Frakkar Mbappé og Maignan syngja.
Frakkar Mbappé og Maignan syngja. — AFP/Kenzo Tribouillard
Stórmót í íþróttum, eins og EM í fótbolta þessa dagana, eru um leið stærsti alþjóðlegi vettvangur þjóðsöngva. Hvar annars staðar gætum við hlýtt á þjóðsöngva Georgíu, Slóvakíu og Portúgals? Þessa dagana eru 24 slíkir leiknir með nokkurra daga millibili og þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir

Víðir Sigurðsson

Stórmót í íþróttum, eins og EM í fótbolta þessa dagana, eru um leið stærsti alþjóðlegi vettvangur þjóðsöngva. Hvar annars staðar gætum við hlýtt á þjóðsöngva Georgíu, Slóvakíu og Portúgals? Þessa dagana eru 24 slíkir leiknir með nokkurra daga millibili og þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Sá spænski er sérstakur, hann virðist vera án orða, í það minnsta opnar enginn leikmaður munninn en áhorfendur tralla undir. Sá franski er einn sá kraftmesti og Englendingar eiga heiður skilinn fyrir að þeirra útgáfa af „Eldgömlu Ísafold“ sé stutt og snörp.

Ég nefndi einhvern tíma við franskan kollega á leik Íslands og Frakklands að þeirra þjóðsöngur væri flottur og hrifi greinilega alla með sér. „Já, en það er fullmikið ofbeldi í honum fyrir minn smekk,“ svaraði sá franski. Hann hreifst hins vegar mjög þegar „Ísland er land þitt“ hljómaði á vellinum nokkru fyrir leik. „Vá, snilldarþjóðsöngur sem þið eruð með. Þótt ég skilji ekki textann skynja ég hvað hann er sterkur,“ sagði Frakkinn. Hann varð fyrir vonbrigðum þegar ég sagði honum að þetta væri bara íslenskt dægurlag en mín skoðun væri reyndar sú að það væri löngu tímabært að það kæmi í staðinn fyrir sálminn um eilífðar smáblómið sem deyr.

Höf.: Víðir Sigurðsson