Ragnar Þorsteinn Stefánsson fæddist í Hæðum í Skaftafelli 22. júní 1914. Foreldrar Ragnars voru Stefán Benediktsson, f. 1873, d. 1958, frá Sléttaleiti í Suðursveit og Jóhanna Jónsdóttir, f. 1875, d. 1925, frá Skaftafelli

Ragnar Þorsteinn Stefánsson fæddist í Hæðum í Skaftafelli 22. júní 1914. Foreldrar Ragnars voru Stefán Benediktsson, f. 1873, d. 1958, frá Sléttaleiti í Suðursveit og Jóhanna Jónsdóttir, f. 1875, d. 1925, frá Skaftafelli.

Ragnar fór í farskóla í sveitinni og tók fullnaðarpróf 1928. Hann hóf búskap í Hæðum með fyrri konu sinni 1948 og keypti Sel sem var næsti bær við Hæðir.

Ákveðið var að gera Skaftafell að þjóðgarði með samþykki landeigenda eins og Ragnars og keypti ríkið Skaftafell, en Ragnar hélt eftir 30% af jörðinni sinni, m.a. Freysnesi. Hann varð síðan fyrsti þjóðgarðsvörður Skaftafells.

Ragnar var hafsjór fróðleiks um Skaftafell og prýðilega ritfær, eins og sjá má af ritgerðum sem eftir hann liggja, m.a. í tímaritinu Skaftfellingi.

Fyrri kona Ragnars var Anna Pálsdóttir, f. 1928, d. 1956, frá Sauðanesi í Húnaþingi. Þau eignuðust tvö börn sem bæði dóu í æsku. Síðari kona Ragnars var Laufey Lárusdóttir, f. 1927, d. 2022, frá Svínafelli í Öræfum. Dóttir þeirra er Anna María, eigandi Hótels Skaftafells í Freysnesi.

Ragnar lést 1.9. 1994.