Tónlist Kira Kira er ein þeirra sem koma fram á Snæfjallahátíð.
Tónlist Kira Kira er ein þeirra sem koma fram á Snæfjallahátíð. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Tónleikar verða á tveimur stöðum norðan Djúps á Vestfjörðum um Jónsmessuhelgina. Í Steinshúsi koma fram tónlistarmennirnir Línus Orri, Leó Exóbard og ljóðskáldin Karólína Rós Ólafsdóttir og Sölvi Halldórsson

Tónleikar verða á tveimur stöðum norðan Djúps á Vestfjörðum um Jónsmessuhelgina.

Í Steinshúsi koma fram tónlistarmennirnir Línus Orri, Leó Exóbard og ljóðskáldin Karólína Rós Ólafsdóttir og Sölvi Halldórsson. Viðburðurinn hefst kl. 15 á morgun, sunnudaginn 23. júní. Fjöltónlistarmaðurinn Línus Orri hefur verið mjög virkur í þjóðlagatónlistinni á síðustu árum. Hann leikur nokkur lög og flytur kvæði með nyckelhörpuleikaranum Leó Exobard. Karólína og Sölvi, sem eru helmingur ljóðakollektívsins MÚKK, munu lesa eigin ljóð.

Tónlistarhátíðin Snæfjallahátíð fer síðan fram í Dalbæ og í Unaðs­dalskirkju á Snæfjallaströnd 21.-23. júní. Þar koma fram Kira Kira, Kraftgalli, Kvæðakórinn, Línus Orri, Dúllurnar, Súrillur og Dókur, Venus Volcanism, Ari Árelíus og Hermigervill. Um er að ræða tjaldútilegu langt frá mannabyggðum, eins og segir í tilkynningu, og því mælt með að gestir hátíðarinnar hafi með sér nesti og hlý föt.