Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Ég hef verið með þessa hugmynd í kollinum lengi og loksins kom ég þessu í verk. Sýningargestir tóku mjög vel í þetta, ég seldi öll verkin strax og fékk pantanir fram í tímann,“ segir Markús Bjarnason, grafískur hönnuður og listamaður sem hélt nýlega sína fyrstu einkasýningu, SUÐ, á Núllinu, galleríi í Bankastræti í Reykjavík. Markús sýndi þar hljóðdempandi listaverk en þau eru þess eðlis að þau dempa óæskilega tíðni og bæta því hljóðvist þeirra rýma sem þau hanga í.
„Þetta á upphaf sitt í því að ég hef verið að vinna í tónlist og smíðað æfingarými og stúdíó, en í þannig rýmum vill maður gera hljóðvistina góða svo það sé hægt að taka upp og vinna hljóð. Ég lærði að smíða hljóðdempandi fleka, strekkt bómullarefni yfir furugrindarramma með steinull eða þéttull inni í. Þetta eru praktísk fyrirbæri en ég spurði sjálfan mig að því hvers vegna væri ekki hægt að gera þessa fleka fallegri og mögulega breyta þeim í listaverk, koma þeim heim í stofur hjá fólki til að bæta hljóðvistina. Ég sá strax fyrir mér að mála munstur á flekana og setja þá í vandaða og flotta ramma. Þegar ég lét loks verða af þessu ákvað ég að taka þetta alla leið og ég valdi vandað hágæðaefni. Í staðinn fyrir bómull valdi ég hörefni sem ég strekki yfir ramma, og síðan set ég gegnheilan eikarramma þar utan um. Ég smíða allt frá grunni í hverju verki, ég smíða rammana sjálfur, en ég sendi verkin ekki frá mér í innrömmun. Allt hráefnið set ég saman frá grunni og get fyrir vikið gert verkin í hvaða stærð sem er, enda hafa hrannast inn sérpantanir í ólíkustu stærðum fyrir ólík rými.“
Margir litlir punktar
Markús segist hafa þurft að takast á við ákveðið vandamál þegar hann var að þróa listaverkin.
„Hljóðdempandi verk virkar þannig að hljóðbylgjurnar fara í gegnum efnið og inn í steinullina og þannig dempast hljóðið. Málning er aftur á móti ekki dempandi, og því kom ekki til greina að mála yfir allt efnið, þá væri virknin farin. Mesti hausverkur minn við gerð þessara verka var að finna út hvernig ég gæti málað sem minnst á efnið, svo hljóðdempandi virknin sé sem mest, en á sama tíma þurfti ég að finna út hversu lítið ég gæti málað til að geta kallað verkin málverk. Ég var ánægður með útkomuna, en með því að gera marga litla punkta með málningu á strigann, með eins lítilli málningu og ég mögulega gat, þá tókst þetta. Þessi aðferð reyndi vissulega á fínhreyfingar mínar og það þurfti að vera útpælt hversu mikið af málningu ég notaði.“
Við búum okkur til rútínu
Mikil mýkt og sveigja er í þeim formum sem Markús hefur málað með punktunum, en hann segir að slík form dragi úr sjónrænu suði.
„Þessi form minna á hljóðbylgjur, en það er líka söguþráður á bak við hverja einustu mynd. Ég ímynda mér að ég sé hátt uppi í himinhvolfinu og horfi niður á jörðina, sjái heildarmyndina, og að allir punktarnir í myndunum standi fyrir okkur mannfólkið. Við erum öll að fást við nokkurn veginn það sama í hversdagsleikanum, línurnar eru því leiðirnar sem við förum, við skiljum öll eftir okkur slóð. Við búum okkur til rútínur og því liggja sumar línurnar saman, við förum margsinnis sömu leiðir. Til dæmis heitir eitt þessara verka minna Fyrsti göngutúrinn í vagninum, en það vísar til fyrstu brautarinnar sem við sköpum í lífinu, þegar við erum ungbörn í barnavögnum og foreldrar okkar rúlla okkur margsinnis sömu leiðirnar. Lífið verður flóknara eftir því sem við eldumst og við förum að gera aðra hluti. Önnur mynd heitir til dæmis Heitur pottur, kaldur pottur, heitur pottur, gufubaðið, sem vísar til sundrútínu, en margt fólk hefur sundrútínu í lífi sínu. Ég fer til dæmis sjálfur yfirleitt í sama pottinn fyrst þegar ég fer í sund. Við reynum að gera okkar besta í lífinu og búum okkur til rútínu. Fyrir mig persónulega róar það mig að horfa á heildarmynd lífsins með þessum hætti, það dempar suðið í mínu lífi.“
Hið myndræna suð
Markús segir að í nafni sýningarinnar, SUÐ, hafi hann ekki aðeins verið að vísa til hins hljóðræna suðs, sem verkin dempa, heldur hafi hann líka verið að skoða myndrænt suð, en þegar hann var í námi í Listaháskóla Íslands lærði hann m.a. um sjónræn samskipti.
„Sem grafískur hönnuður vinn ég með upplýsingar, ég fæ inn á borð til mín lista af upplýsingum og þarf að finna út hvernig ég ætla að setja þær fram á sjónrænan hátt svo fólk skilji hugmyndina strax. Stundum þarf jafnvel að setja mjög flókin atriði fram á einfaldan hátt. Þetta er ekki ólíkt því sem ég er að gera með hljóðdempandi listaverkunum mínum, ég einfalda með sjónrænum hætti eins mikið og ég mögulega get hvernig ég set fram pælingar um tilgang lífsins og það sem við erum að fást við. Ég geri það með því að setja það fram sem punkta og línur, þetta eru sjónræn skilaboð.“
Suðið í lífinu ekki bara hljóð
Markús segir að pælingarnar hjá honum séu að listaverkin hans séu fagurfræðilegt veggskraut sem hefur líka notagildi, þau laga jú hljóðvist.
„Ég er vissulega listamaður sem er að gera list og inn í það koma tilfinningar, en ég er líka hönnuður. Ég sameina því með þessum verkum list og hönnun, fagurfræði og notagildi. Suðið í lífinu er ekki bara hljóðsuð, það er líka sjónrænt suð. Þess vegna skiptir máli hvað við sjáum. Hægt er að hugsa um fyrirbærið suð með margs konar hætti, til dæmis sjónrænt áreiti, og þá koma fyrst upp í hugann skjáirnir okkar. Þeir eru líka suð í lífi okkar,“ segir Markús og bætir við að hann hafi lengi verið með kvíða.
„Það hefur róað minn huga og dregið úr kvíðanum að sjá og setja lífið upp sem þessa heildarmynd, sem horft er á ofan frá.“