Anisha Tomar
Jóga. Þetta fjögurra stafa orð vekur kannski hughrif um erfiðar stellingar, ómögulegar teygjur og óþægilega líkamsstöðu. Þau hughrif stafa af takmarkaðri þekkingu á jóga. Hvað er það nákvæmlega sem felst í þessum gríðarlega útbreiddu, fornu indversku fræðum? Grunnstoð jóga er andlegur agi, byggður á einstaklega úthugsuðum vísindum, sem beinast að því að mynda fullkomið jafnvægi á milli hugar og líkama.
Yoga sutra (Jógaþráðurinn) er fræðasafn sem inniheldur texta um kenningar og iðkun jóga og gerir grein fyrir átta grunnþáttum þess. Grunnþættirnir eru yama (að standast freistingar), niyama (reglufesta), asana (meðvitund um líkamsstöðu), pranayama ( stjórn á andardrætti), pratyahara (að geta deyft skynfærin), dharana (að hafa stjórn á huganum), dhyana (hugleiðsla) og samadhi (hugarró).
Um leið og við fögnum áratugaráfanga 21. júní sem alþjóðlegs dags jóga skulum við rekja hvaða ábata jóga færir einstaklingum og samfélaginu öllu.
Jóga fyrir einstaklinga
Jógastöðum er ekki bara ætlað að styrkja líkamann og auka liðleika, heldur einnig að koma manneskjunni í nánari tengsl við náttúruna. Þar má til dæmis nefna stöðu sem heitir fjallið eða tadasana og bætir líkamsstöðu okkar. Þú færð innblástur frá eiginleikum fjallsins – kyrrðinni, stöðugleikanum, að standa bein/n í baki – og það að ná góðri stjórn á þessari stöðu leggur grunninn að öllum öðrum standandi jógastöðum.
Annað dæmi er staðan stríðsmaðurinn, eða virabhadrasana, sem er nefnd eftir stríðskappanum Virabhadra úr hindúískri goðafræði, sem er sagður tákna eyðingu alls ills, sjálfhygli og fáfræði. Þessi staða reynir á og veitir okkur styrk, einbeitingu, sjálfstraust og þjálfar hjá iðkandanum áræði stríðsmannsins.
Staða sem heitir tréð, eða vrksasana, veitir einnig andagift, en hún styrkir jafnvægi, eykur stöðugleika og styrkir fótleggina. Þar lærum við að þrýsta fótunum niður og finna tenginguna við móður Jörð eins og rætur, samtímis því sem við teygjum okkur hátt upp eins og greinar myndarlegs trés. Af þessum dæmum má ljóst vera að jóga gerir mikið gagn við að þroska alhliða persónuleika einstaklinga.
Hugur okkar er að minnsta kosti jafn mikilvægur og jarðneskur líkaminn og eins og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á fara 50.000 til 70.000 hugsanir um heilann daglega. Í svo ólgandi umhverfi er bráðnauðsynlegt að hvíla hugann. Hugleiðsla og öndunaræfingar skapa jafnvægi milli hægra og vinstra heilahvels, hægja á starfsemi heilans og veita hugarró.
Jóga fyrir samfélagið
Áhrif jóga teygja sig út fyrir einstaklinginn og það getur veitt mikil lífsgæði, samfélaginu öllu til heilla. Regluleg ástundun jóga getur dregið úr tíðni krónískra sjúkdóma eins og háþrýstings, sykursýki og hjartasjúkdóma. Jákvæði árangurinn af því getur orðið til þess að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og þar með er hægt að nýta úrræði þess betur. Að samþætta jóga og heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem glímir við andlega erfiðleika getur bætt almenna meðferð þess og heildræna nálgun við til dæmis þunglyndi, kvíða og áfallastreitu. Sé jóga stundað í hópi getur það byggt upp félagsleg tengsl og samkennd meðal samfélagsþegnanna, það að tilheyra, og leitt til betri líðanar almennt.
Jóga hefur einnig sannað sig sem mikilvægt verkfæri til að styrkja viðkvæma og jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, flóttafólk og heimilislaust fólk. Á Indlandi hefur ástundun jóga í skólum sýnt fram á bætta frammistöðu nemenda, einbeitingu og hegðun og þar með betri námsárangur. Mikilvæg lífsleikni svo sem agi, þolinmæði og samhygð þroskast betur meðal nemenda, sem eru nauðsynlegir eiginleikar fyrir einstaklinga og samfélag.
Indverska sendiráðið í Reykjavík býður upp á gjaldfrjálsa jógatíma alla virka daga, sem þjálfaður indverskur jógakennari leiðir. Ég hvet alla lesendur til að nýta sér þetta einstaka tækifæri til að upplifa á eigin skinni kosti þessara fornu indversku fræða. Það að temja sér heildræna nálgun jóga getur leitt til heilbrigðari tengdari heims, þar sem víðtækari samhygð ríkir.
Höfundur er skrifstofustjóri hjá indverska sendiráðinu í Reykjavík.