Körfuboltakonan Sóllilja Bjarnadóttir hefur samið við Grindvíkinga um að leika með þeim næstu tvö árin. Hún lék með uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki, í vetur en hefur áður spilað með Stjörnunni, KR, Val og sænska liðinu Umeå. Sóllilja er 29 ára gömul og hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Kjartan Atli Kjartansson hefur framlengt samning sinn við Álftanes um að þjálfa karlalið félagsins áfram í úrvalsdeildinni í körfubolta næsta vetur. Hjalti Þór Vilhjálmsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari hans en Hjalti stýrði kvennaliði Vals í vetur, var áður með karlalið Keflavíkur í fjögur ár og þjálfaði þar á undan Þór á Akureyri og Fjölni.
Steve Cooper hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Leicester City sem verður nýliði í ensku úrvalsdeildinni næsta vetur. Cooper var sagt upp hjá Nottingham Forest í desember. Hann tekur við af Enzo Maresca sem yfirgaf Leicester í vor, eftir sigur liðsins í B-deildinni, og tók við sem stjóri Chelsea.
Sigur karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu á Englandi á Wembley 7. júní lyftir liðinu um tvö sæti á heimslista FIFA sem var birtur í gær. Ísland er nú í 70. sæti í stað 72. sætis og fer upp fyrir Norður-Makedóníu og Svartfjallaland á listanum. Ísland er nú í 31. sæti af 55 þjóðum Evrópu.
Á ársþingi Handknattleikssambands Íslands í vikunni var samþykkt tillaga KA um að breyta fyrirkomulaginu um fall úr úrvalsdeild karla. Það verður framvegis eins og í úrvalsdeild kvenna. Aðeins neðsta liðið fellur beint en næstneðsta liðið fer í umspil með liðunum í öðru til fjórða sæti 1. deildar.
Arnfríður Auður Arnarsdóttir, sem er 16 ára gömul, skoraði bæði mörk Gróttu í sigri á Fram, 2:0, í 1. deild kvenna í fótbolta á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Hún hefur þar með skorað fimm mörk á tímabilinu og 16 deildamörk samtals fyrir meistaraflokk Gróttu.
Guðrún Arnardóttir skoraði eitt af mörkum Rosengård sem vann Örebro auðveldlega, 4:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Þetta var annað mark Guðrúnar í deildinni í ár en Rosengård hefur unnið alla tólf leiki sína og er með markatöluna 49:2.
Agla María Albertsdóttir fór meidd af velli eftir aðeins sex mínútna leik í gærkvöld þegar lið hennar, Breiðablik, tapaði óvænt fyrir Víkingi, 2:1, í Bestu deild kvenna í fótbolta í Fossvogi. Blikar misstu líka Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur meidda af velli í leiknum.
Guðmundur Baldvin Nökkvason, knattspyrnumaður úr Stjörnunni, viðbeinsbrotnaði í leik liðsins við FH í Bestu deild karla á þriðjudagskvöldið. Hann verður því frá keppni fram í ágúst og missir af í það minnsta sex leikjum í deildinni, undanúrslitum í bikarnum og Evrópuleikjum Garðabæjarliðsins. Þetta er mikið áfall fyrir liðið en Guðmundur, sem er í láni frá Mjällby í Svíþjóð, hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu.