ESB Baerbock hefur margsinnis rætt friðarlausnir á Gasaströnd.
ESB Baerbock hefur margsinnis rætt friðarlausnir á Gasaströnd. — AFP/Odd Andersen
Utanríkisráðherra Þýskalands, Annalena Baerbock, mun í næstu viku ferðast til Mið-Austurlanda í þeim tilgangi að taka þar þátt í öryggisráðstefnu. Ráðherrann mun einnig ræða við forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar um þau miklu átök sem nú standa yfir á Gasaströndinni

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Utanríkisráðherra Þýskalands, Annalena Baerbock, mun í næstu viku ferðast til Mið-Austurlanda í þeim tilgangi að taka þar þátt í öryggisráðstefnu. Ráðherrann mun einnig ræða við forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar um þau miklu átök sem nú standa yfir á Gasaströndinni. Enn er talin hætta á að ófriðarbálið dreifi úr sér.

Baerbock heldur til Ísraels á mánudag í beinu framhaldi af fundi utanríkisráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) í Lúxemborg. Þar mun hún flytja ávarp á öryggisráðstefnu áður en haldið er til fundar við Mohammed Mustafa forsætisráðherra á Vesturbakkanum. Hún mun einnig eiga fund með utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz. Stríðsátökin á Gasaströnd og mannúðarkrísan þar er fundarefnið.

Þá mun utanríkisráðherrann einnig funda með fulltrúum Líbanons vegna þeirrar miklu spennu sem ríkir við landamærin.

Meira en átta mánuðir eru nú liðnir frá ódæðinu mikla 7. október sem leiddi til þess að Ísraelsher (IDF) hóf umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gegn hryðjuverkasveitum Hamas. Í ódæðinu voru nærri 1.200 manns, nær allir þeirra almennir borgarar, myrtir af Hamasliðum. Yfir 100 manns eru enn í haldi Hamas.

Þörf á mikilli aðstoð

IDF hefur verið gagnrýnt harðlega af alþjóðasamfélaginu fyrir aðgerðir sínar á Gasaströnd og eru sagðir koma í veg fyrir að hjálpargögn berist nauðstöddum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir svokallað mannúðarhlé á átökum ekki skila sínu. Nauðsynlegt sé að koma mun fleirum til hjálpar á Gasaströnd.