2024 Landslið kvenna í handbolta 60 árum eftir Norðurlandameistaratitilinn á Laugardalsvellinum í gær. Efri röð f.v.: Pétur Bjarnason þjálfari, Sigrún Ingólfsdóttir, Hrefna Pétursdóttir, Gréta Hjálmarsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Jónína Jónsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Sigurður Bjarnason landsliðsnefndarmaður. Fremst f.v.: Sylvía Hafsteinsdóttir, Sigurlína Björgvinsdóttir, Sigríður Kjartansdóttir og Helga Emilsdóttir.
2024 Landslið kvenna í handbolta 60 árum eftir Norðurlandameistaratitilinn á Laugardalsvellinum í gær. Efri röð f.v.: Pétur Bjarnason þjálfari, Sigrún Ingólfsdóttir, Hrefna Pétursdóttir, Gréta Hjálmarsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Jónína Jónsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Sigurður Bjarnason landsliðsnefndarmaður. Fremst f.v.: Sylvía Hafsteinsdóttir, Sigurlína Björgvinsdóttir, Sigríður Kjartansdóttir og Helga Emilsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það eru 60 ár liðin frá því kvennalandsliðið varð Norðurlandameistari kvenna í handbolta,“ segir Einar Bollason, einn af skipuleggjendum afmælis þessa frækna sigurs liðsins, sem haldið var upp á í gær á Laugardalsvelli og í Fjósinu í Valsheimilinu á Hlíðarenda. „Þetta er einn merkasti atburður í sögu handbolta á Íslandi, og á úrslitadaginn þegar stelpurnar léku gegn Noregi voru yfir 4.000 manns í stúkunni sem var einn mesti fjöldi áhorfenda á leik fram að þessu.“

Einar er kvæntur Sigrúnu Ingólfsdóttur sem var í liðinu, þá 16 ára gömul. „Við fórum vinirnir á hvern einasta leik, því þetta var svo rosalega spennandi. Í leiknum gegn Noregi ætlaði allt að ganga af göflunum, en allt small þetta saman og stemmningin var ólýsanleg,“ segir Einar sem bætir við að liðið hafi staðið sig ótrúlega vel og að öðrum ólöstuðum hafi Sigríður Sigurðardóttir fyrirliði verið besta manneskja liðsins. „Það er óhætt að fullyrða það, enda var hún kosin Íþróttamaður ársins þetta ár.“

Sváfu í Fjósinu

Sigríður Sigurðardóttir fyrirliði, sem var alltaf kölluð Sigga Sig., segir að samheldnin og andinn í liðinu hafi verið einstakur. „Þetta var alveg stórkostlegt lið og alveg yndislegur hópur.“ Sigga segir að fjórum árum fyrr hafi íslenska liðið fengið silfrið á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð og þá hafi ýmislegt breyst. „Þá fór HSÍ að láta okkur æfa uppi á Keflavíkurflugvelli í stórum sal og gerði allt fyrir okkur, því við þóttum svo efnilegar,“ segir hún og hlær.

Hún segir að eftir silfrið í Svíþjóð 1960 hafi liðið yngst og þær elstu í liðinu hætt. „Þá komu FH-stelpurnar inn og einnig þrjár 16 ára, þær Sigrún Ingólfsdóttir, Sigrún Guðmundsdóttir og Díana Óskarsdóttir. Í Svíþjóð var ég barnið í liðinu en 1964 var ég fyrirliðinn.“

Pétur Bjarnason var þjálfari landsliðsins og Sigga segir hann hafa unnið mjög vel með liðinu. Hún segir hópinn hafa kynnst mjög vel á æfingum yfir veturinn og alltaf þegar leikir voru mættu þær snemma með sinn svefnpoka og sváfu í Fjósinu í Hlíðarenda, þar sem veislan var haldin í gær. „Við höfum alltaf haldið sambandi í gegnum tíðina og það er alltaf jafn gaman þegar við hittumst.“

Áhugi á handbolta jókst mikið

Sigrún Ingólfsdóttir segir að hún fái enn tár í augun þegar hún hugsar um þessa tíma og tilfinninguna að hafa unnið þennan stóra sigur fyrir Ísland. „Það er ólýsanlegt hversu stoltar við vorum allar eftir sigurinn. Við vorum dætur Íslands og fulltrúar landsins,“ segir hún og bætir við að áhuginn á handbolta kvenna hafi aukist gífurlega hjá ungum stelpum í kjölfarið.

Sigrún segir þrjá liðsmenn hafa haldið í sumarlandið, systurnar Ásu og Svönu Jörgensdætur og Rut Guðmundsdóttur, sem var aðalmarkmaður liðsins. „Við vorum allar hinar á vellinum í gær, nema Díana Óskarsdóttir, en hún býr í Oregon í Bandaríkjunum.“

Hefur skrásett söguna

Jónína Jónsdóttir hefur haldið utan um allt myndefni og hittinga hjá liðinu í 60 ár og sett saman nokkrar bækur fyrir hópinn. „Ég tek alltaf myndir þegar við hittumst og svo hef ég safnað úrklippum og líka keypt myndir,“ segir Jónína en í veislunni í gær afhenti hún öllum bók, sem hún segir vera þá síðustu sem hún geri.

Hver samverustund er dýrmæt hjá hópnum sem hittist nokkuð reglulega. „Við tölum hærra, við hlæjum hærra og svo er alltaf ótrúleg móða á öllum speglum svo við höldum alltaf að við séum ungar og sléttar stelpur þegar við hittumst,“ segir hún og skellihlær.

30. júlí 1964

Taugatrekkjandi mínútur

Kvennalandsliðið í handbolta vann Svía í fyrsta leik Norðurlandamótsins í Reykjavík, gerði jafntefli við Dani og vann Finna. Leikurinn gegn Noregi var æsispennandi og Norðmenn með yfirhöndina í fyrri hálfleik en íslenska liðið náði að jafna 5-5 í hálfleik.

Strax í seinni hálfleik náðu Norðmenn yfirhöndinni með tveimur mörkum. Sigrún Guðmundsdóttir var send inn og skoraði mark og þá breyttist staðan og fyrirliðinn Sigríður Sigurðardóttir jafnaði leikinn með vítaskoti. Á síðustu 5 mínútunum skoraði Sigrún annað mark og á lokamínútunni þrumaði Sigríður boltanum í netið, 9-7. Norðurlandameistaratitillinn var í höfn.