[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á jaðarhátíðum gefst færi á að sjá eitthvað sem er svolítið tilraunakennt og hrátt.

Af listum

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

Súrrealískur súludans, draumkenndir tónleikar, ærslafullur spuni og hárbeitt uppistand er á meðal þess sem jaðarhátíðin Reykjavík Fringe býður upp á í ár. Hátíðin er nú haldin í sjöunda skipti í miðborginni og eru sýningarstaðirnir fjórir, Þjóðleikhúskjallarinn, Tjarnarbíó, Dubliner og Gaukurinn. Allir eru þeir í göngufjarlægð hver frá öðrum sem mér þótti talsverður kostur þegar ég arkaði á milli sýninga í íslensku sumarveðri á miðvikudagskvöld.

Kvöldið hófst á danssýningunni Dusk/Night/Dawn í Tjarnarbíói klukkan fimm. Áður en gengið var inn í salinn var áhorfendum réttur miði með texta um sýninguna sem rammaði hana inn og gaf vísbendingu um framvinduna. Textinn var súrrealískur og sagði frá baráttu pappírsstjörnumannsins við flugeldamanninn, en báðir girntust þeir himininn og stjörnurnar. Sýningin var mikið sjónarspil, úr loftinu miðju hékk súla og í kringum hana hringsnerust dansararnir tveir, listakonurnar Donna Carnow og Gina Alm, í dáleiðandi og á köflum ansi háskalegum dansi. Rauðum blöðrum hafði verið dreift um allt gólf og sýningin náði ákveðnum hápunkti þegar annar dansaranna dansaði með blöðru klemmda í hnésbótinni í kringum súluna í eldrauðu nærfatasetti. Þá var líka dansað með stóla og aðra fylgihluti, svo sem himinháa hælaskó. Dansinn var fallegur og auðvelt að hrífast af hreyfingum svífandi dansaranna, en sýningin hökti þó aðeins og varð endurtekningasöm undir lokin.

Á jaðarhátíðum hefur verið hefð fyrir því að listamenn prófi sig áfram og sýni verk í vinnslu – sýningarnar mega því vera ófullkomnar. Dusk/Night/Dawn virkaði einmitt ekki alveg fullkláruð og þó að dansararnir hafi staðið sig prýðisvel sást stundum á þeim að þeir væru hikandi, sem sló örlítið á leikhústöfrana. Á heildina litið var sýningin þó vel hugsuð og tilþrifamikil, túlkun dansaranna frumleg og aðdáunarvert að sjá hve margir möguleikar felast í súludansi. Henni tókst sömuleiðis vel að vekja tilfinningar hjá áhorfendum, svo sem undrun, hrifningu og forvitni. Ég gekk því sátt út úr Tjarnarbíói eftir sýningu sem víkkaði sjóndeildarhringinn og jók forvitni mína um jaðarlistgreinina súludans töluvert.

„Þetta er uppáhaldssýningin mín á allri hátíðinni,“ hvíslaði annar áhorfandi að mér þegar okkur var hleypt inn á tónleika sænska listakvársins Storm, Welcome Home, í Þjóðleikhúskjallaranum stuttu seinna. Sýningin vann til verðlauna á hátíðinni í fyrra og kom það ekki á óvart enda var hún bæði vönduð og hjartnæm. Á sviðinu stóð Storm ásamt hljómsveit sinni og á meðan hán söng seiðandi söngva spilaðist myndband á veggnum fyrir aftan hljómsveitina. Við fengum þannig bæði að sjá og heyra söguna af vélmenninu Nova sem eitt sinn var mennskt og þráði að verða það aftur.

Storm byrjaði nýlega að taka testósterón og er rödd háns því breytt frá því í fyrra líkt og hán hafði sjálft orð á. Í gegnum sýninguna fengum við að heyra þessar breytingar og í lokalaginu söng hán til dæmis yfir gamla hljóðupptöku af sjálfu sér. Sýningin fjallaði því einnig um persónulega vegferð Storm sem miðlað er fallega í gegnum hljóð og mynd. Hán söng eins og engill og er óhætt að segja að sýningin hafi togað í hjartastrengina.

Í kjölfar Welcome Home var skipt um gír í Þjóðleikhúskjallaranum og við tók mikið glens og gaman. Íslenski spunahópurinn Eldklárar og eftirsóttar kom dansandi inn á svið og uppskar hlátrasköll þegar hann tilkynnti að lokinni nokkurra mínútna danssenu að atriðið væri algjörlega impróvíserað. Spunahópurinn samanstendur einungis af kvenkyns leikkonum og grínistum og fengu þær allar að skína á sviðinu. Þá var farið um víðan völl í spunanum og var það gert nokkuð vel, meðal annars fengu áhorfendur að kynnast listadívunni Sheilu sem hélt að hún væri söngkonan Shakira og hinum aumkunarverða Steward Steward Steward sem haldinn var mömmuþráhyggju (e. mommy issues). Hópurinn lék þannig á als oddi og er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið fín skemmtun.

Það sama má segja um síðustu sýningu kvöldsins sem ég fór á í kjallara skemmtistaðarins Dubliner. Þar tróð hin norsk-breska Pernille Haaland upp með snjöllu uppistandi sem innihélt mátulegt magn af sjálfsniðurrifi og sniðugum athugasemdum. Sumir brandararnir virtust reyndar sérsniðnir að bresku samhengi og lentu ekki alveg nógu vel hjá íslenskum áhorfendum. Allir virtust þó skemmta sér vel og er óhætt að mæla með uppistandinu.

Á jaðarhátíðum á borð við Reykjavík Fringe gefst áhorfendum færi á að sjá eitthvað öðruvísi og kannski svolítið tilraunakennt og hrátt, en það er einmitt sjarminn við þær. Það er af mörgu að taka á Reykjavík Fringe í ár enda dagskráin fjölbreytt að vanda og mörg tækifæri til að láta koma sér til að hlæja eða upplifa eitthvað óvænt. Á meðal fleiri viðburða sem ég er spennt að sjá er til dæmis hryllingsuppistand Elf Lyons, en hún hefur getið sér gott orð í Bretlandi. Það sem stendur upp úr hingað til er sköpunargleðin, litríkur áhorfendaskarinn og einlægur metnaður listamannanna sem koma fram í ár.

Reykjavik Fringe hófst 17. júní og lýkur annað kvöld. Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á vefnum rvkfringe.is.

Höf.: Snædís Björnsdóttir