Þjóðhildarstígur Matvöruverslun er mikilvæg í hverju hverfi borgar.
Þjóðhildarstígur Matvöruverslun er mikilvæg í hverju hverfi borgar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Verslun Krónunnar í Grafarholti í Reykjavík er nú lokuð vegna endurbóta sem væntanlega lýkur í byrjun júlí. „Þessi tímasetning er þó sögð með ákveðnum fyrirvara fari svo að framkvæmdir taki lengri tíma en áætlað er,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri í samtali við Morgunblaðið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Verslun Krónunnar í Grafarholti í Reykjavík er nú lokuð vegna endurbóta sem væntanlega lýkur í byrjun júlí. „Þessi tímasetning er þó sögð með ákveðnum fyrirvara fari svo að framkvæmdir taki lengri tíma en áætlað er,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir framkvæmdastjóri í samtali við Morgunblaðið.

Grafarholtsverslun Krónunnar er við Þjóðhildarstíg og hefur verið starfrækt í 20 ár. Hét fyrst Nóatún en Krónan síðustu tíu ár. Guðrún segir að nú hafi verið kominn tími á endurnýjun svo sem á uppröðun, innréttingar og annan búnað. Þá eru umhverfisvæn kælikerfi sett upp, uppfærð LED-lýsing og svo mætti áfram telja. Þá verður skerpt á ýmsum áherslum í vöruframboði.

„Það má segja að hjá okkur sé nú að koma fram ný kynslóð verslana og búast má við að fleiri eldri búðir verði teknar til kostanna. Við erum með 26 verslanir og ákveðin endurnýjunarþörf til staðar hvað varðar búnað og fleira. Þar umfram er matvörumarkaðurinn að ganga í gegnum miklar breytingar og endurnýjun verslana er mikilvæg til að mæta kröfum nútímans og fjölbreyttum væntingum viðskiptavina. Við höfum sett okkur háleit markmið í sjálfbærni ásamt því að vera leiðandi í stafrænum lausnum. Endurnýjun verslana tekur einnig mið af því,“ segir Guðrún.

Nokkur umræða hefur skapast um óþægindi af völdum tímabundinnar lokunar verslunar Krónunnar meðal Grafarholtsbúa. Þá er kallað eftir fleiri matvörubúðum á svæðið og að slík verði þá meira miðsvæðis er nú er raunin.