Sigríður Soffía Níelsdóttir
Sigríður Soffía Níelsdóttir
Bjór fer inn, hreint vatn út, vín inn, vatn út, við erum sía/filter fyrir ógeðið sem við framleiðum fyrir okkur sjálf.

Sigríður Soffía Níelsdóttir

Ég sit í koníaksbrúnum hægindastól og drekk sjálfsvorkunn úr rauðvínsglasi í flauelsmjúkum kjól sem er handsaumaður úr heimatilbúinni uppgjöf. Legg svo silkislæðu úr sérhlífni yfir axlirnar. Meðan ég tala frussast út vatnsmikill foss. Stökkvandi í straumnum glittir í 5-8 punda afsakanir og réttlætingar. Á hálsinum á mér er laxastigi þar sem ástríðan syndir á móti straumnum. Hana er búið að veiða og sleppa oftar en ég hef tölu á.

List er mikilvæg samfélaginu, hvort sem það er danslist, tónlist, myndlist eða ritlist þá varpar hún oft ljósi á tilfinningalegan undirtexta sem margir hunsa. Einhver á netinu sagði að allir væru fæddir listamenn – svo aflærum við sköpunargáfuna mismunandi hratt. Hættum að fá hugmyndir, stoppum leikgleðina, við hættum að sjá möguleika og gleðjumst með ramma.

Við föðmum ábyrgðina – anddyri öryggis, endastöð frelsisins – og tökum aðra niður sem ekki eru sammála.

Svo rísa fyrirtæki og verksmiðjur sem meta skilvirkni véla sinna meira en líftíma viðskiptavina.

Líkaminn er risastórt sigti, svampur sem dökknar og fyllist. Bjór fer inn, hreint vatn út, vín inn, vatn út, við erum sía/filter fyrir ógeðið sem við framleiðum fyrir okkur sjálf. **tvær stjörnur á pakkann og í pínulitlu letri **E129, E133 getur haft neikvæð áhrif á athafnasemi og eftirtekt barna.

Fjölskyldan gæðir sér á heitri máltíð kryddaðri með krabbameinsvaldandi rotvarnarefnum og rennir henni niður með köldu glasi af natríumbensónati. Sígaretta – tóbak og tjara inn, hreint loft út, við getum verið frábær fyrir umhverfið. Vodka inn, vatn út – tilfinningar inn, ekkert út – reiði inn, ekkert út. Eftir stendur bólginn líkami fullur af eitri, tjöru, upplýsingaóreiðu og bældum tilfinningum. Ófrjór, óhamingjusamur, óáreiðanlegur. Fullur af heimatilbúinni vanlíðan.

Við horfum í augu barnanna okkar og sjáum persónuleika þeirra myndast. Á nóttunni spyr ég sjálfa mig: Ertu að byggja vörður fyrir þau að fylgja þegar dalalæðan skríður yfir fjöllin? Eða ertu að vanda þig svo mikið að þú ert búin að byggja 130 kg vörðu ofan á brjóstkassa þeirra?

Ég held að sjálfstraust þurfi að hugsa eins og sandkastala í íslenskri fjöru. Hann mun fara í stórstreymi, það er fljótlegra að reisa hann upp með einhverjum.

Við syngjum „álfadrottning er að beisla gandinn“, hvern er hún að beisla?

Hver er tilgangurinn með álfadrottningunni og eyðileggingunni? Ef við sjáum ekki tilganginn, þá reynum við að búa hann til, smíðum 16 metra langan tilgang í miðju tilgangsleysinu með tilfinningar og líkama sem eina vopnið. Svo verður tilgangurinn 17 metra langur og fær bílpróf og við efumst um allt aftur.

Dæmi: Samtal við níu ára barn. Þig langar í þessa nýju skó því allir eiga svona, þig langar að tilheyra hópi, að upplifa tilfinninguna – hlýjuna sem fylgir viðurkenningu og samhljómi. Og á sjónrænan hátt sýna að þú eigir stað í hjörðinni því þú telur að skórnir muni gefa þér aðgangsmiða að sjálfstrausti hinna.

Svo verður þú eldri og heldur áfram að þjóna hópi. Hópi sem mögulega veit ekki að þú ert að þjóna honum. Kaupir þér farartæki, kaupir klæðskerasaumaðar upplifanir, kaupir nýtt útlit, kaupir þér maka sem er alltaf sammála þér. Reynir að kaupa tilfinninguna sem þig langar að upplifa. Hvaða tilfinningu viltu upplifa? Hvernig getur þú búið hana til?

Mamma, má skipta um persónuleika ef sá sem þú bjóst til virkar ekki?

Já, að horfast í augu við eitthvað ber ávöxt.

Að horfast ekki í augu við eitthvað ber líka ávöxt.

Höfundur er dansari/danshöfundur.

Höf.: Sigríður Soffía Níelsdóttir