[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Helga Brynleifsdóttir fæddist 22. júní í Reykjavík 1954 og er því sjötug í dag. Hún ólst að verulegu leyti upp í Svíþjóð, frá fjögurra til fjórtán ára aldurs, þegar faðir hennar var í framhaldsnámi og starfaði þar í landi síðan sem læknir á nokkrum stöðum

Guðrún Helga Brynleifsdóttir fæddist 22. júní í Reykjavík 1954 og er því sjötug í dag.

Hún ólst að verulegu leyti upp í Svíþjóð, frá fjögurra til fjórtán ára aldurs, þegar faðir hennar var í framhaldsnámi og starfaði þar í landi síðan sem læknir á nokkrum stöðum.

„Uppvöxturinn í Svíþjóð hefur auðvitað haft ýmiss konar áhrif á mig, fyrst og fremst þau að ég er tvítyngd. Við fluttumst oft á Svíþjóðarárunum þótt við byggjum lengst af í Hultsfred í Smálöndum. En stærsta breytingin var fólgin í flutningnum til Íslands, nánar tiltekið til Selfoss. Við systkinin vorum alls ekki spennt fyrir því að flytjast frá Svíþjóð þegar faðir okkar sagði frá þeirri ætlan sinni. Og það háði mér framan af í náminu heima á Íslandi að ég var fjarri því góð í íslensku. Við höfðum alltaf búið í Svíþjóð í bæjum þar sem engir Íslendingar aðrir bjuggu og íslenskan var hætt að vera ríkjandi á heimilinu. En í dag er ég ánægð með ákvörðunina enda gott að búa á Íslandi.“

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1974 og fagnaði um sl. helgi með samstúdentum sínum þar 50 ára stúdentsafmæli.

„Ég eignaðist marga góða vini í MA og undanfarin ár höfum við nokkrar skólasystur hist reglulega í bókaklúbbi og átt þar gott samfélag.“

Guðrún Helga lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1981 og prófi í rekstarhagfræði frá Lundarháskóla 1987. Hún er héraðsdómslögmaður frá 1998 og hæstaréttarlögmaður frá 2006.

„Ég fluttist á ný til Svíþjóðar haustið 1981 með manni mínum sem var að hefja doktorsnám í guðfræði við Lundarháskóla. Ætlun mín var í fyrstu ekki að fara í nám þar heldur að vinna. En þá komst ég að því að lagaprófið íslenska reyndist mér fjötur um fót. Ég fékk oft að heyra að ég væri „överkvalificerad“ (þ.e. í raun of mikið menntuð!) þegar ég sóttist eftir störfum á tíma þegar ekki var svo auðvelt að fá vinnu. Ég starfaði þó um skeið m.a. sem ritari á Réttargeðdeildinni í Lundi. En þar kom að ég ákvað frekar að bæta við mig námi. Rekstarhagfræði varð fyrir valinu. Það var gæfuspor. Samtvinnun lögfræði og hagfræði hefur reynst góð og hagnýt blanda í starfi. Ég fékk vinnu í atvinnurekstrardeild skattyfirvalda í Lundi og Malmö og kunni því vel. Árin í Lundi urðu sjö, mjög ánægjulegur tími og gott að vera þar með ung börn. En þegar þar var komið sögu hafði ég búið samtals lengur í Svíþjóð en á Íslandi.“

Reynslan af starfinu hjá skattinum í Svíþjóð átti stærstan þátt í því að ég hóf störf hjá embætti ríkisskattstjóra fljótlega eftir komuna til Íslands og gegndi embætti vararíkisskattstjóra frá 1993-1999. Síðan þá hef ég starfað sem lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur í góðum félagsskap.

Á unglingsárum vann ég eins og flestir ýmiss konar sumarstörf, m.a. í fiski, bæði í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Góð reynsla það.“

Guðrún hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, þ. á m. ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir), Hringdu ehf., Örnu ehf., sem stjórnarformaður, í stjórn og framkvæmdastjóri í Vivaldi Ísland ehf., og Dvorzak Ísland ehf., og í stjórn Situs ehf., Dohop ehf. og Porcelain Fortress ehf. og um nokkurra ára skeið í úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Þá sat hún í bæjarstjórn Seltjarnarness í tvö kjörtímabil, 2002-2010, sem oddviti Neslistans. „Það er ánægjulegt að vinna að málum síns bæjarfélags. Sveitarstjórnarmál eru í eðli sínu ekki svo flokkspólitísk. Meira eins og rekstur fyrirtækis.“

Áhugamál Guðrúnar eru margs konar. „Við hjónin ferðumst mikið, höfum ótal sinnum verið í Landinu helga og löng búseta í Svíþjóð gerir það að verkum að mér finnst ég þurfa að koma þangað nokkrum sinnum á ári. Oftast verður Stokkhólmur fyrir valinu. Lengst hef ég komið til Ástralíu og til Kína, þrisvar sinnum. Við eigum okkar uppáhaldsborgir, m.a. Jerúsalem, Cambridge og Flórens.

Ég les mikið, ekki síður sænskar bækur en íslenskar, þ. á m. glæpasögur og svo skáldsögur af ýmsu tagi.

Eftir andlát föður míns leystum við hjónin til okkar bústað sem hann hafði reist í Vaðnesi 1978 og höfum verið að stækka og endurbæta. Eigum þar sælureit, skammt frá Selfossi en þar í bæ eigum við hjónin bæði rætur, þótt ekki höfum við búið þar samtímis. “

Fjölskylda

Eiginmaður Guðrúnar er dr. Gunnlaugur A. Jónsson, f. 28.4. 1952, prófessor emerítus í guðfræði. Þau búa á Seltjarnarnesi. Foreldrar Gunnlaugs voru hjónin Jón Gunnlaugsson læknir, f. 8.5. 1914, d. 17.4. 1997, og Selma Kaldalóns tónskáld, f. 27.12. 1919, d. 12.12. 1984.

Börn Guðrúnar og Gunnlaugs eru: 1) Þorbjörg Sigríður, f. 23.5. 1978, lögfræðingur og alþingismaður. Dætur hennar og Ágústs Ólafs Ágústssonar, f. 1977 (þau skildu), eru: Elísabet Una, f. 2002, Kristrún, f. 2005, og María Guðrún, f. 2012. Unnusti Þorbjargar Sigríðar er Guðmundur Kr. Guðmundsson, f. 9.1. 1964; 2) Jón Andreas, f. 9.8. 1982, framkvæmdastjóri, maki: Hjördís Eva Þórðardóttir, f. 15.3. 1982. Synir þeirra eru Friðrik Atli, f. 2008, Jóhann Daði, f. 2012, og Gunnlaugur Orri, f. 2016.

Foreldrar Guðrúnar voru hjónin Brynleifur H. Steingrímsson læknir, f. 14.9. 1929, d. 24.4. 2018, og Þorbjörg Sigríður Friðriksdóttir húsmóðir, f. 6.7. 1930, d. 19.12. 1975. Systkini Guðrúnar: Helga, f. 4.3. 1956, kennari, Friðrik, f. 15.5. 1958, d. 22.12. 1990, Brynja Blanda fjármálastjóri, f. 11.8. 1971, og Steingrímur f. 30.3. 1977, rafgreinir (hálfbróðir).