Guðrún Sigríður Arnalds
gsa@mbl.is
Friðrik R. Jónsson, frumkvöðull og íbúí í miðbænum, segir ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að útvíkka gjaldsvæði bílastæða óþarfa inngrip í líf venjulegra borgara.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á mánudag er nú fyrirhuguð frekari stækkun gjaldsvæða bílastæða. Sjálfur býr Friðrik á götu innan þess gjaldsvæðis sem var bætt við með útvíkkun í lok júní 2023. Hann segist skilja stefnu borgarinnar um að fækka bílum í miðborginni, en núna sé of langt gengið. „Ég er þannig séð sáttur við andbílastefnu borgarinnar. Mér finnst borgin flottari og betri vegna þess. En, og þetta er stórt en, mér finnst þeir núna bara vera að ganga alltof hart að saklausum íbúum í úthverfunum. Þótt þessi svæði séu ekki formlega úthverfi, þá eru þau það samt.“
Munu stækka gjaldsvæðið
Friðrik er ekki meðlimur í íbúasamtökum í Reykjavík en segist reikna með að mörgum íbúum á þeim svæðum sem fá nú aukna gjaldskyldu hljóti að finnast þetta íþyngjandi. Þá bendir hann á að þar sem gjaldskyldan er nú um helgar og fram á kvöld þurfi ættingjar og vinir jafnan að greiða fyrir heimsóknir til þeirra sem þar búa.
„Ég vonast til þess að þeir snarminnki tímann sem þarf að borga í stöðumælana. Og alls ekki gjaldskylda um helgar, fólk er að kíkja í heimsóknir til ættingja eða vina sem búa þar. Af hverju er verið að setja fólk í þessa stöðu? Mér finnst það bara fáránlegt.“
Friðrik hefur sótt um íbúakort, sem borgin hefur ákveðið að veita þeim íbúum sem ekki hafa innbyggt bílastæði við húsið. Á heimili hans eru tveir bílar og hefur hann því þurft að greiða í stöðumælasjóð og fengið þó nokkrar sektir fyrir að leggja öðrum bílnum í stæði fyrir utan húsið. „Mér finnst þetta óeðlilegt, að þessari gjaldskyldu er óvænt komið svona á. Svo ætla þeir að stækka gjaldsvæðið ennþá meira, og allt er þetta auðvitað gert einhliða án samráðs við borgarana.“
Ekki alfarið á móti gjaldskyldu
Hann segist þó ekki alfarið vera á móti gjaldskyldu bílastæða í borginni. Segir hann gjaldið tiltölulega lágt í samanburði við höfuðborgir annarra landa.
„Ég er ekki að hæla borgarstjórninni, en ég viðurkenni alveg að þetta eru tiltölulega lágar upphæðir miðað við aðrar borgir sem ég hef búið í, eins og Toronto, París eða Kaupmannahöfn. Þessi stefna borgarinnar á móti bílanotkun hefur ýtt á mig að ganga meira og ég er þakklátur fyrir það. En ég er sannfærður um að þessi fyrirhugaða stækkun muni ekki hafa nein áhrif á bílanotkun, það er bara verið að grípa inn í líf borgara með óþarfa óþægindum.“