María Pétursdóttir, húsfreyja í Víðidalstungu II, fæddist á Geitafelli á Vatnsnesi 23. mars 1932. Hún lést á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 8. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Pétur Gunnarsson sjómaður og bóndi, f. í Viðey 1889, d. 1946, og Auðbjörg Gunnlaugsdóttir, húsfreyja og kaupmaður, f. 1911 á Geitafelli, d. 1980. Systkini Maríu voru Auðbjörg, f. 1933, d. 2009, Sigurlaug Erla, f. 1934, Gunnlaugur, f. 1935, d. 2014, Guðrún, f. 1939, og Soffía, f. 1941.

Þann 18.11. 1950 giftist Maja, eins og hún var jafnan kölluð, Teiti Eggertssyni, f. 20.7. 1923, d. 28.2. 1996, frá Þorkelshóli í Víðidal. Kjörsonur þeirra er Eggert, f. 1970, endurskoðandi, maki Ásta Malmquist, f. 1967, viðskiptafræðingur. Dætur þeirra eru a) Sigríður María, f. 1999, hjúkrunarfræðingur, sambýlismaður Gunnar Pálmi Hannesson, f. 1996, flugmaður, og eiga þau Tryggva Hrafn, f. 2024, og b) Herdís Hörn, f. 2006, nemi. Þá ólst upp hjá Maju og Teiti frá fjögurra ára aldri systursonur Maju, Guðmundur St. Sigurðsson, f. 1953, múrari, kórstjóri og organisti. Maki hans er J. Valgerður Valgeirsdóttir, f. 1959, sérfræðingur. Börn þeirra eru a) Fanney Dögg, f. 1989, viðskiptastjóri, maki Árni Snær Jónsson, f. 1992, bílstjóri, og eiga þau Henry Stefán, f. 2022, og b) Andri Páll, f. 1991, þýðingafræðingur. Dætur Guðmundar St. frá fyrri sambúð eru a) Anna Lára, f. 1976, innanhússhönnuður, maki Árni Víðir Alfreðsson, f. 1968, sprengistjóri, búsett í Noregi, og eiga þau Júlíu Ósk, f. 2005, Orra, f. 2007, og Sigrúnu Völu, f. 2010, b) María Ögn, f. 1980, hjólaþjálfari, sambýlismaður Hafsteinn Ægir Geirsson, f. 1980, hjólari, og eiga þau Hafrúnu Bríeti, f. 2017. Dóttir Maríu úr fyrra sambandi er Katla Björt, f. 2007.

Maja ólst upp stóran hluta ungdóms síns á Vatnsnesi sem hún bar mjög sterkar taugar til alla tíð. Fyrst var hún á Geitafelli en síðar hjá móðursystur sinni Sesselju á Gnýstöðum en einnig á heimili foreldra sinna á Árbakka á Hvammstanga. Hún var elst sex systkina og faðir hennar heilsulítill. Voru barns- og unglingsárin oft nokkuð krefjandi en best leið henni á Gnýstöðum sem og á Akureyri þar sem hún var eitt sumar í vist, árið er Pétur faðir hennar lést. Skólaganga var takmörkuð við farskóla á þessum árum. Maja var vinnukona, t.d. í Árnesi í Miðfirði og á Reykjum í Hrútafirði og er þar 1949 er hún kynnist Teiti, sem þá var vinnumaður á Brekkulæk í Miðfirði. Fluttust þau að Þorkelshóli í Víðidal árið 1950 og bjuggu þar til þau festu kaup á hálfri Víðidalstungu árið 1953. Þar byggðu þau upp öll hús, ræktuðu tún og bjuggu alla sína starfsævi, fram til 1996. Eftir andlát Teits bjó Maja áfram í húsi sem þau höfðu reist sér í Tungu II og tók á móti gestum við öll tilefni, bauð upp á nóg af veitingum, bakstur var hennar líf og yndi. Þá átti hún seinni árin afdrep í eigin íbúð í Reykjavík þar sem var sömuleiðis gestkvæmt. Maja var mikil félagsvera, sótti í að kynnast nýju fólki við hvaða tilefni sem var. Maja var virkur félagsmaður í Kvenfélaginu Freyju í Víðidal.

Útförin verður frá Hvammstangakirkju í dag, 21. júní 2024, kl. 14 og jarðsett í Víðidalstungukirkjugarði.

Tengdamóðir mín María Pétursdóttir eða Maja í Tungu, eins og hún var jafnan kölluð, hefur kvatt þetta jarðlíf. Það er mikill sjónarsviptir að henni Maju minni enda engin lognmolla í kringum hana. Áfram gakk og hlutirnir áttu að gerast og þar var hún fremst í flokki að láta þá gerast og lagði sig mest fram. Maja fæddist á krepputímum við fátækt, var elst sex systkina og var aðeins 14 ára gömul þegar hún missir föður sinn. Hún fór ung að vinna fyrir sér og var fyrsta vinnan hennar að passa hesta þeirra sem komu í þorpið, brynna þeim og gefa hey, fimm krónur fyrir hvern hest. Þetta gerði hún þrátt fyrir hræðslu við hrossin en hún varð að hjálpa til við að leggja til heimilisins en þá bjuggu þau á Árbakka á Hvammstanga. Heima við var hennar hlutverk að passa krakkastóðið eins og hún orðaði það sjálf og sjá um matseldina og var uppistaðan einkum kartöflur og uppstúfur til að drýgja matinn. Þarna koma uppvaxtarárin hennar Maju minnar svo sterkt í ljós þegar engum matarafgöngum mátti henda eða tína skyldi öll rifsberin í garðinum okkar og helst nágrannans líka þar sem hann virtist ekkert ætla að nýta þetta hvort sem er og sneri líka inn á okkar lóð. Að fara sparlega með og nýta allt, það er góð vísa. Sumarið áður en faðir hennar dó hafði hún ráðið sig í vist norður á Akureyri og undi sér þar vel en var kölluð heim til að kveðja föður sinn og þá varð ekki aftur snúið. Frænka hennar á Gnýstöðum þurfti á henni að halda, að sögn móður hennar, en Sesselja frænka gekk þá með yngsta barn þeirra hjóna. Þangað fór Maja mín og átti þar góðar stundir. Yljaði hún sér oft við þær minningar sem og frá Eiðsvallagötunni á Akureyri.

Við tengdamamma hittumst fyrst í Tungu í júní fyrir 30 árum og það var enginn smá kvenskörungur sem tók á móti mér. Frú María gekk bókstaflega í öll verk! Morgunkaffið tók hún til, nýbakað brauð úr brauðvélinni, undirbjó hádegismatinn og síðan vatt hún sér í rauðu treyjuna, prjónakollan sett upp og í gúmmískóna. Út á tún að rifja eða múga en fyrir þá sem ekki vita þá þýðir það að snúa heyinu eða raka heyi í langar ræmur. Síðan kom hún heim rétt fyrir hádegi til að kveikja undir kartöflunum, hræra í eina köku og út aftur; svona var þetta meira og minna alla daga. Myndarskapur og gestrisni út í eitt og alltaf vel veitt, alveg sama í hvaða formi það var, föstu eða fljótandi.

Maja mín slakaði aldrei á, kunni það bara ekki og naut þess heldur ekki. Það var ekkert til sem hét að taka rólegan dag, chilla eða slaka. Ef ekki voru útiverk þá voru það inniverk. Ekki var hún mikið fyrir hannyrðir en prjónaði aðeins en bakstur átti hug hennar allan. Þeir feðgar voru oft þreyttir á þessu brölti hennar, sértaklega þegar hún var að prófa nýjar kleinuuppskriftir, til hvers, þeir elskuðu þessa gömlu! Þegar við Eggert bjuggum í Tungu var það hún sem kenndi mér að keyra traktorinn (Deutz) og réttu handtökin við að hjálpa ám við burð. Hún var þolinmóð við mig og góður kennari en ég verð að viðurkenna að við áttum ekki samleið í bakstrinum. Hins vegar kenndi hún dætrum mínum að baka en því miður kann ég ekki enn að steikja pönnukökur. Sú kennsla fór eitthvað á milli laga hjá okkur enda Maja miklu fljótari að steikja bara fyrir mig og ekki verra að hafa tvær pönnur í notkun í einu.

Maja mín var mikil stoð og stytta fyrir okkur Eggert þegar stelpurnar okkar veiktust eða starfsdagar voru í skólanum. Þá var Maja komin um leið að rétta okkur hjálparhönd og var hún eins og þeytispjald með Norðurleið fram og til baka, orðin málkunnug rútubílstjórunum. Þetta var ómetanleg hjálp á allan máta fyrir utan öll heimilisstörfin og þvottinn sem hún gekk í. Í Svarthömrum átti hún gott afdrep um árabil. Þar var mikill gestagangur og hún til staðar fyrir stelpurnar okkar. Þar var hálfgert mötuneyti því hún eldaði alltaf eins og hún var vön á árum áður þegar hún var með stórt og mikið heimili þannig að það var alltaf þrefaldur skammtur af öllu. Það var ekki amalegt að koma heim úr vinnunni og beint í gómsætan kvöldverð hjá Maju minni. Já og ekki mátti nú gleyma eftirréttunum! Í Svarthömrum undi hún sér þokkalega þótt Tunga væri alltaf best og hugurinn stefndi alltaf heim eins og viku fyrir andlátið.

Kvenhetjan María í Tungu er fallin frá sem bjó við mikla fátækt í æsku, byrjaði búskap sinn í tjaldi með tvö börn í sveit, átti við heilsubrest að stríða, ól upp drengina sína með sóma, missti Teit sinn allt of snemma. En í kjölfar þess voru samt tímamót þar sem Maja fór að ferðast með kórnum, löggunum og okkur í fjölskyldunni og hafði hún mikla unun af. Hún var alltaf glöð og kát þótt lífið væri ekki alltaf auðvelt.

Maja mín er nú komin til Teits síns og þau örugglega farin á rúntinn eða í reiðtúr og búin að kveikja í einni filterslausri Camel og njóta saman.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir hugulsemi þína, ást og virðingu alla tíð.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku Maja mín.

Þín tengdadóttir,

Ásta.