Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Markmið Rússa um endurreisn hins rússneska keisaradæmis er markmið Pútíns.

Einar S. Hálfdánarson

Mér hefur orðið grein eftir Pál Vilhjálmsson umhugsunarefni. Greinin er skrifuð af sögulegri þekkingu sem ekki er almenn nú orðið. Rökin að baki niðurstöðu höfundar gætu ofan í kaupið staðist. Rússar séu á sigurbraut í Úkraínu, spurningin er aðeins hve tap Evrópu yrði stórt að mati Páls. Í sögulegu samhengi yrði til nýtt rússneskt keisaradæmi. Rússland yrði 170-180 milljón manna ríki með gnótt náttúruauðlinda. Þá yrði Vestur-Evrópa enn meir upp á Rússa komin með sín helstu bjargráð [sem yrði stærsti útflytjandi korns í heiminum og gæti skammtað sér verð].

Allt getur þetta gengið upp hjá Páli ef BNA verða okkur ekki til verndar. Markmið Rússa um endurreisn hins rússneska keisaradæmis er yfirlýst markmið Pútíns. Hann hefur talið upp þau lönd og landsvæði sem Rússar eiga að stýra. Eitt þeirra sem hann ágirnist (sem Pútín nefnir „ekki-land“) er Kasakstan. Það fær hann þó ekki vegna þess að Kínverjar lýstu yfir að þeir ábyrgðust landamæri Kasakstans. Hráefnaauður Kasakstans er svo mikill að Kína vill hafa bein viðskipti við landið.

Er Rússland Pútíns vörn Evrópu gegn íslamistum?

Páll telur Rússland einu vörn Evrópu gegn yfirvofandi yfirráðum múhameðstrúarmanna. Þetta tel ég alrangt. Rússland styður verstu og öfgafyllstu múhameðstrúarmennina sem nú herja á heiminn með hryðjuverkum, Írana og Hamas-hryðjuverkasamtökin. Svik Rússa á varnarsamningi við Armena eru talandi dæmi. Rússar telja múslimska Asera meira virði fyrir sig. Arfleifð rússneska glæpahópsins (kommúnistaflokksins) sem Arnór Hannibalsson nefndi svo lifir góðu lífi í núverandi stjórn Rússlands. Ég man ekki hver það var, kannski Pasternak eða Akhmatova, sem sagði fyrirmynd Stalíns vera Ívan grimma. Hitt er jafnvíst að fyrirmynd Pútíns, barnabarn eiturkokks Stalíns, er Stalín sjálfur, fyrsti nútímahryðjuverkamaðurinn.

Hin sögulega arfleifð Rússlands er grimmd og ógnarstjórn mongólanna sem stýrðu Rússlandi þar til Ívan grimmi komst til valda. Enda var Lenín Kalmúki (mongóli) að uppruna.

Sé niðurstaða Páls rétt, þá blasir við val milli tveggja afarkosta. Með íslam kæmu undirokun kvenna og ofsóknir gegn samkynhneigðum. Afbrotamenn yrðu beittir hörku sjaríalaga. Mörg dæmi eru um góða sambúð kristinna og múhameðstrúarmanna, t.d. í sumum Mið-Austurlöndum, þótt þeir síðarnefndu séu oft yfir kristna settir. En hið gagnstæða er vissulega oft reyndin.

Þau lönd sem lenda undir hæl Rússa hafa ekki verið öfundverð. Örlög Krím-tataranna og Eystrasaltsþjóðanna eru enn í flestra minni. Rússar telja sig hafa rétt til að vera herraþjóð þar sem þeir ná völdum. Í Rússlandi ríkir svonefnt þjófræði (e. kleptocracy). Ásælni Pútíns í Úkraínu snýst um að ná völdum og auðlegð landsins undir yfirráð þjófanna. Það myndi ekkert breytast þegar að öðrum löndum kæmi.

Það blés ekki byrlega framan af síðustu öld þegar valið stóð milli annarra afarkosta að margra mati, fasisma eða kommúnisma. Vesturlönd verða að verja lýðræðisleg gildi sín fram í rauðan dauðann að mínu mati. Hætta dekri við öfgafulla múhameðstrúarmenn. Gera það að tyrkneskri fyrirmynd Atatürks og hafna jafnframt þjófræði Rússa.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður

Höf.: Einar S. Hálfdánarson