Handknattleiksdeild Hauka hefur komist að samkomulagi við markvörðinn Söru Sif Helgadóttur um að hún leiki með liðinu næstu tvö ár. Sara Sif kemur frá Val, þar sem hún vann þrefalt á nýafstöðnu tímabili og hafði leikið undanfarin þrjú tímabil

Handknattleiksdeild Hauka hefur komist að samkomulagi við markvörðinn Söru Sif Helgadóttur um að hún leiki með liðinu næstu tvö ár. Sara Sif kemur frá Val, þar sem hún vann þrefalt á nýafstöðnu tímabili og hafði leikið undanfarin þrjú tímabil. Hefur Sara Sif verið á meðal sterkari markvarða úrvalsdeildarinnar undanfarin ár og var til að mynda með næstbestu hlutfallsmarkvörslu deildarinnar, 38,8 prósent, á síðasta tímabili.

Körfuknattleikskonan Danielle Rodriguez, sem hefur leikið með Grindavík undanfarin tvö ár og á Íslandi frá 2016, er gengin til liðs við svissneska meistaraliðið Elfic Fribourg. Danielle er frá Bandaríkjunum en fékk íslenskan ríkisborgararétt á síðasta ári.

JJ Redick hefur verið ráðinn þjálfari bandaríska körfuknattleiksliðsins Los Angeles Lakers til fjögurra ára. Hann tekur við af Darvin Ham sem var sagt upp í maí eftir að Lakers féll út úr úrslitakeppni NBA. Redick er fertugur og lék m.a. með Orlando Magic og LA Clippers.

Kylian Mbappé lék ekki með Frökkum þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Hollendinga í gærkvöld á Evrópumótinu í fótbolta. Hann var ekki búinn að jafna sig eftir að hafa nefbrotnað í leik Frakka og Austurríkismanna á dögunum.

Norska knattspyrnufélagið Strömsgodset hefur hafnað tilboði Kortrijk í Belgíu, liðs Freys Alexanderssonar þjálfara, í bakvörðinn Loga Tómasson sem hefur vakið talsverða athygli í norsku úrvalsdeildinni það sem af er þessu tímabili. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins nam tilboðið um 100 milljónum íslenskra króna. Forráðamenn Strömsgodset segjast hafa hug á að halda honum lengur í sínum röðum.