Kvikmyndin Chicago frá árinu 2002 verður sýnd í kvöld í Bíó Paradís á svokallaðri föstudagspartísýningu og hefst viðburðurinn kl. 18.30. Kvöldið hefst með kennslu í grunnhreyfingum lindy hop-dansins sem stiginn var á millistríðsárunum. Hljómsveitin Fjaðrafok – Feather Swirl tekur við að lokinni danskennslu og leikur tónlist að hætti þess tíma sem horft er til, millistríðsáranna, og félagar í dansfélaginu Lindy Ravers stíga dans við þá fjörugu tóna.
Segir um viðburðinn í tilkynningu að þarna muni gefast tækifæri til að fara aftur í tíma og er fólk hvatt til að mæta í klæðnaði í takt við tímann. Hljómsveitin Fjaðrafok – Feather Swirl sérhæfir sig í flutningi tónlistar frá millistríðsárunum og er húshljómsveit lindy hop-danskvöldanna sem haldin eru hálfsmánaðarlega á Kex hosteli.
Tónleikarnir eru styrktir af menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og hefst sýning á kvikmyndinni Chicago kl. 21.