[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltakonan Sóllilja Bjarnadóttir hefur samið við Grindvíkinga um að leika með þeim næstu tvö árin. Hún lék með uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki, í vetur en hefur áður spilað með Stjörnunni, KR, Val og sænska liðinu Umeå

Körfuboltakonan Sóllilja Bjarnadóttir hefur samið við Grindvíkinga um að leika með þeim næstu tvö árin. Hún lék með uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki, í vetur en hefur áður spilað með Stjörnunni, KR, Val og sænska liðinu Umeå. Sóllilja er 29 ára gömul og hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Kjartan Atli Kjartansson hefur framlengt samning sinn við Álftanes um að þjálfa karlalið félagsins áfram í úrvalsdeildinni í körfubolta næsta vetur. Hjalti Þór Vilhjálmsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari hans en Hjalti stýrði kvennaliði Vals í vetur, var áður með karlalið Keflavíkur í fjögur ár og þjálfaði þar á undan Þór á Akureyri og Fjölni.

Steve Cooper hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Leicester City sem verður nýliði í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur. Cooper var sagt upp hjá Nottingham Forest í desember. Hann tekur við af Enzo Maresca sem yfirgaf Leicester í vor, eftir sigur liðsins í B-deildinni, og tók við sem stjóri Chelsea.

Sigur karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu á Englandi á Wembley 7. júní lyftir liðinu um tvö sæti á heimslista FIFA sem var birtur í gær. Ísland er nú í 70. sæti í stað 72. sætis og fer upp fyrir Norður-Makedóníu og Svartfjallaland á listanum. Ísland er nú í 31. sæti af 55 þjóðum Evrópu.

Á ársþingi Handknattleikssambands Íslands í vikunni var samþykkt tillaga KA um að breyta fyrirkomulaginu um fall úr úrvalsdeild karla. Það verður framvegis eins og í úrvalsdeild kvenna. Aðeins neðsta liðið fellur beint en næstneðsta liðið fer í umspil með liðunum í öðru til fjórða sæti 1. deildar.

Arnfríður Auður Arnarsdóttir, sem er 16 ára gömul, skoraði bæði mörk Gróttu í sigri á Fram, 2:0, í 1. deild kvenna í fótbolta á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Hún hefur þar með skorað fimm mörk á tímabilinu og 16 deildamörk samtals fyrir meistaraflokk Gróttu.

Guðrún Arnardóttir skoraði eitt af mörkum Rosengård sem vann Örebro auðveldlega, 4:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Þetta var annað mark Guðrúnar í deildinni í ár en Rosengård hefur unnið alla tólf leiki sína og er með markatöluna 49:2.

Agla María Albertsdóttir fór meidd af velli eftir aðeins sex mínútna leik í gærkvöld þegar lið hennar, Breiðablik, tapaði óvænt fyrir Víkingi, 2:1, í Bestu deild kvenna í fótbolta í Fossvogi. Blikar misstu líka Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur meidda af velli í leiknum.

Guðmundur Baldvin Nökkvason, knattspyrnumaður úr Stjörnunni, viðbeinsbrotnaði í leik liðsins við FH í Bestu deild karla á þriðjudagskvöldið. Hann verður því frá keppni fram í ágúst og missir af í það minnsta sex leikjum í deildinni, undanúrslitum í bikarnum og Evrópuleikjum Garðabæjarliðsins. Þetta er mikið áfall fyrir liðið en Guðmundur, sem er í láni frá Mjällby í Svíþjóð, hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu.