Rafíþróttir Iðkendum hér á landi hefur fjölgað hratt.
Rafíþróttir Iðkendum hér á landi hefur fjölgað hratt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Emil Páll Matthíasson og Kjartan Daníel Helgason, sem báðir hafa lagt fyrir sig rafíþróttir, fengu á dögunum skólastyrki í Bandaríkjunum vegna færni sinnar í spilun tölvuleikja. Fjöldi skóla vestra býður nú styrki í rafíþróttum til háskólanáms og standa þeir efnilegum Íslendingum til boða

Emil Páll Matthíasson og Kjartan Daníel Helgason, sem báðir hafa lagt fyrir sig rafíþróttir, fengu á dögunum skólastyrki í Bandaríkjunum vegna færni sinnar í spilun tölvuleikja. Fjöldi skóla vestra býður nú styrki í rafíþróttum til háskólanáms og standa þeir efnilegum Íslendingum til boða.

„Árangur þeirra Emils og Kjartans er staðfesting á því sem blómlegt rafíþróttastarf getur skilað,“ segir Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands.

Emil hlaut fullan skólastyrk til háskólanáms í Tennessee. Hann mun spila fyrir lið skólans í rafíþróttinni Overwatch. Emil hefur spilað í efstu deild í Overwatch á Íslandi síðustu misserin. Kjartan Daníel hlaut einnig fullan styrk til háskólanáms í Mississippi en hann spilar fyrir lið skólans í League of Legends.

Í vexti tölvuleikjaiðnaðar hafa skapast tækifæri fyrir ungt fólk í rafíþróttum. Í Bandaríkjunum veltir tölvuleikjaiðnaðurinn alls átta þúsund milljörðum króna og skapar alls 268 þúsund störf. Háskóladeild Bandaríkjanna í rafíþróttum er í vexti og hafa stjórnvöld stutt þá deild vel ásamt því að veita rafíþróttamönnum landvistarleyfi.

„Það er frábært að sjá að múrinn er loksins rofinn og að fyrsta íslenska rafíþróttafólkið hafi fengið skólastyrk,“ segir Ólafur Hrafn Steinarsson, stofnandi Rafíþróttasambands Íslands og forstjóri Esports Coaching Academy.

„Að íslenskt rafíþróttafólk ætti möguleika á að fara utan á skólastyrk tengdum rafíþróttum var eitt af því sem við vildum ryðja veginn fyrir með stofnun sambandsins og uppbyggingu á umgjörð í kringum rafíþróttir á sínum tíma,“ segir Ólafur. Fyrirtæki hans er nú í samstarfi við fyrirtæki sem leitar að rafíþróttafólki á Íslandi sem hefur áhuga á að fara á skólastyrk til Bandaríkjanna og Kanada.

Rafíþróttastarfi á Íslandi hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum. Íþróttafélögin hafa stigið inn með starf á þessum vettvangi og standa fyrir æfingum og mótshaldi. Þá hefur starfi á þessum nótum verið skapaður vettvangur í framhaldsskólum og innan Rafíþróttasambands Íslands eru mörg járn í eldi. sbs@mbl.is