Dómstólasýslan og Lögreglustjórafélag Íslands gera alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna. Í athugasemdum Dómstólasýslunnar segir að í frumvarpinu felist „enn ein íhlutun löggjafarvaldsins í launakjör dómara“

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Dómstólasýslan og Lögreglustjórafélag Íslands gera alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna. Í athugasemdum Dómstólasýslunnar segir að í frumvarpinu felist „enn ein íhlutun löggjafarvaldsins í launakjör dómara“.

„Lögreglustjórafélag Íslands lýsir andstöðu sinni við framkomið frumvarp og lýsir vonbrigðum með að nú í þriðja sinn skuli lögreglustjórar sæta inngripum í laun sín með afar íþyngjandi hætti,“ segir í athugasemdum Lögreglustjórafélagsins til efnahags- og viðskiptanefndar.

Í umsögn Dómstólasýslunnar er minnt á að frá því núverandi launafyrirkomulag dómara var lögfest 2019 hafi löggjafarvaldið ítrekað gripið inn í og ýmist frestað lögfestum dagsetningum launahækkana eða breytt viðmiðum um launabreytingar. Framkvæmdavaldið hafi einnig breytt túlkun á lögfestu viðmiði við útreikning á launum en sú breyting hafi verið dæmd ólögmæt í Hæstarétti. Byggja verði á þeirri grunnforsendu að tryggja verði sjálfstæði dómstóla gagnvart framkvæmdarvaldinu við ákvörðun á launum dómara. Ítrekaðar íhlutanir annarra valdstofa ríkisvaldsins í launakjör fari gegn markmiði laganna frá 2019 og draga megi í efa að þær samræmist kröfum um sjálfstæði dómara.

„Við þetta fyrirkomulag verður ekki lengur unað,“ segir í umsögn sem Kristín Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Dómstólasýslunnar hefur sent þingnefndinni.

Í umsögn sem Páley Borgþórsdóttir formaður Lögreglustjórafélagsins sendi Alþingi segir m.a. að ástæða þess að laun lögreglustjóra, ákæruvalds og dómstóla séu ákvörðuð með lögum sé að tryggja sjálfstæði og óhæði þeirra. „Alþingi hefur brugðist í því hlutverki að vernda sjálfstæði ákæruvaldsins og tryggja stöðugleika í launum þessara hópa og hefur sýnt að það er engin trygging fólgin í því að launin séu ákveðin með lögum þar sem fyrirætlanir eru um að breyta lögunum annað árið í röð. Áhyggjuefni er því að það verði frekar regla en undantekning að höfð séu bein afskipti af launakjörum sem gengur í berhögg við tilgang lagasetningarinnar 2019,“ segir í umsögninni.