Akureyri Varnarmaðurinn Hulda Björg Hannesdóttir fagnar vel og innilega eftir að hafa komið Þór/KA í 2:1 gegn Fylki í gærkvöld.
Akureyri Varnarmaðurinn Hulda Björg Hannesdóttir fagnar vel og innilega eftir að hafa komið Þór/KA í 2:1 gegn Fylki í gærkvöld. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valskonur nýttu sér ósigur Breiðabliks gegn Víkingi í fyrrakvöld og náðu Kópavogsliðinu að stigum á toppi Bestu deildar kvenna í fótbolta í gærkvöld. Þær fengu FH í heimsókn á Hlíðarenda og unnu mjög sannfærandi sigur, 3:1, en þar skoraði þó Ída…

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Valskonur nýttu sér ósigur Breiðabliks gegn Víkingi í fyrrakvöld og náðu Kópavogsliðinu að stigum á toppi Bestu deildar kvenna í fótbolta í gærkvöld.

Þær fengu FH í heimsókn á Hlíðarenda og unnu mjög sannfærandi sigur, 3:1, en þar skoraði þó Ída Marín Hermannsdóttir, fyrrverandi leikmaður Vals, glæsilegasta mark leiksins rétt áður en flautað var til leiksloka.

Amanda Andradóttir kom Val í 2:0 með tveimur mörkum, því fyrra strax á fimmtu mínútu og því síðara úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleiknum. Jasmín Erla Ingadóttir bætti við þriðja markinu og Valskonur voru líklegri til að bæta við þar til Ída minnkaði muninn.

Þegar hefðbundna deildakeppnin er nákvæmlega hálfnuð, níu umferðir af átján, hafa Valur og Breiðablik unnið sína átta leikina hvort. Valskonur fara til Akureyrar í næstu umferð og þar kemur í ljós hvort Þór/KA blandar sér frekar í titilbaráttuna.

Sjöundi sigur Þórs/KA

Þór/KA heldur sínu striki og er aðeins þremur stigum á eftir Breiðabliki og Val. Akureyrarliðið lagði Fylki, 3:1, og vann sinn sjöunda sigur í fyrstu níu umferðunum.

Þór/KA hefur sem sagt unnið öll hin sjö lið deildarinnar en tapað fyrir tveimur þeim efstu. Í fyrra þurfti liðið fjórtán leiki til að ná sjö sigurleikjum en aðeins níu leiki í ár.

Sandra María Jessen skoraði ekki, aldrei þessu vant, en átti stóran þátt í fyrstu tveimur mörkunum sem Hildur Anna Birgisdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir skoruðu. Hin unga Hildur Anna hefur nýtt tækifæri sín vel og skorað í tveimur leikjum Þórs/KA í röð.

Slóveninn Lara Ivanusa innsiglaði sigurinn með þriðja markinu en Guðrún Karítas Sigurðardóttir hafði jafnað metin fyrir Fylki í 1:1.

Fylkiskonur töpuðu sínum sjötta leik í röð og eru nú komnar í botnsæti deildarinnar.

Þróttur úr fallsæti

Þróttarkonur komust af botninum með sínum öðrum sigri á tímabilinu þegar þær lögðu Stjörnuna að velli, 1:0, í Laugardalnum.

Norðfirðingurinn Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði sigurmarkið undir lok fyrri hálfleiks eftir hornspyrnu Sæunnar Björnsdóttur.

Þróttarar fara meira að segja úr fallsæti í fyrsta skipti með þessum úrslitum, upp fyrir bæði Keflavík og Fylki. Tveir sigrar í síðustu þremur leikjunum ættu að gefa liðinu sjálfstraustið sem beið eflaust hnekki eftir óhagstæð úrslit í fyrstu sex umferðum tímabilsins.

Stjörnukonur töpuðu hins vegar sínum fjórða leik í röð og eru nú komnar niður í sjöunda sæti deildarinnar. Það er botnbarátta fram undan í Garðabæ með þessu áframhaldi.

Leysir Murielle af hólmi

Tindastóll er kominn í hóp sex efstu liða eftir góðan útisigur í Keflavík, 2:0. Jordyn Rhodes var fengin til að leysa Murielle Tiernan af hólmi og hún ætlar að standa undir væntingum.

Jordyn skoraði bæði mörk Skagfirðinga og hefur skorað helming marka liðsins í deildinni, fimm af tíu. Tindastólsliðið hefur unnið dýrmæta sigra gegn hinum liðunum í neðri hluta deildarinnar og þeir vega þungt.

Keflavíkurkonur töpuðu í sjöunda skipti í fyrstu níu leikjunum og duttu niður í fallsæti á ný.