tilvikum á mæðrum. Sveitarfélögin hafa unnið að því að fjölga leikskólaplássum en það tekur tíma. Til þess að leysa þessa stöðu þurfum við að lengja fæðingar- og foreldraorlofið.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að lengja þurfi fæðingar- og foreldraorlof úr 12 mánuðum í 18 mánuði og tryggja áframhaldandi jafna skiptingu milli foreldra til að stuðla að auknu kynjajafnrétti. Lenging orlofsins er mikilvægt skref til þess að loka umönnunarbilinu milli orlofs og dagvistunar, og með lengingunni leysum við barnafjölskyldur undan álagi og áhyggjum sem fylgja því að þurfa að útvega dagvistun að loknu orlofi, drögum úr fjárhagsáhyggjum og bætum kjör barnafjölskyldna til muna.

Við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í byrjun mars voru lagðar fram sameiginlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til næstu fjögurra ára. Ein af þeim aðgerðum er hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000. kr. á mánuði. Þessi hækkun er mikilvæg kjarabót fyrir fjölskyldur og er nú til meðferðar á Alþingi. En við þurfum að taka enn stærri skref, og lenging foreldra- og fæðingarorlofsins er þar mikilvægasta skrefið.

Ísland á að vera land þar sem unga fólkið okkar vill búa og ala upp börnin sín, og til þess að svo megi vera þurfum við að gera betur þegar kemur að foreldra- og fæðingarorlofi. Það vil ég gera.

Höfundur er innviðaráðherra. svandis.svavarsdottir@irn.is