Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í ræðustól Alþingis á fimmtudaginn, þegar hún var varin vantrausti.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í ræðustól Alþingis á fimmtudaginn, þegar hún var varin vantrausti. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land á mánudaginn en þá var þess jafnframt minnst að 80 voru liðin frá stofnun lýðveldisins. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði áherslu á gildi lýðræðisins, vörn þess og varnir í…

15.6.-21.6.

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land á mánudaginn en þá var þess jafnframt minnst að 80 voru liðin frá stofnun lýðveldisins.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði áherslu á gildi lýðræðisins, vörn þess og varnir í þjóðhátíðarávarpi sínu á Austurvelli.

Svo gæti farið að ríkisstjórn Íslands fengi fundaraðstöðu í gamla hæstaréttarhúsinu við Lindargötu í Reykjavík.

Skjálftavirkni í Hofsjökli hefur tífaldast á aðeins nokkrum árum.

Eldur kom upp í þaki verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar á laugardaginn. Slökkvilið náði að ráða niðurlögum eldsins en tjón er verulegt. Kringlan var opnuð aftur að lokinni reyk- og vatnsræstingu á fimmtudaginn.

Fyrirhuguð er frekari stækkun gjaldsvæða bílastæða í Reykjavík. Friðrik R. Jónsson, frumkvöðull og íbúi í miðbænum, segir þetta óþarfa inngrip í líf venjulegra borgara.

57 flugmönnum Icelandair hefur verið sagt upp. Uppsagnirnar tengjast að sögn árstíðasveiflum í rekstri félagsins.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, sagði sig úr Samfylkingunni vegna hjásetu við afgreiðslu útlendingalaga.

Landvarðafélag Íslands veitti Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, viðurkenningu sína, Gylltu stikuna.

2.652 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands.

Það er siðferðisleg skylda vestrænna lýðræðisríkja að styðja Úkraínumenn í vörn þeirra gegn innrás Rússa, segir Ingrida Šimonyte forsætisráðherra Litáens, sem var hér á landi.

Það styttist í að rúmlega 100 heyrnarlausir mannúðarleyfishafar fari á örorkubætur.

„Staðsetningin er góð þannig að maður sér svolítið skemmtilegt sjónarhorn á Reykjavík sem maður hefur ekki séð áður,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri þegar nýja parísarhjólið við Miðbakkann var ræst.

Áður óþekkt steind, sem fannst á Fimmvörðuhálsi árið 2010, hefur verið samþykkt sem ný tegund af Alþjóðasteindafræðisambandinu og nefnd kristjánít, eftir Kristjáni Jónassyni jarðfræðingi.

Metaðsókn var á sýningu Bílaklúbbs Akureyrar.

Aldrei hafa fleiri starfað við fiskeldi hér á landi en nú um stundir

Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 57% síðan í byrjun desember 2019.

Slökkvilið Grindavíkur greip til þess ráðs að kæla hraun með vatnsflaumi, eftir að minniháttar hrauntaumur náði að teygja sig yfir varnargarð við Sýlingarfell í nágrenni Svartsengis. Þetta hefur ekki verið gert síðan í Vestmannaeyjagosinu.

Anton Már Egilsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis, segir að netþrjótar séu nú farnir að beina spjótum sínum að börnum.

Ríflega 9.200 umsóknir bárust Háskóla Íslands og fjölgaði þeim um tæp tíu prósent á milli ára.

Íbúar í Skagafirði eru hamingjusamastir landsmanna, ef marka má nýja könnun.

PISA-kannanir halda áfram að gera usla. Nú kemur fram að hæfni 15 ára nemenda á Íslandi í skapandi hugsun er undir meðaltali OECD og standa drengir sig verr en stúlkur.

Haldið var upp á kvenréttindadaginn á miðvikudag.

Quang Le, sem grunaður er um umfangsmikil mansalsbrot, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi, er sagður hafa heimsótt meint fórnarlömb í málinu.

Tæplega fimmtíu leigubílstjórar eiga yfir höfði sér kærur eftir viðamikið eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með leigubílum í miðborginni um liðna helgi.

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur heimilað að hefja undirbúning að niðurrifi fjölnota íþróttahússins Hópsins.

Aukinnar bjartsýni gætir hjá Orkubúi Vestfjarða varðandi nýtingu jarðhita til upphitunar húsa á Ísafirði en jarðheitaleit og rannsóknir halda áfram í Tungudal í Skutulsfirði.

Vísir hf. í Grindavík hefur selt Fjölni GK 157 til Noregs.

Framkvæmdir við nýja kirkju í Grímsey eru að hefjast aftur eftir nokkurra mánaða hlé vegna fjárskorts.

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfniúttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss og situr nú í 17. sæti af 67 árið 2024.

Fjárdauði hefur verið talsverður eftir ótíðina fyrr í mánuðinum en tölur liggja ekki fyrir.

Sameinað sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar heitir Vesturbyggð.

Útlit var fyrir þinglok um helgina.

Ágætt líf er á fasteignamarkaði.

Vegagerðin stefnir að því að opna alla hálendisvegi fyrir mánaðamót.

Ammoníaksleki kom að gömlu frystihúsi á Tálknafirði.

Lögreglumenn eru margir undrandi á ummælum Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata, sem snúast um veru þeirra inni í Alþingishúsinu og eftirlit lögreglu með ráðherrum.

Laxveiði í Elliðaánum er hafin.

Landsframleiðsla á Íslandi er 34% yfir meðaltali 36 Evrópuríkja sem borin eru saman á vef Hagstofunnar.

Vantrauststillaga Miðflokksins á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra var felld á fundi Alþingis að viðhöfðu nafnakalli. 35 þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni, 23 greiddu atkvæði með, einn greiddi ekki atkvæði, en þrír þingmenn voru fjarstaddir. Einn stjórnarliði sat hjá við atkvæðagreiðsluna, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Grindvískum áttæringi var komið fyrir á bryggjunni í Reykjavíkurhöfn en til stendur að geyma bátinn í Reykjavíkurhöfn í sumar.

Dómstólasýslan og Lögreglustjórafélag Íslands gera alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisráðherra um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna.

Ólíklegt er að frumvarp um lagareldi verði aftur lagt fram í haust, að sögn matvælaráðherra.

Félögin Wokon ehf. og EA17 hafa verið úrskurðuð gjaldþrota en þau voru bæði í fullri eigu Quangs Les.

Fjórir voru fluttir á slysadeild eftir tveggja bíla árekstur í Hvalfjarðargöngum.

Bandaríski stórleikarinn Donald Sutherland lést, 88 ára að aldri.