Fámennur hópur æstra einstaklinga getur ekki unað því að Bjarni Benediktsson sé forsætisráðherra landsins og hefur uppi öskur og læti.
Fámennur hópur æstra einstaklinga getur ekki unað því að Bjarni Benediktsson sé forsætisráðherra landsins og hefur uppi öskur og læti. — Morgunblaðið/Eggert
Mótmælendur hljóta að átta sig á því að þeir voru ekki fulltrúar þjóðarinnar á Austurvelli á 80 ára afmælishátíð lýðveldisins

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Fámennur hávaðahópur hefur tekið sér vald til að veitast með ópum og öskrum að forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, við hin ýmsu tilefni. Heift þessara einstaklinga virðist lítil takmörk sett.

Nýjasta uppákoman var við hátíðarstund á Austurvelli á 17. júní þar sem forsætisráðherra hélt ágæta ræðu og talaði meðal annars um mikilvægi frjálsra skoðanaskipta. Hann ætlast greinilega ekki til allir séu sammála skoðunum hans – og svo sannarlega eru það alls ekki allir. Pólitískir andstæðingar hans eru fjölmargir og takast á við hann með rökum en ekki fúkyrðum. Svo er fámenni og háværi hópurinn sem leggur beinlínis hatur á hann og er með hann í sigti. Hluti þessa hóps mætti á Austurvöll til að blása í flautur og púa á forsætisráðherra þegar hann hélt ræðu sína.

Á Austurvelli voru almennir borgarar mættir til að fylgjast með hátíðahöldum og voru meira en viljugir til að hlusta á forsætisráðherra. Ekki var mikill friður til þess. Flugeldur var sprengdur nálægt Alþinigshúsinu og bílflautur þeyttar í nálægum götum, blásið var í flautur og baulað, hrópað og kallað til að koma í veg fyrir að heyrðist í forsætisráðherra.

Mótmælendur hljóta að átta sig á því að þeir voru ekki fulltrúar þjóðarinnar á Austurvelli 17. júní á 80 ára afmælishátíð lýðveldisins. Þeir voru viðstöddum til mikils ama og leiðinda. En sjálfsagt stendur mótmælendum hjartanlega á sama. Boðskapurinn skiptir þá öllu máli. Mótmælendur vilja, eins og allir aðrir, frið á Gasa og til að koma þeim skilaboðum á framfæri stunda þeir svo mikinn ófrið að almenningur er orðinn uppgefinn á þeim. Það er einfaldlega ansi erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf öskrandi og telur aðrar skoðanir en sínar eigin rangar og hættulegar. Þá fer boðskapurinn fyrir ofan garð og neðan hjá fólki. Það sér bara vanstilltan hóp vera að öskra og forðar sér.

Þetta æsta fólk virðist einnig sannfært um að forsætisráðherra landsins sé fasisti. Það hefur verið margort um þá skoðun sína og kemur henni á framfæri með tilheyrandi hávaðalátum og fúkyrðaflaumi.

Hin illa staðreynd er sú að forsætisráðherra landsins býr ekki við öryggi. Það er þessu fólki að kenna, því sama fólki sem er stöðugt að tala um alheimsfrið en fer fram með ófriði. Það er engan veginn æskilegt að forsætisráðherra í litlu landi sem vill kenna sig við frið þurfi öfluga öryggisgæslu. Samt er það staðan.

Öryggisgæslan í kringum forsætisráðherra virðist fara óskaplega í taugarnar á Pírötum, sem með hverju ári verða æ skrýtnari stjórnmálaflokkur. Einn þingmanna þeirra sagði nýlega að þeim líkaði ekki að verið væri að fagna þjóðhátíð með grindverki á milli þjóðarinnar og „valdastéttarinnar“, eins og hann orðaði það.

Ef ástandið væri eðlilegt ætti almenningur svo sannarlega að fá að vera á sjálfum Austurvelli við hátíðaathöfn. Engum líkar að grindverk hafi verið sett upp til að halda almenningi frá Austurvelli en það var ekki sett þar upp af tilefnislausu. Grindverkið er ekki þarna vegna fólsku lögreglunnar eða vegna þess að henni sé annt um að skapa hér lögregluríki. Það er þarna af illri nauðsyn.

Þjóðin hefur horft upp á að veist hafi verið að Bjarna Benediktssyni oftar en einu sinni. Það er grafalvarlegt mál og ástæða er til að ætla að það geti endurtekið sig. Í óöruggu umhverfi þarf öryggisráðstafanir, jafn hvimleiðar og þær geta verið. Það er ekki bara öryggi þessa ákveðna forsætisráðherra sem gæta þarf að heldur einnig annarra ráðamanna.

Ofsi, reiði og ofstæki skapa hættu í hverju samfélagi. Skrýtið að reiðu mótmælendurnir skuli ekki koma auga á þessa eiginleika í eigin fari. Sennilega eru þeir alltof reiðir til að geta stundað sjálfskoðun.

Það er verulegt áhyggjuefni að heiftin í samfélaginu sé svo mikill að forsætisráðherra landsins stafi hætta af. Einkennilegt er þegar látið er eins og þar sé Bjarni Benediktsson vandinn og gefið í skyn að hann hafi hreinlega kallað þetta yfir sig. Ofstækið liggur ekki hjá honum, það er annars staðar.