Handhöfum ríkisvalds er skylt að gæta velferðar almennings. Við þær aðstæður sem uppi eru varðandi fyrirsjáanlegt greiðsluþrot ÍL-sjóðs ber þeim að grípa til viðeigandi ráðstafana til að lágmarka kostnað almennings og þeir geta ekki látið við það sitja að aðhafast ekki.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Ábyrgð okkar sem erum lýðræðislega kjörin til þess að fara með löggjafarvald og fara með fjármuni ríkisins er óumdeild. Þingmenn hafa ólíkar skoðanir á hvernig lagasetningu er best háttað, ríkisstjórn skuli forgangsraða, umfang ríkisins, forgangsröðun fjárveitinga og svo framvegis. Um sumt erum við, eða ættum að vera, algjörlega sammála, eins og að standa vörð um beina hagsmuni ríkissjóðs. Umræða síðustu mánaða og örlög frumvarps sem ég lagði fram um slit ógjaldfærra opinberra aðila vekur upp spurningu um hvort það grunngildi standist hjá öllum þingmönnum.

Frumvarpið felur í sér að til verði lagalegt ferli til að bregðast við því ef aðilar á forsvari hins opinbera verða ógjaldfærir. Það er mikilvægt að slíkur lagarammi sé til staðar svo unnt sé að vinna vel úr slíkum málum sem upp kunna að koma en það er um leið ekkert leyndarmál að kveikjan að frumvarpinu er alvarlegur fjárhagsvandi ÍL-sjóðs, eða þess sem eftir er af Íbúðalánasjóði.

Fjárhagsvandi Íbúðalánasjóðs var í hnotskurn sá að hann veitti uppgreiðanleg lán, fjármögnuð með óuppgreiðanlegum skuldabréfum áður en vaxtastig tók almennt að lækka. Afleiðingin var sú að lán voru greidd upp og eftir sátu skuldir á vöxtum langt yfir markaðsvöxtum. Af þeim sökum hefur verulegt tap verið á rekstri sjóðsins og fyrir liggur að eignir hrökkva ekki fyrir skuldum.

Skylda til að aðhafast

Áætlanir sýna að sjóðurinn tapar um 1,5 ma.kr. á mánuði eða 18 milljörðum á ári. Það eru hátt í 50.000 krónur á hvert mannsbarn. Til að skilja umfang vandans enn betur hefur verið reiknað að það mun kosta ríkissjóð 478 milljarða króna, miðað við áætlaða stöðu um síðustu áramót, að reka sjóðinn út líftíma hans. Það eru núvirt um 200 milljarðar króna. Sú fjárhæð dugar til að reka alla sjúkrahúsþjónustu í rúmt ár eða fjármagna öll útgjöld til samgöngumála í fjögur ár. Illa er komið fyrir Alþingi ef slíkar tölur, þar sem hagsmunir ríkissjóðs og þar með almennings eru í húfi, eru ekki tilefni til afgerandi aðgerða. Því ber einfaldlega skylda til að bregðast við eins og unnt er.

Ábyrgðarhluti

Það er ábyrgðarhluti gagnvart almenningi að taka á slíkri stöðu með fyrirhyggju í stað þess að bíða eftir að vanskil verði á skuldum. Þá kallar stærð efnahags ÍL-sjóðs á að uppgjör hans verði framkvæmt með skipulögðum hætti til að lágmarka neikvæð áhrif á eignamarkaði og fjármálastöðugleika.

Svo virðist sem þeir þingmenn sem leggjast gegn frumvarpinu telji að það feli í sér að farið verði samtímis í slit á ÍL-sjóði og að með því að greiða ekki skuldabréf sjóðsins út líftíma sé ríkið að hlaupa frá skuldbindingum sínum. Verði frumvarpið að lögum leiða þau ekki sjálfkrafa til slitameðferðar ógjaldfærs opinbers aðila. Lögin myndu veita ráðherra eða sveitarstjórn heimild, að fengnu rökstuddu erindi fyrirsvarsmanns ógjaldfærs opinbers aðila, til þess að krefjast slita á honum fyrir dómstólum.

Allir gera sér grein fyrir að hagfelldasta leiðin til þess sé samkomulag við kröfuhafa og hófust þær viðræður á meðan ég sat í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í því samhengi blasir við að ríkið hefur hagsmuni af því að frumvarpið verði að lögum og til að búa við valkosti í þeim samningaviðræðum. Hins vegar ber ríkið ekki ábyrgð umfram þá sem tilgreind er í útboðsskilmálum skuldabréfanna. Á mannamáli þýðir það að fjárfestar gátu ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður myndi leggja ÍL-sjóði til fjármagn umfram það sem leiðir af einfaldri ábyrgð bréfanna.

Við útfærslu ráðstafana af því tagi sem rætt hefur verið um ber að leitast við að ná eins hagfelldri niðurstöðu og kostur er fyrir þá sem eiga hagsmuna að gæta. Það eru fyrst og fremst almenningur og skuldabréfaeigendur. Í hverju skrefi þarf þó að leita jafnvægis milli einkahagsmuna skuldabréfaeigenda og almannahagsmuna og gæta sjónarmiða um meðalhóf.

Vandinn vex ef ekki er gripið inn í

Í einlægni vil ég trúa að grunngildið um að standa vörð um hagsmuni ríkissjóðs, fjármuni okkar allra, sé eitthvað sem lýðræðislega kjörnum fulltrúum sé annt um. Vandamálið ÍL-sjóður mun halda áfram að vaxa og vaxa ef ekki er gripið inn í. Það mun ekki eldast vel að standa í vegi fyrir að á því finnist farsæl lausn. Það hlýtur því að vera misskilningur um eðli málsins sem veldur því að að það dagaði uppi. Vonandi verður sá misskilningur frá þegar málið verður aftur tekið upp í haust og afgreitt.

Handhöfum ríkisvalds er skylt að gæta velferðar almennings. Við þær aðstæður sem uppi eru varðandi fyrirsjáanlegt greiðsluþrot ÍL-sjóðs ber þeim að grípa til viðeigandi ráðstafana til að lágmarka kostnað almennings og þeir geta ekki látið við það sitja að aðhafast ekki.

Hvar almannahagsmunir liggja er augljóst.