Bendegúz Bolla í leik með Ungverjum gegn Þjóðverjum í vikunni.
Bendegúz Bolla í leik með Ungverjum gegn Þjóðverjum í vikunni. — AFP/Tobias Schwarz
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kumpánlegasta skírnarnafnið á EM er án efa Okay.

Óvígur her manna er nú saman kominn í Þýskalandi til að berast á banaspjót og iðka knattlistir frammi fyrir álfunni og ábyggilega heiminum meira og minna öllum. Allir bera þeir að vonum nafn sem sum hver eru tilkomumeiri eða á einhvern hátt skondnari en önnur, alltént þaðan sem við stöndum hér við nyrstu voga. Hvað segið þið um að renna aðeins yfir nöfn leikmanna sem skera sig einna mest úr á EM?

Ungverjar eru ekki í hópi þeirra liða sem líklegust eru talin til afreka í Þýskalandi en óhætt er að krýna þá nafnameistara mótsins. Meira en þar nefnilega um áhugaverð nöfn en í öðrum liðum.

Fyrstan skal nefna Attila Fiola, sem ætti auðvitað miklu frekar að vera heimsfrægt tónskáld, helst frá rómantíska tímanum, en óbreyttur hægri-bakvörður. Maður sér hann fyrir sér skrifa tilkomumikil verk sem oftar en ekki yrðu óður til mannsandans og jafnvel sjálfs sköpunarverksins.

Liðsfélagi hans Bendegúz Bolla, sem leikur einmitt sömu stöðu á vellinum, er kannski ekki alveg þar en skondið er nafn hans eigi að síður. Bendegúz eitt og sér er alveg magnað og ekki er verra að bæta Bollunni við. Ætli Bjössi okkar Bolla sé frændi hans? Nú, eða jafnvel faðir?

Dániel Gazdag er mun dramatískara nafn og alls ekki eins geðfellt en sker sig þó sannarlega úr. Sá ágæti maður er miðvellingur í ungverska hópnum.

Loks er það félagi þeirra Kata en alltaf má gleðjast þegar karlar bera það góða nafn. Sá leikur einnig á miðjunni og var raunar skírður Mihály, Kata er ættarnafnið. Sumsé heil fjölskylda af Kötum.

Sosa er síst verra ættarnafn en Kata en það ber vinstri-bakvörður í liði Króatíu, sem vatni var ausinn og nefndur Borna. Króatar vinnar mikið með šić og ić-endingar, eins og við þekkjum, og því fylgir nafninu Borna Sosa ferskur andblær. Og kemur vitaskuld sterkt inn í grillsumarið.

Af mörgum góðum nöfnum í liði Ítalíu þá ber Enrico Chiesa af. Ég meina, Chiesa merkir kirkja. Hinrik Kirkja, þurfum við eitthvað að ræða þetta frekar?

Nafnið sem ég er persónulega smeykastur við á EM er Elhan Kastrati, sem er albanskur markvörður. Nú kann ég ekki stakt orð í albönsku en veit á hinn bóginn hvað orðið „castrate“ merkir á bæði ensku og latínu. Af því hlýtur nafnið að spretta. Erum við þá að tala um Ella geldara? Guð forði mönnum frá því að skora hjá honum.

Frændur okkar Danir búa ekki að mörgum skrýtnum nöfnum; ætli megi ekki einna helst taka framherjann Jonas Wind þar út. Skemmtilegra væri þó að hann legði stund á handbolta en fótbolta. Ég heyri Einar Örn Jónsson strax segja, af ákefð: „Núna leysir Wind inn á línuna.“

Þeir sem ganga út frá því að íslenska nafnið Þórður fari illa í munni í útlöndum ættu að hugsa sig betur um. Alla vega þegar þeir sjá nafnið á serbneska markverðinum Ðorðe Petrović. Nákvæmlega sama nafnið.

Ýmsir hafa grátið fjarveru enska sjarmörsins Jacks Grealish, ekki síst áhugafólk um fallega fótleggi. Austurríkismenn stigu inn í það tómarúm með því að hafa í sínu liði Florian nokkurn Grillitsch. Nær verður varla komist, alltént nafnalega. Ég skal ekki segja um fótleggina.

X í lokin spillir aldrei fyrir

Fyrst við erum komin í hljómmikil nöfn er engin leið að skilja út undan slóvaska framherjann Ivan Schranz. Valið á honum á þennan lista þarf ekki að rökstyðja. Sama má segja um belgíska miðvellinginn Aster Vranckx. Það spillir aldrei fyrir að henda inn eins og einu góðu x-i í endann.

Frændur Belga, Hollendingar, bjóða gjarnan upp á skemmtileg nöfn og að þessu sinni ber Lutsharel Geertruida klárlega af. Gæti verið annað tónskáld! hrópið þú nú upp yfir ykkur. Já, ég get sannarlega tekið undir það. En erum við samt ekki að tala um nútímatónskáld og ofboðslega ómstríð og óreiðukennd verk?

Einmitt, ég hélt það.

Dennis Man er líklega karlmannlegasta nafn mótsins. Sá er rúmenskur útherji. Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað Man þýðir á því ágæta tungumáli en sé fyrir mér neyðarfund í Efstaleitinu, þar sem málfarsráðunautur hússins hefur brýnt fyrir lýsendum að ætli þeir að bregða á leik og íslenska nafnið þá skuli það vera Manneskja en ekki Maður. Og hver veit svo nema Man verði maður mótsins, ég meina manneskja mótsins.

Kumpánlegasta skírnarnafnið á EM er án efa Okay. Sá ber eftirnafnið Yokuslu og er Tyrki. Sitjandi miðjumaður, eins og það heitir á fagmáli.

Georgíumenn eiga marga menn með þróttmiklum nöfnum, eins og Solomon Kvirkvelia og Nika Kvekveskiri. Rómantískari nöfn eru fágætari en eitt slíkt ber miðvörðurinn Lasha Dvali. Sá gæti alveg eins verið frægur listmálari, ekki satt? Taki hann sóknarmenn andstæðinganna í nefið má hæglega tala um í leikslok að þeir séu að vakna af löngum Dvala.

Einn leikmaður á mótinu ber nafnið Lingr sem hljómar svolítið íslenskt. Eins og menn hefðu ritað nafnið Lingur á miðöldum. Sá er Tékki og þetta er raunar ættarnafn hans. Skírnarnafnið er Ondrej og kann sá ágæti maður best við sig framarlega á miðjunni. Ætli það sé þá ekki standandi miðjumaður?

Með Lingr í liði eru tveir menn sem bera nafnið Jurásek, David og Matej. Áhugafólk um risaeðlur fylgist ábyggilega grannt með þeim.

Svo eru sum nöfn auðvitað bara slys, ég meina Slisz, eins og vinir okkar Pólverjar skrifa það. Við erum að tala um hann Bartosz okkar, öflugan miðvelling.

Svona mætti lengi telja.