Það er engu líkara en að KSE hafi gleymt að panta morgunmat og kvöldverð með hótelinu og að aðeins snúðar séu bornir fram með kaffinu.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Hápunktur Evrópumeistaramóts karla í knattspyrnu til þessa var án nokkurs vafa þegar hinir tápmiklu og tilfinningaríku leikmenn ítalska landsliðsins sungu þjóðsönginn sinn fyrir leikinn gegn Spáni á fimmtudagskvöldið. Þar var hver vöðvi í líkamanum virkjaður og sönn ástríða og ættjarðarást skein úr hverju andliti. Sjálfsagt hefur sama verið upp á teningnum fyrir Albaníu-leikinn en ég missti því miður af honum. Svona hraustlega hefur ekki verið sungið í mín eyru síðan Öskurkórinn frægi hóf upp raust sína við opnun nýlistasafnsins Kiasma í Helsinki fyrir um aldarfjórðungi. Þeir ágætu menn drápu hér um bil fína frú sem var svo seinheppin að snúa baki í þá þegar giggið byrjaði; hún hrökk að vonum í kút og hanastélsglasið hennar leystist upp í frumeindir sínar á gólfinu.

En það er allt önnur saga.

Eins fallegt og þetta var í einfaldleika sínum hjá Ítölunum þá var það líklega ekki sérlega klókt því svo mikil orka fór í sönginn að mannskapurinn var eins og undin tuska þegar rimman hófst og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Spánverja. Sjálfir steinþögðu þeir nefnilega meðan þeirra þjóðsöngur var leikinn eins og þeir stæðu í fyrsta skipti á ævinni andspænis dýrðinni í Ásbyrgi. En sprækt er það, spænska liðið, og til alls líklegt á mótinu. Lítið um stórstjörnur, fyrir utan hinn ógurlega kappa Rodrigo, en Spánverjar leika sannarlega sem lið. Það undirstrikar svo sjálfstraustið að tefla fram 16 ára pilti á hægri-vængnum, Lamine Yamal.

Þjóðverjar leika líka sem lið. Eftir að hafa verið í sauðargæru undanfarin tvö ár spratt úlfurinn loksins fram í fyrsta leik mótsins og hefur reykspólað fram hjá andstæðingum sínum til þessa. Mikil leikgleði hefur brotist út í herbúðum Þjóðverja sem kveikir ábyggilega bál út um stræti og torg.

Englendingar hafa á hinn bóginn komið á óvart á EM fyrir slakan, hugmyndasnauðan, andlausan og kraftlítinn leik (er ég að gleyma einhverju lýsingarorði?). Það er engu líkara en að KSE hafi gleymt að panta morgunmat og kvöldverð með hótelinu og að aðeins snúðar séu bornir fram með kaffinu. Sparkspekingar, bæði heima fyrir og hér í fásinninu, hafa að vonum rifið liðið og þjálfarann, Gareth Southgate, í sig og sent menn gegnum þeytivinduna. Af þeirri umræðu að dæma mætti ætla að England væri þegar úr leik á EM en svo er ekki; liðið er þvert á móti efst í sínum riðli, með fjögur stig eftir tvo leiki og mikið má ganga á í lokaumferð riðilsins til að liðið komist ekki áfram á næsta stig mótsins. Við það má alltént hugga sig. En Guð almáttugur, Jesús kristur og Múhameð spámaður hjálpi ensku piltunum þegar þeir tapa leik!