Þórarinn Hjaltason
Þórarinn Hjaltason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frestun samgönguáætlunar Alþingis 14.6. og bið eftir endurskoðun samgöngusáttmála viðheldur óvissu í uppbyggingu betri samgangna höfuðborgarsvæðisins.

Þorkell Sigurlaugsson og Þórarinn Hjaltason

Svokölluð endurskoðun samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 2019 hefur tekið meira en heilt ár, en er nú lofað á næstunni, jafnvel fyrir júnílok. Miklar væntingar byggðust upp í kjölfar undirritunar hans og nú endurskoðunarinnar. Strax í tengslum við borgarstjórnarkosningar 2022 bentu ýmsir á þörf fyrir róttæka endurskoðun, en þöggun var í gangi.

Svo kom gagnrýnin grein Bjarna Benediktssonar, þá fjármálaráðherra, í Morgunblaðinu 2. september 2023. Yfirskrift greinarinnar segir allt um áhyggjur hans af framkvæmd samgöngusáttmálans. „Villumst ekki inn í skóg ófjármagnaðra hugmynda“. Komið hafði í ljós að ýmsar framkvæmdir eru illframkvæmanlegar, kostnaðaráætlanir allt of lágar og augljóst að framkvæmdir myndu tefjast verulega.

Umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosta íbúa, fyrirtæki og þjóðina vel yfir 30 milljarða króna á ári vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga í samgöngum, minni framleiðni, minni skatttekna ríkis og sveitarfélaga, auk meiri mengunar og skertra lífsgæða almennings. Stytting vinnuvikunnar er löngu farin í tímasóun í einkabílnum eða í strætó. Á næstu 10 árum mun kostnaður vegna umferðartafa á svæðinu aukast verulega.

Deilur og óvæntar uppákomur

Fossvogsbrúin, eins mikilvæg og hún gæti verið, er orðin deila um kostnað og hvort þetta eigi að vera listaverk. Sæbrautarstokkur er allt of dýr framkvæmd. Miklubrautarstokkur er rándýr og illframkvæmanlegur. Jarðgöng undir Miklubraut eru orðin álitlegri kostur að mati Vegagerðarinnar og fleiri fagaðila. Fækkun akreina úr tveimur í eina í hvora átt efst á Laugavegi og Suðurlandsbraut, lækkun umferðarhraða og miðjusetning borgarlínu mun umturna og tefja gífurlega alla bílaumferð.

Borgarlína mun skerða bílastæði við fyrirtækin og aðkomu að þeim við göturnar. Aðkoma að Laugardalsvelli og fyrirhugaðri Þjóðarhöll verður algjörlega óviðunandi fyrir mörg þúsund manns sem koma þangað á viðburði á stuttum tíma. Heildarhönnun og framkvæmd borgarlínu mun taka mjög langan tíma, jafnvel 15-20 ár.

Samstaðan er rofin og óvænt frestun samgönguáætlunar

Afgreiðslu samgönguáætlunar sem tekur til áranna 2024 til 2038 var óvænt frestað af meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar á Alþingi föstudagskvöldið 14. júní. Vísað er m.a. til þess að „endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins ekki lokið, en æskilegt sé að honum séu gerð skil í samgönguáætlun“ eins og segir um það mál í bókun.

Eftir að Vegagerðin kom að verkefninu komu ný sjónarmið og áherslur. Framkvæmd við Sundabraut, sem er eitt brýnasta verkefnið, er vaxandi óvissu háð, tæknilega og fjárhagslega. Nýir ráðherrar eru komnir i fjármála- og innviðaráðuneytin. Sveitarstjórnarfólk utan Reykjavíkur er orðið verulega hugsi og jafnvel áhyggjufullt yfir ástandinu. Ríkið á Betri samgöngur ohf. nánast 100% og formannsskipti orðin þar í stjórn. Má vænta breyttra viðhorfa með nýjum fjármálaráðherra? Hvaða leið sér forsætisráðherra nú í gegnum „skóg ófjármagnaðra hugmynda“? Kemur nýr skógarhöggsmaður að málum?

Mun endurskoðun samgöngusáttmálans einhverju breyta?

Endurskoðun sáttmálans verður líklega ekkert annað en framlenging á kvalafullu ástandi, einhverjir plástrar settir á sárin og framkvæmdar slæmar lýtaaðgerðir af Reykjavíkurborg sem gætu þrengt enn meira að bílum og bílastæðum. Ólíklegt er að raunveruleg endurhugsun verði á verkefninu. Reykvíkingar og nágrannasveitarfélögin verða áfram í óvissu með framhaldið.

Betri samgöngur ohf. verja milljörðum á ári í verkefni á sviði samgöngusáttmálans, sem eru uppsafnað orðnir tæpir fjórir milljarðar í árslok 2023. Margt af því nýtist vel, svo sem göngu- og hjólastígar, en hönnun borgarlínu sem unnið er að gæti tekið miklum breytingum og mörgu verði hent. Svokölluð endurskoðun samgöngusáttmálans mun felast í að halda hlutum sem mest í böndum í kringum 200 milljarða fyrir forsætisráðherra svo vísað sé í hans grein, lengja tímann sem verkefnið tekur og hræra saman einhverri óljósri blandaðri lausn.

Horft til næstu ára

Á næstu árum má búast við mikilli fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu ásamt fjölgun ferðamanna. Umferð á höfuðborgarsvæðinu gæti aukist um 40% fram til 2034. Umferðin jókst um 6% á fyrstu fimm mánuðum þessa árs samanborið við sömu mánuði í fyrra. Með óbreyttri stefnu borgarstjórnar Reykjavíkur, ef núverandi meirihluti verður óbreyttur eftir 2026, halda umferðartafir í Reykjavík áfram að aukast.

Samtökin „Samgöngur fyrir alla“ (SFA) hafa unnið að tillögum um hagkvæmar og tiltölulega fljótlegar framkvæmdir til lausnar á bráðavandanum. Þær eru kostnaðarlitlar í stóra samhenginu, en gera ástandið bærilegra á næstu 3-5 árum. Eftir 10-15 ár eru svo langtímalausnir tilbúnar í notkun, m.a. jarðgöng undir Miklubraut ásamt skynsamlegum borgarlínum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og upp á Kjalarnes.

Um hugmyndir okkar fjöllum við ítarlega í grein í næstu viku.

Þorkell er viðskiptafræðingur, varaborgarfulltrúi og félagi í SFA, Þórarinn er samgönguverkfræðingur og félagi í SFA.