— Morgunblaðið//Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hitti Jón Kalman Stefánsson þegar hann kom til Ítalíu til að kynna Himnaríki og helvíti sem hafði verið þýdd á ítölsku. Ég las þá skáldsögu og ljóðrænan í henni varð til þess að ég fór að hugsa um Ísland.

Roberto Luigi Pagani er ítalskur fræðimaður sem hefur kennt við Háskóla Íslands, þar á meðal handritafræði, ítalska málfræði og bókmenntir. Hann lauk BA-gráðu í skandinavískum fræðum frá Háskólanum í Mílanó árið 2013 og lagði einnig stund á skandínavísk fræði við Háskólann í Edinborg árin 2012-2013. Árið 2015 lauk hann MA-gráðu í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands þar sem hann er núna doktorsnemi í íslenskum málvísindum en það verkefni er á lokastigi.

Hann hefur búið hér á landi allt frá því hann kom hingað til náms og talar lýtalausa íslensku. Ekki þarf að tala lengi við hann til að finna hversu ástríðufullan áhuga hann hefur á íslenskri menningu og hann er iðinn við að kynna hana fyrir Ítölum. Hann á sæti í stjórn Ítalsk-íslenska viðskiptaráðsins og hefur verið í stjórn samtaka Ítala á Íslandi. Hann hefur skrifað greinar í ítölsk dagblöð um málefni tengd Íslandi og er tíður gestur á ítölskum sjónvarpsstöðvum þar sem hann ræðir þau mál. Árið 2022 kom út eftir hann bókin Ítali á Íslandi – Saga og sögur af Íslandi sem hefur selst í rúmlega 8.000 eintökum á Ítalíu. Hann skrifaði einnig ferðahandbók um Ísland fyrir National Geographic sem kom fyrst út á ítölsku en var síðan þýdd á ensku fyrir alþjóðlegan markað. Eftir hann hafa komið út þýðingar á Vínlandssögum, Gunnars sögu Keldugnúpsfífls og Kjalnesingasögu.

Innan skamms koma út á ítölsku hjá Mondadori, einu virtasta bókaforlagi Ítalíu, þýðingar hans á þjóðsögum úr safni Jóns Árnasonar. Bókin er stór að sniðum, rúmlega 500 blaðsíður og í henni eru rúmlega tvö hundruð þjóðsögur. Þar eru einnig ítarlegar skýringar, kort, myndir, leiðbeiningar um framburð, ritaskrá og fleira. Bókin mun vera eitt stærsta safn af íslenskum þjóðsögum sem þýddar hafa verið á erlend tungumál.

Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi alþingismaður ritar inngangsorð en þjóðsögurnar eru valdar úr útgáfu Árna Böðvarssonar og Bjarna Vilhjálmssonar, föður Vilhjálms. „Vilhjálmur er mikill þjóðsagnavinur og sonur Bjarna Vilhjálmssonar sem var annar tveggja fræðimanna sem gáfu út heildarútgáfu af þjóðsögum Jóns Árnasonar. Mér fannst mikilvægt að hafa eitthvað séríslenskt í þessari bók og að þar kæmi fram að einhver Íslendingur hefði tekið þátt í verkefninu,“ segir Roberto.

Skilningur á fortíð að tapast

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að þýða íslenskar þjóðsögur á ítölsku segir Roberto: „Í fyrsta lagi eru þær mjög skemmtilegar og mikilvægur þjóðararfur Íslendinga, en það sem vekur persónulega mestan áhuga minn eru öll smáatriðin sem þar má finna og snerta menningu og sögu Íslands. Í þessum sögum er viss alfræði. Í þessu úrvali mínu er mikið af sögum þar sem ýmsar sögulegar persónur koma fyrir, eins og Magnús Stephensen, Jón Vídalín biskup og fleiri. Í skýringum geri ég síðan grein fyrir þessum persónum. Í bókinni eru inngangsgreinar þar sem rætt er um hugtök eins og álfa, tröll, drauga, galdur og galdramenn og ég fjalla um þróun þessara hugtaka á ýmsum tímum. Þegar þessi orð birtust fyrst í fornheimildum, til dæmis í fornsögunum, þá þýddi álfur og draugur ekki það sama og í nútímanum. Mér finnst mjög mikilvægt að halda þessu til haga því það er þróun í samfélaginu – ég sé hana líka á Ítalíu – sem mér finnst persónulega ekki mjög jákvæð, sem er að túristar koma hingað með alls kyns ranghugmyndir og Íslendingar eru farnir að taka þessar hugmyndir upp. Alls konar ranghugmyndir um víkinga eru til dæmis víða að festa sig í sessi, líka hjá Íslendingum. Þannig að skilningur á fortíðinni er dálítið að tapast, nema hjá fræðimönnum. Þetta finnst mér synd.

Mér finnst mikilvægt að takast á við ranghugmyndir og falsanir. Í útlöndum er mikið talað um álfatrú Íslendinga en stór hluti af þjóðtrúnni snýst ekki um álfa heldur drauga og samkvæmt könnunum trúa Íslendingar fremur á drauga en álfa. Þróunin er hins vegar þannig að fleiri Íslendingar segjast trúa á álfa en áður. Lítil hús sjást víða í görðum á Íslandi og fólk er farið að trúa að þetta séu álfahús sem er bara bull. Ég hef heyrt íslenska leiðsögumenn benda á þessi hús og segja við erlenda ferðamenn: Þarna búa álfar. Þessi hús eru bara skraut en það þykir ekki nógu skemmtilegt að segja ferðamönnum það. Íslenska menningin er alveg nógu falleg eins og hún er. Það þarf ekki að breyta henni.“

Roberto var í heilt ár, í fullu starfi, að þýða sögurnar. „Það er miklu erfiðara að þýða þessar þjóðsögur frá 19. öld en fornsögur. Þetta hljómar kannski einkennilega en það er þannig. Ég er miðaldafræðingur og hef gefið út þýðingar á fornsögum. Við höfum meiri þekkingu og skilning á því hvernig íslenskan var á 13. og 14. öld og vitum allt um það hvernig hún er í nútímanum en við vitum alls ekki jafn mikið um tímabilið 1450-1900. Orð voru til dæmis notuð á mismunandi hátt á einhverjum landsvæðum og orðatiltæki sem þá tíðkuðust eru ekki lengur í notkun. Sum orð eru svo skrýtin að enginn Íslendingur myndi skilja þau fullkomlega og skýringar á þeim finnast ekki í orðabókum. Ég þurfti oft að leita til samkennara eða kærustunnar og spyrja um merkingu orða. Ég fékk venjulega svarið: Ég held að það gæti verið þetta en ég er ekki viss. Stundum þurfti ég að giska. Þetta var erfitt og lýjandi en líka mjög skemmtilegt. Aldrei leiðinlegt.“

Langaði ekki aftur til Ítalíu

Roberto ólst upp í Cremona á Langbarðalandi, ekki langt frá Mílanó. Hann las fyrst íslenskar þjóðsögur í barnaskóla. „Á Ítalíu kom út úrval þjóðsagna víðs vegar að úr heiminum. Þar voru nokkrar sögur úr safni Jóns Árnasonar og ég las þær í grunnskóla. Ég var ekkert að hugsa um hvaðan þær væru, þetta voru bara sögur sem ég las í skólanum, en mér fannst þær mjög skemmtilegar. Mörgum árum seinna þegar ég var á Íslandi las ég nokkrar þjóðsögur og hugsaði: Þetta las ég í grunnskóla. Ég man að ein sagan var um Eirík prest í Vogsósum, sem var ekki nefndur á nafn í ítölsku þýðingunni, þar var bara talað um prest. Önnur var um álfakonu sem var í barnsnauð og unga stúlku sem aðstoðaði hana.“

Spurður hvort hann eigi sér uppáhalds íslenska þjóðsögu segir hann: „Djákninn á Myrká er þjóðsaga sem allir í heiminum ættu að lesa. Mér þykja síðan margar galdrasögur af prestum mjög skemmtilegar.“

Hann segir hljómgrunn á Ítalíu fyrir íslenskum þjóðsögum og nefnir sem dæmi vinsældir bókarinnar Þjóðsögur við þjóðveginn eftir Jón R. Hjálmarsson, sem þýdd var á ítölsku. „Íslenskar bókmenntir njóta almennt vinsælda á Ítalíu og alveg sérstaklega bækur Jóns Kalmans, Halldórs Laxness og Ragnars Jónassonar. Ég frétti að Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson hefði selst í rúmlega 20 þúsund eintökum. Meðalsala á bók á Ítalíu er rúmlega 2.000 eintök og 5.000 telst metsala, þannig að 20.000 er einstakur árangur.“

Spurður hvenær Íslandsáhugi hans hafi fyrst kviknað fyrir alvöru segir hann: „Ég held að þjóðsögurnar sem ég las í grunnskólanum hafi verið einhvers konar kveikja en það var ekki fyrr en ég ákvað að læra skandínavísk fræði í háskólanum í Mílanó að ég fór í rauninni að hugsa um Ísland. Þar þurfti ég á fyrsta ári að lesa nokkrar fornsögur og ég lærði um Snorra-Eddu og eddukvæði. Mér fannst ótrúlega magnað hversu mikið var skrifað á Íslandi á þessum tíma, sérstaklega miðað við hversu fámenn þjóðin var, ekki fleiri en 50.000 Íslendingar á 13. og 14. öld, en samt eru bókmenntir þessa tíma jafn þróaðar og hjá stórþjóðum í Evrópu. Ég varð aðdáandi íslenskrar menningar.

Ég hitti Jón Kalman Stefánsson þegar hann kom til Ítalíu til að kynna Himnaríki og helvíti sem hafði verið þýdd á ítölsku. Ég las þá skáldsögu og ljóðrænan í henni varð til þess að ég fór að hugsa um Ísland. Mig langaði mjög mikið að koma hingað og fræðast meira um landið. Ég fór í nám á Íslandi og hélt að ég yrði þar einungis tímabundið. Ég lauk meistaragráðu í íslenskum miðaldafræðum og meistararitgerð mín fjallar um mál og skrift Flateyjarbókar. Þegar ég hafði lokið námi langaði mig ekkert til að fara aftur til Ítalíu, þá sótti ég um styrk fyrir doktorsnáminu.“

Óþolandi að vera of formlegur

Hann segir mikla kosti við íslenskt samfélag. „Ég passa betur inn í þetta samfélag en samfélagið á Ítalíu. Mér finnst óþolandi að þurfa að vera of formlegur. Ítalskt samfélag er mjög formlegt og mér finnst til dæmis mjög þreytandi að þurfa að þéra fólk. Ég er bara þannig gerður að mér finnst virðing ekki snúast um tungumál og formlegheit. Samfélagið hér er minna, það er mikill mannfjöldi á Ítalíu sem getur verið þreytandi því lætin verða oft mikil. Ég held að það sé líka borin meiri virðing fyrir hugvísindum á Íslandi en á Ítalíu. Ég upplifi það þannig að Íslendingum þyki mikilvægt að varðveita bókmenntaarfinn. Ég er samt þakklátur fyrir að vera alinn upp á Ítalíu því menntakerfið þar er mjög gott og gaf mér tækifæri til að þróast bæði sem fræðimaður og manneskja, fyrir utan það að menningin er einstaklega forn, fjölbreytt og áhrifamikil.

Mér finnst mikilvægt að nota hæfni og þekkingu sem ég hef verið að afla mér til að leyfa Ítölum að kynnast menningarheimi Íslendinga, því það að kynnast annarri menningu er gott tækifæri til að læra að þekkja sjálfan sig betur. Það er margt sem Ítalir gætu lært af Íslendingum, eins og til dæmis að dæma ekki af útlitinu. Margir þeirra halda að land eins og Ísland geti varla verið land menningar og með áhugaverða og fjölbreytta sögu, því hér vantar merkilegar fornminjar. Það er alltaf gaman að sjá hvað Ítalir verða orðlausir þegar ég fer að segja þeim frá til dæmis forntextum, kirkju- og klausturmenningunni á miðöldum, siðaskiptum, Tyrkjaráninu, Eldklerknum, Magnúsi Stephensen og útgáfum hans, þjóðsögum og fleiru.“

Íslenskan meikar sens

Íslenskan er erfitt tungumál en Roberto hefur náð gríðarlega góðum tökum á henni. Spurður hvort það hafi verið erfitt að læra hana segir hann: „Já og nei. Beygingar eru erfiðar og flóknar en það er ýmislegt annað sem er erfitt í öðrum tungumálum. Fyrir mig sem Ítala er hljóðkerfi íslenskunnar ekki sérstaklega erfitt og svo eru þar ekki mörg tökuorð úr latínu og grísku sem gera tungumál oft erfið fyrir þá sem tala ekki evrópskt tungumál. Þegar maður er búinn að ná grunninum í íslenskunni þá er mjög einfalt að skilja flókin orð og hugtök. Þetta er tungumál sem „meikar sens“ að miklu leyti, miklu meira en enska.“

Roberto á íslenska kærustu, Láru Sigurðardóttur. „Lára er ítalskt nafn svo þetta er skemmtileg tilviljun,“ segir Roberto. „Hún ólst upp á Kirkjubæjarklaustri á Síðu en tengdaforeldrarnir eiga þar bóndabæ. Mér finnst mjög skemmtilegt að fara þangað og hjálpa til, taka til dæmis þátt í sauðburði og fara í réttir. Sauðfjárbúskapur er annar mikilvægur þáttur í íslenskri menningu, sem er kannski aðeins að tapast. Líf bænda getur verið erfitt en er einnig mjög gefandi. Mér finnst spennandi að geta verið partur af þessum hefðbundna íslenska heimi.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir