Romelu Lukako skorar fyrir Belgíu gegn Slóveníu. Hann skoraði reyndar tvisvar í leiknum, en bæði mörkin voru dæmd af eftir milligöngu VAR-tækninnar, annað vegna rangstöðu, hitt vegna „fingurnaglar“, sem snerti boltann.
Romelu Lukako skorar fyrir Belgíu gegn Slóveníu. Hann skoraði reyndar tvisvar í leiknum, en bæði mörkin voru dæmd af eftir milligöngu VAR-tækninnar, annað vegna rangstöðu, hitt vegna „fingurnaglar“, sem snerti boltann. — AFP/Thomas Kienzle
Mig grunar að þessi furðulega árátta að reyna að útrýma mistökum byggist á ranghugmyndinni um að skilvirkni bæti allt.

Smitberinn

Halldór Armand

halldor.armand@- gmail.com

Á Evrópumótinu í fótbolta eru mörk núna dæmd af vegna þess að augnhár leikmanns var rangstætt samkvæmt ofurnákvæmri dómgæslutækni. Það er orðið óbærilegt að horfa á íþróttina því fyrsta hugsunin þegar mark er skorað er alltaf: Ætli það sé einhvern veginn hægt að ógilda þetta mark? Strauk boltinn mögulega fingurnögl í aðdraganda marksins og þess vegna er hendi? Eru einhver mistök sem hægt er að leiðrétta? Mig grunar að þessi furðulega árátta að reyna að útrýma mistökum byggist á ranghugmyndinni um að skilvirkni bæti allt.

En það sér hver maður að þetta er algjör misskilningur. Mistök og hættan á þeim eru það sem gerir leikinn mannlegan og það er akkúrat þar sem töfrar hans eru faldir. Öll álfan horfir nú dolfallin á Evrópumótið í fótbolta vegna þess að já, við viljum dást að einstökum hæfileikum og já, viljum verða vitni að impróvíseruðum snilldartöktum sem gerast í hita leiksins, en líka vegna þess að innst inni skiljum við – og elskum – að leikurinn er gallaður; hann getur ekki verið annað því fólkið sem spilar hann og dæmir er gallað. Þannig speglar leikurinn okkar eigin tilvist. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt, það fer ekki allt nákvæmlega eins og það ætti að fara, mistök eru gerð sem ekki verða leiðrétt afturvirkt.

Þetta er ástæða þess að mistök eru oftar en ekki eftirminnilegustu augnablikin; þau sem fólk ræðir af ástríðu áratugum saman eftir að þau eiga sér stað. Epíkin verður til í gallanum. Hver man ekki eftir „draugamarki“ Franks Lampards gegn Þýskalandi í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Suður-Afríku árið 2010? Þjóðverjar voru 2-1 yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar Lampard átti skot fyrir utan teig sem fór yfir Manuel Nauer í markinu og hafnaði í þverslánni þar sem boltinn hamraðist niður og lenti rétt fyrir innan marklínuna áður en hann skoppaði aftur út. Þetta gerðist svo hratt að dómari leiksins gat með engu móti séð þetta vel, hvað þá dæmt mark í óvissu. En í endursýningu sást vel að boltinn fór inn. Í stað þess að staðan væri 2-2 í hálfleik var hún því áfram 2-1. Þjóðverjar unnu síðan 4-1 því Englendingar þurftu að sækja og taka meiri áhættu í seinni hálfleik. Árið 2005 vann Liverpool Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með marki sem enginn veit hvort var raunverulega mark eða ekki. Liverpool vann síðan AC Milan í úrslitum í einum frægasta úrslitaleik sögunnar.

Og ef einhver lesandi er ekki sannfærður ennþá, þá skal ég taka augljósasta dæmið af þeim öllum. Mark Maradona gegn Englandi á HM 1986, sem kennt er við „Hönd Guðs“, er líklega annað af tveimur frægustu mörkum fótboltasögunnar, en það hefði aldrei fengið að standa í dag. VAR-tæknin hefði skemmt það. En í sama leik skoraði Maradona líka hitt frægasta markið; „mark aldarinnar“ þar sem hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi og prjónaði sig listilega fram hjá næstum öllu enska liðinu og skoraði. Þetta mark hefði mögulega líka verið dæmt af í dag vegna þess að rétt áður var brotið á leikmanni enska liðsins án þess að dómarinn dæmdi aukaspyrnu.

Sönn ást er ekki að elska aðra manneskju þrátt fyrir galla hennar heldur vegna þeirra. Ást manna grundvallast á þessari dásamlegu mótsögn: Í gegnum ófullkomleika sinn verður fólk fullkomið í okkar augum. Með því að reyna að gera fótbolta „fullkominn“ með aðstoð óbrigðullar tækni hættir hann einmitt að vera fullkominn og verður ónáttúrulegur og ómennskur, hann missir galdramátt sinn, hann tapar epík sinni.

Grískar tragedíur kenna okkur að menn skapa einmitt örlög sín með tilraunum sínum til að forðast þau. Þegar Ödipus konungur áttar sig á því að hann hefur myrt föður sinn og gifst móður sinni, gert nákvæmlega sömu mistök og hann varði ævi sinni í að reyna að forðast, þá bregst hann við með því að stinga úr sér augun af harmi. Við þurfum að gera hið sama við VAR-tæknina. Við þurfum blindu til að fá sýn að nýju.