Grásleppa Frjálsar veiðar á grásleppu eru aflagðar í frumvarpi.
Grásleppa Frjálsar veiðar á grásleppu eru aflagðar í frumvarpi. — Morgunblaðið/Eggert
Frumvarp til laga um kvótasetningu á grásleppu er eitt þeirra þingmála sem samkomulag hefur náðst um að afgreitt verði sem lög frá Alþingi áður en til þingfrestunar kemur. Líklegt er talið að þingið fari í sumarleyfi í kvöld, laugardagskvöld, ellegar snemma í næstu viku

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Frumvarp til laga um kvótasetningu á grásleppu er eitt þeirra þingmála sem samkomulag hefur náðst um að afgreitt verði sem lög frá Alþingi áður en til þingfrestunar kemur. Líklegt er talið að þingið fari í sumarleyfi í kvöld, laugardagskvöld, ellegar snemma í næstu viku. Óvíst var um tíma hvort málið næði fram að ganga, en einhverjir þingmenn Vinstri grænna voru andvígir málinu, enda þótt Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks þeirra, væri meðal flutningsmanna, en hann tók við sæti Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, nú matvælaráðherra, í nefndinni.

Megintilgangur frumvarpsins er að auka fyrirsjáanleika við grásleppuveiðar og að tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar, að því er fram kemur í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis sem flytur frumvarpið. Segir þar að á undanförnum árum hafi veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir þær sakir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg þeim sem stunda veiðarnar, en hingað til hefur stjórn veiða á grásleppu verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði staðbundin veiðisvæði grásleppu. Þar er mælt fyrir um að aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin með tilliti til veiðireynslu, en framsal aflahlutdeildar í grásleppu og flutningur aflamarks á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimil nema í undantekningartilvikum, þegar náttúrulegar aðstæður breytast verulega.

Í frumvarpinu verður ráðherra heimilað að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem halda til grásleppuveiða í fyrsta skipti, en það er gert til að tryggja nýliðun í greininni.

Meirihluti atvinnuveganefndar segir að vegna sérstöðu grásleppuveiða sé mikilvægt að aflétta veiðiskyldu sem er í lögum um stjórn fiskveiða og er lagt til að ráðherra verði heimilt að gjöra svo í reglugerð, þegar markaðsaðstæður krefji. Markaðir séu afar viðkvæmir og miklar sveiflur í verði og veiðum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur mjög verið þrýst á um lögfestingu frumvarpsins af hálfu grásleppuveiðimanna, ekki síst í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, sem leggja áherslu á fyrirsjáanleika í greininni. Enda þótt grásleppuveiðar hafi verið frjálsar hingað til, þá fækki þeim sífellt sem þessar veiðar stunda, þar sem fyrirsjáanleika skorti í grásleppuveiðum. Þá eigi hið sama eigi við um vinnsluna sem gjarnan eigi erfitt með að vinna úr grásleppuhrognum svo vel sé, þegar mikið magn kemur inn til vinnslu á skömmum tíma.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson