Ásdís Kristjánsdóttir
Ásdís Kristjánsdóttir
Þau hundrað loforð sem við settum fram fyrir tveimur árum eiga það eitt sameiginlegt að þau eru til þess fallin að auka lífsgæði í Kópavogi.

Ásdís Kristjánsdóttir

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga lagði Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi fram lista með hundrað loforðum. Þau loforð voru ábyrg og raunhæf og snertu dagleg verkefni sem eru á forræði sveitarfélaga og eru íbúum þeirra áþreifanleg. Nú tveimur árum síðar höfum við, í traustu samstarfi við Framsóknarflokkinn og samræmanlegar áherslur, þegar uppfyllt um sextíu og fimm loforð af þeim hundrað sem við settum fram og þannig þokað áfram mikilvægum verkefnum sem hafa skilað árangri.

Við lögðum upp með skýrt erindi og við fylgjum því erindi eftir. Við sinnum störfum okkar með hagsmuni íbúa á öllum aldri að leiðarljósi um leið og þess er gætt að sveitarfélagið sé rekið með ábyrgum hætti. Það er því mikilvægt að hafa skýra sýn á verkefnin, hugsa út fyrir hinn hefðbundna ramma, þora að gera breytingar og hagræða í rekstri án þess að bitni á lífsgæðum íbúa. Þannig höfum við starfað á fyrri hluta kjörtímabilsins og munum halda því áfram.

Sveitarstjórnarmál eru að mörgu leyti ólík landsmálunum. Málefni sveitarfélaga snerta okkur með beinum hætti nær daglega. Þau snúast um börnin okkar í leik- og grunnskólum, skipulag hverfa, aðstöðu til íþróttaiðkunar, blómlegt menningarstarf og útivistarsvæði. Þá treysta bæjarbúar því að götur séu sópaðar, grasið slegið og ruslið hirt – eins og tilvikið er í Kópavogi.

Aukin lífsgæði Kópavogsbúa

Á fyrri hluta kjörtímabilsins höfum við staðið vörð um ábyrgan rekstur Kópavogsbæjar. Á sama tíma höfum við lækkað skatta á bæjarbúa bæði árin um samtals milljarð, sem situr þá eftir í vösum bæjarbúa.

Við innleiddum það sem nú er þekkt sem Kópavogsmódelið og höfum með því stuðlað að bættri þjónustu í leikskólum bæjarins. Leikskólabörn eru ekki lengur send heim sökum manneklu, þjónustan er betri og það sem öllu máli skiptir – fleiri börn fá leikskólapláss í dag en fyrir ári enda flestir leikskólar fullmannaðir.

Við breyttum áherslum í starfsemi menningarhúsa, forgangsröðuðum fjármunum með öðrum hætti, efldum sjálfsafgreiðslu og spöruðum fjármagn til að nýta fremur í að stórefla menningarstarfsemina. Á afmælisdegi Kópavogs, 11. maí sl., var opnuð ný stórglæsileg menningarmiðja sem samþættir náttúruvísindi, bókmenntir og listir. Þessi breyting kallaði ekki á aukið fjármagn, heldur er farið betur með fjármagn bæjarbúa samhliða því sem okkur hefur tekist að hagræða í rekstri.

Við höfum gætt hagsmuna Kópavogsbúa í áformum um uppbyggingu samgönguinnviða fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Við höfum „rampað upp“ Kópavog og bætt aðgengi fatlaðra, sparað bæjarbúum sporin með aukinni sjálfvirknivæðingu og innleitt spjallmenni með markvissum hætti. Nýtt hverfi sem mun bjóða upp á fjölbreytta húsakosti fyrir ólíkar þarfir hefur verið skipulagt í efri byggðum Kópavogs. Við höfum lagt af stað í þá vegferð að byggja upp lífsgæðakjarna fyrir eldri bæjarbúa að norrænni fyrirmynd. Við höfum eflt geðrækt ungmenna með því að stórefla Molann, ungmennahús Kópavogs, með breyttum áherslum.

Verkefnin eru ótalmörg og hér er aðeins stiklað á stóru við yfirferð þess sem við höfum framkvæmt á tveimur árum. Á síðari hluta kjörtímabilsins eru frekari verkefni í burðarliðnum. Þau hundrað loforð sem við settum fram í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum eiga það eitt sameiginlegt að þau eru til þess fallin að auka lífsgæði í Kópavogi. Við ætlum að tryggja að framtíðin verði í Kópavogi.

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi.