Á ystu nöf Engu er líkara en vegurinn sé að molna undan gangamunna Strákaganga Fljótamegin. Hreyfingarnar eru af völdum stórra berghlaupa.
Á ystu nöf Engu er líkara en vegurinn sé að molna undan gangamunna Strákaganga Fljótamegin. Hreyfingarnar eru af völdum stórra berghlaupa. — Ljósmynd/Halldór Gunnar Hálfdánarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Halldór Gunnar Hálfdánarson og María Númadóttir þekkja Siglufjarðarveg við Almenninga mætavel en þau eru búsett á Molastöðum í Fljótum. Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum og María ekur um veginn til og frá vinnu og …

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Hjónin Halldór Gunnar Hálfdánarson og María Númadóttir þekkja Siglufjarðarveg við Almenninga mætavel en þau eru búsett á Molastöðum í Fljótum. Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum og María ekur um veginn til og frá vinnu og hefur gert undanfarin tíu ár en hún rekur bókhaldsskrifstofu á Siglufirði.

Töluverðar hreyfingar hafa átt sér stað í og við vegstæðið eins og fjallað hefur verið um og segir María í samtali við Morgunblaðið að þróunin hafi verið mjög hröð á undanförnum tveimur árum. Finnst henni nánast sem hún sjái breytingu á veginum daglega. „Ég upplifi aðeins meira óöryggi en ég gerði fyrir kannski fimm árum þegar ég sé þessar hröðu breytingar,“ segir hún. Hún lýsir ástandinu sem svo að vegurinn sé að molna undan gangamunna Strákaganga Fljótamegin og munninn sé í raun í lausu lofti. Segir hún að sprungur hafi myndast í og við veginn og af og til myndist misstórar holur og skörð í hann.

Vonast til að lenda ekki ofan í

Aðspurð segir hún að reglulega séu unnar viðgerðir á veginum en það sé ekki farið í slíkt fyrr en mjög djúpar holur og skörð séu komin í veginn. María segist hafa séð margar holur í veginum á undanförnum árum, þær minnstu á stærð við fótbolta en þær stærstu það stórar að ef hjól af fólksbíl lenti ofan í myndi skapast stórhætta. „Maður verður bara að keyra með hjólin hvort sínum megin við og vonast til að lenda ekki ofan í þeim,“ segir María og bætir við að jarðvegurinn undir veginum sé í raun farinn enda séu holurnar hyldjúpar og virðast frá veginum botnlausar.

Nálgast einn metra á ári

Eðli og orsakir þeirra hreyfinga sem eiga sér stað í og við vegstæði Siglufjarðarvegar við Almenninga hafa nokkuð verið rannsakaðar á undanförnum árum. Þrjú stór berghlaup hafa verið kortlögð á svæðinu; Hraunberghlaupið, Þúfnavallaberghlaupið og Tjarnardalaberghlaupið. Greiningar sýna að öll berghlaupin eru á hreyfingu og jarðlagarannsóknir benda til þess að þykkt berghlaupaset liggi að hluta til á fínkornóttu seti við núverandi strönd. Mestar eru hreyfingar í Hrauna- og Tjarnardalaberghlaupum þar sem þær nálgast einn metra á ári samkvæmt langtímamælingum Vegagerðarinnar.

Þetta kom fram í máli Þorsteins Sæmundssonar, aðjúnkts við Háskóla Íslands, Halldórs Geirssonar, dósents við Háskóla Íslands, og Hafdísar Jónsdóttur, sérfræðings á stoðdeild Vegagerðarinnar, á rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar síðasta haust.

Svæðið einkennist af miklu berghlaupi að meðalbreidd um 1.400 metrar og meðallengd um 1.550 metrar. Áætlað rúmmál er um 110 milljónir rúmmetra sem er líklega töluvert vanmat að mati sérfræðinganna. Mikil hreyfing er á berghlaupinu, aðallega við frambrún þess. Níu síritandi GNSS-mælistöðvar voru settar upp í ágúst 2022. Nokkrir aflögunaratburðir hafa mælst. Aflögunin fer hægt af stað, herðir síðan á sér, og hættir svo smám saman. Þessi aflögun hefur hingað til komið í kjölfar úrkomutímabila. Samanburður á eldri hreyfingum og veðurfari bendir til að flestir atburðir eiga sér stað í tengslum við úrkomu og leysingar.

Á árunum 2022 og 2023 áttu sér stað um sjö færslutímabil en mest færsla var í Tjarnardölum þar var mestur skriðuhraði um 3,5 sentímetrar yfir einn dag í nóvember 2022.

Aka frekar um Öxnadal

Að sögn Maríu stendur fólki í sveitinni ekki á sama og sumir treysti sér ekki til að keyra veginn. Dæmi séu um að fólk sem þarf að komast úr Fljótunum og inn á Siglufjörð kjósi frekar að keyra um þrjár klukkustundir um Öxnadalinn en þessa hálfrar klukkustundar löngu leið um veginn um Almenninga.

Höf.: Ólafur Pálsson