Skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir fagnar öðru marka sinna fyrir HK.
Skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir fagnar öðru marka sinna fyrir HK. — Morgunblaðið/Eyþór
HK komst í gærkvöld í efsta sætið í 1. deild kvenna í knattspyrnu með því að vinna öruggan sigur á ÍR í Kórnum í Kópavogi, 4:1. Nýliðarnir úr Breiðholtinu komust þó yfir á 15. mínútu en Guðmunda Brynja Óladóttir jafnaði fyrir HK á 35

HK komst í gærkvöld í efsta sætið í 1. deild kvenna í knattspyrnu með því að vinna öruggan sigur á ÍR í Kórnum í Kópavogi, 4:1.

Nýliðarnir úr Breiðholtinu komust þó yfir á 15. mínútu en Guðmunda Brynja Óladóttir jafnaði fyrir HK á 35. mínútu og skoraði aftur sjö mínútum síðar, 2:1.

Jana Sól Valdimarsdóttir bætti þriðja markinu við á 69. mínútu og undir lokin innsiglaði Ísabel Rós Ragnarsdóttir sigurinn.

HK er þá komið með 14 stig eftir sjö leiki og fór upp fyrir Austfirðingana í FHL sem eru með 13 stig en eiga leik til góða.

Afturelding komst í þriðja sætið, einnig með 13 stig, með því að vinna Skagakonur 3:0 í Mosfellsbæ.

Hildur Karítas Gunnarsdóttir skoraði undir lok fyrri hálfleiks og Katrín S. Vilhjálmsdóttir fljótlega í síðari hálfleik. Ariela Lewis innsiglaði sigurinn með þriðja markinu seint í leiknum.