Alþingi Mögulegt er talið að þingfundum verði frestað í kvöld.
Alþingi Mögulegt er talið að þingfundum verði frestað í kvöld. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það má segja að búið sé að ná utan um ákveðinn heildarramma varðandi afgreiðslu mála á Alþingi, en það er enn þá töluverð vinna eftir áður en unnt verður að ljúka þingi,“ sagði Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið í gær, spurður um stöðu mála á þingi

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það má segja að búið sé að ná utan um ákveðinn heildarramma varðandi afgreiðslu mála á Alþingi, en það er enn þá töluverð vinna eftir áður en unnt verður að ljúka þingi,“ sagði Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið í gær, spurður um stöðu mála á þingi.

Spurningu um það hvenær hann sæi hilla undir þingfrestun sagði Birgir að lagt yrði mat á hvað raunhæft væri í því þegar líða tæki á daginn, en alls voru 37 mál á dagskrá Alþingis í gær.

„Við höfum miðað við að fræðilega væri hægt að ljúka þingstörfum annað kvöld [laugardagskvöld], en það gera sér allir grein fyrir því að það getur dregist fram yfir helgi,“ sagði hann og tók fram að unnið yrði áfram að framgangi mála svo lengi sem þyrfti.

Samkomulag hefur náðst á milli formanna þingflokka á Alþingi um hvaða mál munu fá brautargengi á þessu þingi, og sagðist Birgir gera ráð fyrir að þau væru um 60 talsins.

„Megnið af þeim málum sem verið hafa til meðferðar í nefndum þingsins undanfarið mun klárast, en ekki öll,“ segir hann.

Meðal mála sem enn eru í nefnd en gert er ráð fyrir að takist að ljúka er sameining nokkurra stofnana sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, en þar mun þó ekki vera búið að hnýta alla lausa enda.

Nokkur viðamikil þingmál munu ekki ná fram að ganga að þessu sinni og er frumvarp matvælaráðherra um lagareldi eitt þeirra, einnig vindorkumál frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og sóttvarnarlög frá heilbrigðisráðherra, svo nokkur frumvörp séu nefnd.

Meðal mála sem deildar meiningar hafa verið um innan stjórnarflokkanna er frumvarp til lögreglulaga, en þingmenn Vinstri-grænna hafa ítrekað gert fyrirvara við það. Það mál virðist hins vegar vera á leiðinni í gegnum þingið, þótt tvísýnt hafi verið um sinn.